Spurningar hafa vaknað í Bret­landi um tengsl fræga fólksins við sam­fé­lags­miðla og götu­blöðin þar í landi eftir dauða sjón­varps­konunnar Caroline Flack. Greint er frá um­ræðunni sem átt hefur sér stað í Bret­landi undan­farna daga í frétta­skýringu á vef CNN. Fram­tíð Love Is­land meðal annars sögð í ó­vissu.

Flack, sem var 40 ára, hætti sem kynnir raun­veru­leika­þáttanna Love Is­land eftir að kærasti hennar á­kærði hana fyrir líkams­­á­rás en hún greindi frá því síðast­liðinn fimmtu­­dag að hún kæmi til með að opna sig um á­sakanirnar og sam­band sitt en réttar­höld vegna málsins höfðu ekki enn farið fram.

Flack hafði undan­farnar vikur og mánuði mátt þola ó­vægna um­fjöllun í götu­blöðum og á sam­fé­lags­miðlum vegna málsins. Hún fannst svo látin í íbúð sinni í norð­austur­hluta London á laugar­daginn. Þátta­stjórn­endur Love Is­land sendu frá sér sér­staka til­kynningu í gær þar sem hennar var minnst.

Götu­blöðin harð­lega gagn­rýnd

Í um­fjöllun CNN er tekið fram að geð­heil­brigðis­sam­tök vari við því að um­ræðan um or­sakir sjálfs­víga sé ein­földuð. Við­brögð al­mennings í Bret­landi við dauða sjón­varps­konunnar hafi hins vegar verið ein­föld og breskum götu­blöðum kennt um dauðann.

Þess er getið að frægðar­sól Flack hafi risið þökk sé götu­blöðum, sem hafi svo fljótt snúist gegn henni þegar fór að síga á hallann. Hafa margir meðal annars líkt um­fjöllun um leik­konuna við um­fjöllun um her­toga­ynjuna Meg­han Mark­le.

„Öll hennar mis­tök gerðust á opin­berum vett­vangi vegna um­fjöllunar fjöl­miðla,“ sagði út­varps­konan Laura Whit­mor­e, vin­kona Flack og nú­verandi þátta­stjórnandi Love Is­land. „Til fjöl­miðla sem djöfla­væða og rífa niður árangur: Við erum komin með nóg.“

Þá hefur skapast um­ræða að nýju í Bret­landi um að reglu­gerðir um um­fjallanir fjöl­miðla um opin­berar per­sónur verði hertar. „Það sem gerðist við Caroline Flack mun gerast við sak­laust fólk aftur og aftur, þar til stjórn­völd bregðast við,“ er haft eftir Nat­han Spar­kes, frá bar­áttu­hópnum Hacked Off, sem berst fyrir því að fjöl­miðlar beri á­byrgð í auknum mæli.

David Banks, fjöl­miðla­fræðingur, varar hins vegar við því að fjöl­miðlum sé kennt um and­lát leik­konunnar. „Að kenna ein­hverju eiu um dauða hennra, er að mínu mati og að gefinni reynslu, mis­tök,“ segir hann. „Það gerðust margir hlutir í lífi hennar sem við vitum lítið um, til að mynda réttar­höldin, sam­band hennar við kærasta hennar og á­stæður þess að hún var rekin sem þátta­stjórnandi Love Is­land.“

Fjöldi fólks hefur tjáð sig um Flack og líðan hennar. Leikarinn Rus­sell Brand líkir henni við söng­konuna Amy Winehou­se, sem lést árið 2011 og hlaut alla tíð mikla at­hygli fjöl­miðla. Kallaði hann eftir aukinni góð­vild í um­ræðunni og tengslunum milli frægra, sam­fé­lags­miðla og fjöl­miðla.

Tjáði sig oft um um­ræðuna á sam­fé­lags­miðlum

Í um­fjöllun CNN er tekið fram að ó­vægin um­fjöllun breskra götu­blaða um stjörnur sé ekki ný af nálinni. Hispurs­laus um­ræða á sam­fé­lags­miðlum sé hins vegar nokkuð ný og oft enn verri en sú sem finna má í götu­blöðunum.

