„Ég reyni að gera ekki upp á milli landshluta og leyfi afskekktum annesjum, eyðisveitum, malarflákum og firnindum að njóta sín til jafns við Þingvelli og fjalladrottningar,“ segir Sæunn Þorsteinsdóttir sem opnar sýningu í Listasal Mosfellsbæjar á morgun milli klukkan 16 og 18.

Sæunn kallar sýninguna Landbrot enda eru þar aðallega lágmyndir unnar úr landakortum. Um vinnuferlið segir Sæunn. „Ég handleik hvern kortabút, slétta og brýt og staldra við nöfn og staði. Kræki saman bútum, lími eða sauma svo úr verður nýtt landslag.“

Landbrot stendur út 23. mars, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.