Stjörnuparið Harry og Meghan fjárfestu í glæsilegri níu herbergja villu í Montecito í Kaliforníu í fyrra. Eini gallinn er hins vegar sá að húsið er staðsett í aðeins tíu mínútna fjarlægð frá gríðarstórri kannabisverksmiðju sem hefur að sögn nágranna forpestað allt hverfið með stækri graslykt.
Kannabis er löglegt í Kaliforníu og fjölmörgum öðrum fylkjum Bandaríkjanna og hefur fyrirtæki sem framleiðir plöntuna grænu komið upp tuttugu stórum gróðurhúsum í steinsnar frá heimili hertogans og hertogaynjunnar af Sussex.
Eftir margar kvartanir frá nágrönnum hefur fyrirtækið þó heitið því að koma upp nýjum hreinsibúnaði til að takmarka lyktina en einn nágranni sem Sunday Mirror ræddi við sagði að hún væri svo slæm að hann hefði þurft að stoppa bílinn sinn.
Gregory Gandrud, sextugur nágranni Harry og Meghan, sagði þetta vera góðar fréttir fyrir hverfið.
„Lyktin var að verða sterkari og á leiðinni í þeirra átt. Ég var að keyra á hraðbrautinni og lyktin skall á mér. Ég varð að stoppa. Hún lét mig algjörlega missa þráðinn,“ segir Gregory og bætir við að margir séu að þjást vegna lyktarinnar.

Slotið kostaði 1,2 milljarða
Ef til vill truflar þó smá graslykt ekki Harry og Meghan því bæði hafa þau einhverja reynslu af hugvíkkandi efnum. Harry viðurkenndi til að mynda að hafa reykt kannabis sem unglingur og var meira að segja sendur á meðferðastofnun í einn dag þegar hann var sautján ára af föður sínum, Karli Bretaprins.
Þá á Meghan að sögn að hafa gefið gestum í fyrsta brúðkaupi sínu kannabisjónur en það var haldið árið 2011 á Jamaíka, þar sem kannabis er löglegt.
Harry og Meghan fluttu til Montecito í fyrra eftir að hafa dvalið í húsi kvikmyndaframleiðandans Tyler Perry um nokkurra mánaða skeið. Glæsihýsið kostaði rúma 1,2 milljarða íslenskra króna og inniheldur meðal annars bíósal, sundlaug, tennisvöll, bókasafn og vínkjallara. Verður það framtíðarheimili hjónanna og tveggja barna þeirra, Archie og Lilibet.
Nágrannar þeirra skjötuhjúa eru líka ekki af verri kantinum en svæðið er einkar vinsælt hjá ríka og fræga fólkinu. Þá býr Oprah Winfrey til dæmis í 90 milljón dollara húsi í grenndinni en í vor tók hún frægt viðtal við Harry og Meghan þar sem þau sögðu frá upplifun sinni að hafa yfirgefið bresku konungsfjölskylduna.