Par ársins er klárlega Harry Bretaprins og Meghan Markel nýbökuð eiginkona hans. Fjölmiðlar fylgjast með þeim hvert fótmál og fátt virðist fara fram hjá þeim. Vefmiðlar um heim allan gera því skónna að Meghan sé nú þegar barnshafandi og vísa í nýlegar myndir af hertogaynjunni máli sínu til stuðnings.

Samkvæmt nýjustu fréttum er Doria Ragland mamma Meghan í óða önn að undirbúa sig fyrir komu barnabarns síns, en hún sótti sérstakt námskeið í meðferð ungbarna. Talið er nokkuð víst að hún muni flytjast búferlum frá Bandaríkjunum til Englands til að vera dóttur sinni til halds og trausts.

Sé raunin sú að Meghan eigi von á sér þá verður það ekki formlega tilkynnt fyrr en eftir þriggja mánaða meðgöngu. Þriggja mánaða reglunni hefur alltaf verið fylgt innan konungsfjölskyldunnar nema með einni undantekningu sem var á seinustu meðgöngu Katrínar Middleton, en vegna veikinda hennar í upphafi meðgöngunnar þótti réttast að tilkynna um hana sem fyrst.