Listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, eða Odee, sem vakti mikla athygli með MOM Air gjörningnum á síðasta ári, stóð fyrir öðrum gjörningi í desember síðastliðnum þar sem hann notaði myndvarpa til að spila tölvuleiki á veggjum margra þekktra bygginga. Odee kallar þetta stafrænt graffítí og segir að þessi aðferð geti nýst á ýmsa vegu.

Fékk mikinn stuðning

MOM Air gjörningurinn var hluti af verkefni sem Odee vann fyrir Listaháskóla Íslands. Hann vakti mjög mikil viðbrögð og var stór frétt hjá mörgum af stærstu miðlum heims og gerði Odee kleift að framkvæma þennan síðasta gjörning.

„MOM Air opnaði gáttina fyrir þetta,“ segir hann. „Eftir það var mér boðið í lokaðan 200 manna alþjóðlegan listamannahóp sem kallar sig The most famous artist. Það var mikill heiður að fá að vera með í hópnum, sem stóð meðal annars fyrir uppsetningu á málmsúlum víðs vegar um heiminn seint á síðasta ári sem vöktu mikla athygli. Hópurinn seldi svo hverja súlu fyrir tæplega sex milljónir króna.

Fyrst spilaði Odee Mortal Kombat á framhlið Alþingishússins.

Ég vakti svo mikla athygli með MOM Air að ég nýt töluverðar virðingar innan hópsins og var strax fenginn í að halda fyrirlestra,“ útskýrir Odee. „Þannig að þegar ég fékk hugmynd að nýjum gjörningi var auðvelt að fá fjárhagslegan stuðning til að framkvæma hann.“

Opnar á nýja vídd

„Þegar kemur að vegglist eða útilistaverkum er alltaf mikil áhersla á leyfi, en ég gat ekki fundið nein lög sem banna manni að varpa einhverju svona,“ segir Odee. „Mér fannst það spennandi tilhugsun að opna inn á þessa vídd fyrir myndlistarmenn til að koma listaverkum, ádeilu eða mótmælum á framfæri. Þetta er gert kringum vetrarhátíðina og listahátíðir en bara þá, væntanlega af því að þetta er kostnaðarsamt, en ég þurfti að leigja 60 kg skjávarpa, lítinn sendibíl og rafstöð.

Það var skemmtilegt og krefjandi að útfæra þetta verkefni fyrir skólann og gaman að fá stuðning til að geta framkvæmt þetta,“ segir Odee. „Ég held að þetta opni nýja vídd og sýni að svona sé ekkert bundið við hátíðir. Þetta er bara ljósbirta og einu lögin um hana er að finna í byggingarreglugerðum, en þar er átt við varanlegt ljós. Þannig að svona stafrænt graffítí er ekki ólöglegt.

Það skapaðist súrrealískt andrúmsloft þegar Odee var að drepa djöfla í Doom utan á Háteigskirkju.

Þetta verkefni var líka smá ádeila á ástandið. Við erum öll föst heima í COVID og ég var búinn að vinna með þetta flugfélag og löngunina til að komast til útlanda en núna vildi ég brjótast út af sófanum og hætta að spila PlayStation þar og gera það frekar úti,“ segir Odee. „Mér fannst margir áhugaverðir snertifletir á þessu og sé fyrir mér að framkvæma þetta aftur seinna annars staðar.“

Greip almættið inn í?

„Verkið heitir Playing Outside og þegar kom að því að velja staðina til að varpa á datt mér strax í hug Stjórnarráðið, Alþingi og Bessastaðir,“ segir Odee. „Mig langaði að spila PlayStation því mig langaði að nota þessa formlegu staði á hversdagslegan hátt. Það var eiginlega til að segja mína skoðun á þessum vettvöngum, ég hef ekki mjög hátt álit á þeim.

Um miðjan desember varpaði ég Mortal Kombat á Alþingishúsið. Ég sá tengingu þarna á milli því Alþingi nær aftur til víkingaaldar þegar menn drápu hvorn annan til að leysa deilumál,“ segir Odee. „Lögreglan ræddi við mig eftir þetta en vissi ekki alveg hvað hún átti að gera við mig og leyfði mér að fara eftir að hún lét mig blása.

Fólk kippti sér ekkert upp við það þegar Odee spilaði Mine­craft framan á Stjórnarráðinu.

Í kjölfarið fór ég á lögreglustöðina í Kópavogi og spilaði Grand Theft Auto utan á lögreglustöðinni,“ segir Odee. „Þannig að ég var að draga að mér lögregluathygli bæði innan og utan leiksins. Mér fannst það eitthvað svo fáránleg pæling að myndlistarmaður væri að fremja glæpi og skjóta á löggur á lögreglustöðinni í Kópavogi.

Ég spilaði líka Minecraft utan á Stjórnarráðinu. Mér fannst það viðeigandi því hann gengur út á auðstjórnun, að safna hlutum, geyma þá og byggja eitthvað,“ segir Odee. „Það var fyndið hvað fólk kippti sér ekkert upp við þetta. Það voru leigubílstjórar í röð þarna og enginn leit upp, þó að ég væri að tala við svín og reyna að gefa því að borða utan á Stjórnarráðinu.

Svo spilaði ég Doom á Háteigskirkju og mér fannst viðeigandi að vera djöflabani utan á kirkju. Það voru líka rauð ljós í kirkjunni sem pössuðu mjög vel við leikinn og sköpuðu frekar súrrealískt andrúmsloft,“ segir Odee. „Þegar ég var þar slökknaði skyndilega á öllu og ég hélt að þessi margmilljón króna búnaður sem ég var með væri ónýtur. Á tímabili var ég farinn að halda að almættið hefði gripið inn í en svo kom í ljós að það hafði bara slegið út.

Ég fór líka á Bessastaði klukkan þrjú um nótt og spilaði þar. Lögreglan kom þá en þau vissi greinilega hver ég var og hvað var að gerast og sögðust ekki vilja trufla mig meira,“ segir Odee. „Þá voru þau greinilega búin að finna út að þetta væri ekki ólöglegt.“

Odee þurfti að leigja rándýran búnað, 60 kg skjávarpa, lítinn sendibíl og rafstöð, til að geta framkvæmt gjörninginn.