Stjörnuparið Harry og Meg­han fjár­festu í glæsi­legri níu her­bergja villu í Mon­tecito í Kali­forníu í fyrra. Eini gallinn er hins vegar sá að húsið er stað­sett í að­eins tíu mínútna fjar­lægð frá gríðar­stórri kanna­bis­verk­smiðju sem hefur að sögn ná­granna for­pestað allt hverfið með stækri gras­lykt.

Kanna­bis er lög­legt í Kali­forníu og fjöl­mörgum öðrum fylkjum Banda­ríkjanna og hefur fyrir­tæki sem fram­leiðir plöntuna grænu komið upp tuttugu stórum gróður­húsum í stein­snar frá heimili her­togans og her­toga­ynjunnar af Sus­sex.

Eftir margar kvartanir frá ná­grönnum hefur fyrir­tækið þó heitið því að koma upp nýjum hreinsi­búnaði til að tak­marka lyktina en einn ná­granni sem Sunday Mirror ræddi við sagði að hún væri svo slæm að hann hefði þurft að stoppa bílinn sinn.

Gregory Gandrud, sex­tugur ná­granni Harry og Meg­han, sagði þetta vera góðar fréttir fyrir hverfið.

„Lyktin var að verða sterkari og á leiðinni í þeirra átt. Ég var að keyra á hrað­brautinni og lyktin skall á mér. Ég varð að stoppa. Hún lét mig al­gjör­lega missa þráðinn,“ segir Gregory og bætir við að margir séu að þjást vegna lyktarinnar.

Loftmynd af glæsihýsi Harry og Meghan.
Mynd/Sunday Mirror

Slotið kostaði 1,2 milljarða

Ef til vill truflar þó smá gras­lykt ekki Harry og Meg­han því bæði hafa þau ein­hverja reynslu af hug­víkkandi efnum. Harry viður­kenndi til að mynda að hafa reykt kanna­bis sem ung­lingur og var meira að segja sendur á með­ferða­stofnun í einn dag þegar hann var sau­tján ára af föður sínum, Karli Breta­prins.

Þá á Meg­han að sögn að hafa gefið gestum í fyrsta brúð­kaupi sínu kanna­bisjónur en það var haldið árið 2011 á Jamaíka, þar sem kanna­bis er lög­legt.

Harry og Meg­han fluttu til Mon­tecito í fyrra eftir að hafa dvalið í húsi kvik­mynda­fram­leiðandans Tyler Perry um nokkurra mánaða skeið. Glæsihýsið kostaði rúma 1,2 milljarða ís­lenskra króna og inni­heldur meðal annars bíó­sal, sund­laug, tennis­völl, bóka­safn og vín­kjallara. Verður það framtíðarheimili hjónanna og tveggja barna þeirra, Archie og Lilibet.

Ná­grannar þeirra skjötu­hjúa eru líka ekki af verri kantinum en svæðið er einkar vin­sælt hjá ríka og fræga fólkinu. Þá býr Oprah Win­frey til dæmis í 90 milljón dollara húsi í grenndinni en í vor tók hún frægt við­tal við Harry og Meg­han þar sem þau sögðu frá upp­lifun sinni að hafa yfir­gefið bresku konungs­fjöl­skylduna.