„Fólk segir að þú verðir að ganga í gegnum svona gagn­rýni af því að þú vinnur í sjón­varpi. Í al­vörunni? Af hverju? Hver segir það?“ skrifaði Flack í sjálfs­ævi­sögu sína sem kom út árið 2015.

„Það versta var senni­lega Twitter,“ skrifaði hún. „Sama hversu ó­geð­felld þau eru, að þá þurfa dag­blöð að passa sig út af lög­sóknum og einka­lífi. En Twitter er öðru­vísi, enginn rit­stýrir því.“

Lang­ca­ster-James, sem vinnur með stjörnum að því að kljást við netein­elti og of­beldi, segir í sam­tali við banda­ríska miðilinn að sam­fé­lags­miðlar séu gjarnan slæmir staðir fyrir fræga ein­stak­linga.

„Við heyrum þetta aftur og aftur, sam­fé­lags­miðlar gera margt enn verra fyrir fólk í opin­berri um­ræðu,“ segir hún. „Al­menningur sér oftast ekki að fólk á erfitt...við sjáum bara ó­raun­veru­lega mynd af lífum fólks á netinu og það sama gildir um stjörnur.“

„Það getur einnig reynst þeim erfitt að tjá sig um raun­veru­lega líðan sína, því oft snúa á­hyggjurnar að því að það muni hafa á­hrif á feril þeirra. Við heyrum þetta frá mörgum skjól­stæðngum okkar. Þeir vilja ekki að fram­leiðslu­fyrir­tækin viti að þau eigi erfitt.“

View this post on Instagram

❤️

A post shared by Caroline (@carolineflack) on

Fram­tíð Love Is­land í ó­vissu?

Í um­fjöllun CNN kemur fram að dauði Caroline Flack setji fram­tíð raun­veru­leika­þáttanna Love Is­land, sem gerðu hana heims­fræga, í ó­vissu. Nýjustu þættirnir í sjö­ttu seríu þáttanna voru ekki sýndir síðustu helgi, eins og venjan er. Fyrsti þáttur eftir dauða hennar birtist á skjám Breta á mánu­dag, þar sem hennar var minnst.

Sjötta serían mun klárast í næstu viku og kemur fram í um­fjölluninni að þættirnir reiði sig ein­mitt á um­ræðuna um kepp­endur á sam­fé­lags­miðlum og í götu­blöðunum. Í einum hluta hverrar seríu lesa kepp­endur til að mynda niðrandi tíst um sig af Twitter. Þá hafa þó nokkrir kepp­endur rætt nei­kvæða um­ræðu um sig á sam­fé­lags­miðlum.

Eyal Booker, einn kepp­enda, hefur meðal annars sakað þátta­stjórn­endur um að ala á nei­kvæðri um­fjöllun um kepp­endur. Segir þættina raunar lifa á menningu þar sem al­menningi gefst kostur á að setjast í dómara­sæti og dæma kepp­endur og gagn­rýna eins og sig lystir. Þó nokkrir kepp­endur hafa þannig fengið að kynnast reiðinni eftir ó­vin­sælar á­kvarðanir. Keppandinn Joe Garratt, meðal annars sagður hafa verið hýstur í öryggis­hýsi eftir að hann hætti í þáttunum.

ITV, fram­leiðandi þáttanna, segir hins vegar að kepp­endum sé boðin sál­fræði­þjónusta. Þá hafa þó nokkrir vinir Flack komið þáttunum til varnar, þar á meðal áður­nefnd Whit­mor­e.

„Caroline elskaði að elska. Það er það eina sem hún vildi. Sem er á­stæða þess að þáttur eins og Love Is­land var henni mikil­vægur, því þátturinn snýst um að finna ástina, vin­áttur og að hlæja. Vanda­málið var ekki þátturinn.“

Laura Whitmore tók við af Caroline Flack sem þáttastjórnandi Love Island.
Fréttablaðið/Getty