„Þessi árás á varðskipið var alveg skelfileg,“ segir Kristján Jóhannsson vélstjóri, sem var um borð á varðskipinu Tý þegar herskip Breta sigldi tvívegis af afli á varðskipið í þorskastríðinu. Týr fór á hliðina við hina fyrri árás og ótrúlegt var að allir þeir 21 sem þar voru hafi ekki farist. Seinni árásina vildu sumir kalla hreint og beint morðtilraun.

Kristján er gestur Óttars Sveinssonar í þættinum Útkall í kvöld á Hringbraut þar sem þessi atburður er rifjaður upp.

Brot úr þættinum er í spilaranum hér að neðan

Þeir meira en óttuðust að skipverjarnir þrír aftur í skipinu hefðu farist. „Við reiknuðum með því,“ segir Kristján.

Varðskipin þrjú á austfjarðarmiðum, Baldur, Óðinn og Týr höfðu tekið sig saman um að hindra veiðar Breta. Tveim til þremur dögum fyrir árásina höfðu þau klippt á þrjá breska togara.

Langalvarlegasti atburður þorskastríðanna þriggja varð þegar hinni risastóru bresku freygátu Falmouth var siglt tvisvar á fullri ferð og öllu afli á varðskipið Tý, þar sem Guðmundur Kærnestad var skipstjóri.

Eftir fyrri árásina tók Guðmundur þá ótrúlegu ákvörðun að sigla þá beint að Bretunum og klippa á aðra skrúfuna hjá þeim. Þar með réðist Falmouth aftur á Tý. Tvívegis sama kvöldið komast íslensku skipverjarnir í stjórkostlega lífshættu.

Annað brot úr þættinum er í spilaranum hér að neðan

Heiftin í stríðinu um útfærslu fiskveiðilögsögunnar var orðin slík þann 6.maí 1976 undir lok stríðanna í landhelgisdeilunni að mannslífum mátti fórna.

Útkall er á dagskrá öll þriðjudagskvöld Kl.19.30. Þættirnir eru sjónvarpsútgáfan af metsölubókum Óttars og að þessu sinni Útkall – Týr er að sökkva.