Ljósmyndahátíð Íslands hófst í gær, 13. janúar, en um er að ræða alþjóðlega hátíð sem haldin er annað hvert ár.

Markmið Ljósmyndahátíðar er að vinna að framþróun ljósmyndunar sem listforms og verða fjölmargar sýningar haldnar í listasöfnum og galleríum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, þar á meðal í Listasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Gallery Port og BERG Contemporary.

Stjórnendur hátíðarinnar eru Katrín Elvarsdóttir og Pétur Thomsen sem eru bæði starfandi ljósmyndarar.

„Þetta er stærra heldur en þetta hefur nokkurn tímann verið því það eru þrettán sýningar sem er verið að opna,“ segir Katrín en bætir þó við að Covid-faraldurinn hafi sett nokkuð stórt strik í reikninginn og gert það að verkum að fresta þurfti öllum viðburðum hátíðarinnar fram í mars.

„Allir viðburðir sem venjulega hafa verið í upphafi hátíðarinnar, þeir verða ekki fyrr en í lok mars. Við svona gerum þetta á öfugum endanum en það er allt opnað núna.“

Hátíðin verður ekki sett formlega í ár vegna samkomutakmarkana en sérstök viðburðahelgi verður haldin í lok mars með viðburðum á borð við bókasýningu, ljósmyndarýni og málþingi í Listasafni Íslands.

Aðspurð hvað standi upp úr á hátíðinni segir Katrín það sæta tíðindum hversu margir samstarfsaðilar eru en næstum öll listasöfn höfuðborgarsvæðisins taka þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Þá nefnir hún sérstaklega sýninguna Sviðsett augnablik sem er sýningarstýrt af Vigdísi Jónsdóttur og fer fram í Listasafni Íslands.

„Sýningin í Listasafni Íslands er mjög stór, það er sem sagt safneignarsýning, yfirlit yfir safneignina í Listasafni Íslands. Þar er þá ljósmyndamiðillinn tekinn og verið að rannsaka hvað þau eiga,“ segir hún og bætir við að sambærileg rannsókn á safnkosti listasafnsins hafi ekki verið gerð áður.