Við tínum alltaf upp kubbana beint af gólfinu, látum þá ekki liggja. Hver kubbur er svo dýrmætur,“ segir Rakel Ósk Þorgeirsdóttir, einn stofnenda Aðdáendafélags um LEGO, þegar hún hafnar því alfarið að fullorðið fólk hafi lítið með LEGO að gera annað en að stíga á kubba með tilheyrandi sársaukaópum.

Rakel situr í stjórn félagsins, sem er skammstafað AFUL. Í bili í það minnsta en nafnið gæti breyst, eins og allt sem kubbað er úr LEGO. „Það má segja að nafnið sé í vinnslu en við negldum þetta niður svona en það er hægt að breyta því seinna meir.“

Og út á hvað gengur þessi félagsskapur? Hittast og kubba saman?

„Sko, markmiðið með félaginu er að skapa stað þar sem allir, áhugafólk um LEGO á Íslandi, sérstaklega fullorðnir samt, hafi bæði tækifæri til að hittast persónulega og á netinu,“ segir Rakel sem skipar fyrstu stjórn félagsins ásamt þeim Brynjari Benediktssyni, Birgi Smára Ársælssyni og Guðnýju Guðnadóttur.

Óður til kubbagleðinnar

„Við viljum náttúrlega breiða út þessa vináttu og jafnrétti í öllu okkar starfi og þetta á allt að vera jafnt,“ segir Rakel og áréttar jöfn kynjahlutföll í stjórninni. „Það verður mikil áhersla á gleðina og við ætlum að hafa þetta mjög gagnsætt. Bara eins og félög eiga að vera,“ segir Rakel og bætir við að spennandi tímar séu fram undan.

Doppurnar eru mikill gleðigjafi þangað til að stigið er á þær berum fótum.

„Samtökin vilja sem sagt hvetja til útbreiðslu LEGO-áhugamálsins og tengjast öðrum aðdáendafélögum með alþjóðlegu samstarfi, viðburðum hér á Íslandi og bara kærleik og vináttu eins og mottó LEGO hefur verið frá upphafi. Fá alla með.“

Ekki bara átta doppur

En er ekki LEGO alltaf bara LEGO og kubbarnir alltaf eins? Eru ekki takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að tala um þetta og velta kubbunum fyrir sér?

„Nei, þetta er nefnilega alltaf í vinnslu hjá þeim og þegar maður er að kubba eitthvað nýtt rekst maður til dæmis stundum á kubba sem maður hefur aldrei séð áður. Þannig að þeir eru alltaf að koma með nýja kubba og þetta er ekkert bara þessi klassíski með átta doppum. Við mælum allt í doppum, sko,“ segir Rakel með vísan til þess eðlisþáttar kubbanna sem heldur þessu öllu saman.

„Kubbarnir eru að breytast og það eru alltaf að koma nýjar tengingar og nýir fídusar og þannig. Þetta er og hefur alltaf verið að þróast síðan þetta byrjaði sem tréleikfang,“ segir Rakel og nefnir sem dæmi Star Wars-settin sem njóti mikilla vinsælda. Ekki síst í fullorðnu deildinni.

Kubbað með frjálsri aðferð

„Síðan er líka eigin sköpun mjög vinsæl. Svokallað MOC, My Own Creation. Ég veit ekki hvað við eigum að kalla það, Mín eigin sköpun, MÍS? Við eigum líka eftir að þýða öll svona orð og hugtök yfir á íslensku. Það verður eitt af verkefnum félagsins,“ segir Rakel og heldur áfram að tala um kubb með frjálsri aðferð.

„Þú færð kassa og leiðbeiningarnar en síðan geturðu búið til það sem þú vilt og þér dettur í hug. Bara nota ímyndunaraflið. Það er bara ótrúlegt hvað það er hægt að búa til og við viljum efla sköpunargleðina og listamennina í fólki.

Ég var svolítið hissa á að það væri ekki búið að mynda svona félagsskap og við viljum bara breiða út gleðina og verða þessir LEGO-sendiherrar á Íslandi og fá að vera aðeins meira með á alþjóðlega vísu.“