Inn­ræti er titill fyrstu ljóða­bókar Arn­dísar Þórarins­dóttur en hún fékk 2016 og 2019 viður­kenningu í sam­keppninni um Ljóð­staf Jóns úr Vör.

„Ég þekki það úr barn­æsku að heillast af bundnum skáld­skap, tungu­taki og hrynjandi. Á tíma­bili sótti ég í Tómas Guð­munds­son, Davíð Stefáns­son og fé­laga en ég var ekki einn af ung­lingunum sem alltaf voru að yrkja ljóð. Ég byrjaði ekki að fást við ljóða­gerð fyrr en á fer­tugs­aldri. Þá fór ég í nám í rit­list í Há­skóla Ís­lands og æfði mig þar í alls konar texta­gerð sem ég hafði ekki prófað áður. Svo sat ég þar nám­skeið sem öllum rit­listar­nemum verður tíð­rætt um, hjá Sigurði Páls­syni 2016 og 2017. Þar kenndi hann okkur fyrst og fremst að lesa ljóð. Það að lesa ljóð á virkan hátt kveikti á ljóða­tauginni,“ segir Arn­dís.

Létt­leiki í ljóðunum

Lang­flest ljóðin eru ort á síðasta ári. „Yrkis­efnið er hvers­dags­leikinn; móður­hlut­verkið, ferða­lög, staður manns í til­verunni og plássið sem maður tekur. Ég tók líka eftir því þegar ég las safnið yfir að oft er ég að velta fyrir mér fram­tíð eftir að ljóð­mælandi er ekki lengur á meðal okkar, sem er kannski dá­lítið nötur­legt, en tengist samt þessum vanga­veltum um hlut­verkið. Á ein­hverjum tíma­punkti lýkur hlut­verkinu.

Ég vildi samt að það yrði á­kveðinn létt­leiki í ljóðunum óháð um­fjöllunar­efninu. Það er svo margt skrýtið í heiminum sem er gaman að skoða betur. Tónninn leitast við að vera ís­meygi­legur eða jafn­vel íronískur, en vonandi án þess að glata ein­lægni.“

Arn­dís segir að hún haldi að ljóðin séu að­gengi­leg. „Tungu­takið er blátt á­fram og ég vona að fólk sem er ekki vant að lesa ljóð geti fundið í þeim dyr inn í þessa álmu skáld­skaparins.“

Bók er sögu­maður

Arn­dís er þekkt fyrir barna- og ung­linga­bækur sínar. Bók hennar Nær­buxnanjósnararnir var til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna í fyrra í flokki barna- og ung­linga­bóka. Hún er nú að skrifa barna­bók sem fjallar um hand­rit sem lifir allt af. Spurð nánar um bókina kemur í ljós að þar er að finna ó­venju­legan sögu­mann: „Í sögunni verður Möðru­valla­bók fylgt frá ritun á fjór­tándu öld og í gegnum alla Ís­lands­söguna til Dan­merkur og heim aftur. Bókin sjálf er sögu­maðurinn,“ segir hún. „Ég í­hugaði upp­haf­lega að hafa einn sögu­mann í hverjum kafla en komst svo að því að það myndi ekki ganga vel upp því í byrjun hvers kafla yrði sögu­maðurinn í kaflanum á undan löngu dauður. Þannig yrði sorgar­ferlið í bókinni æði um­fangs­mikið. Mér fannst betra að fylgja bókinni og hennar per­sónu­leiki mótast af Ís­lendinga­sögunum ellefu sem hún geymir.“

Til stendur að bókin komi út 21. apríl 2021 þegar 50 ár eru síðan Danir skiluðu fyrstu hand­ritunum heim til Ís­lands.

Efni­leg

Allar mínar góðu horfur
sigldu utan
með haust­skipum

Ég sit við gluggann
og læt mig dreyma
um allt sem gæti orðið

Seinna

Ég er festar­mær fram­tíðarinnar
líkt og Ingi­björg
bundin Jóni