Heimir Björgúlfsson sýnir verk sín á sýningunni Zzyzx í Listasafninu á Akureyri. Titilverkið er ljósmynda-klippimyndasería unnin úr ljósmyndum sem eru teknar í Zzyzx í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu, en einnig eru á sýningunni tvö málverk og einn skúlptúr.

Heimir hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um Evrópu og Bandaríkin og hefur verið tilnefndur til alþjóðlegra verðlauna fyrir list sína. Hann býr og starfar í Los Angeles.

Blaðamaður náði tali af Heimi og forvitnaðist um sýninguna og einnig um Mojave-eyðimörkina, sem varð honum innblástur.

Nafnið vakti forvitni

„Mojave-eyðimörkin er stór og margbreytileg og ég hef oft farið þar um í gegnum tíðina við að taka ljósmyndir eða á ferðalagi eitthvert annað,“ segir Heimir. „Ég hafði oft keyrt fram hjá skiltinu Zzyzx Road frá aðalveginum og ákvað allt í einu að kíkja við, fyrir tilviljun hreinlega. Það var eitthvað við þetta nafn Zzyzx sem vakti forvitni mína og síðan varð ég alveg dolfallinn eftir að ég kynnti mér sögu staðarins. Hann hét áður Soda Springs og er með mjög merkilega sögu sem ég vann alla sýninguna út frá.

Staðurinn var endurskírður Zzyzx af manni sem hét Curtis Howe Springer árið 1944. Hann hafði eingöngu leyfi fyrir námugreftri þar, en setti upp heilsulind og hótel með fríu vinnuafli útigangsmanna, sem var starfrækt og sístækkandi þangað til 1974, þegar hann var loksins dæmdur til fangelsisvistar fyrir alls kyns svindl í sambandi við landareignina. Curtis hafði búið til tjarnir sem nú eru með froskum, til dæmis Kyrrahafs-trjáfroskum. Með tjörnunum bjargaði hann einnig, að öllum líkindum, fiskitegundinni Mojave tui chub frá útrýmingu.

Síðan þá hefur Zzyzx verið breytt í jarðfræðiháskólamiðstöð og nafnið stendur enn. Þar er samansafn af byggingum ýmist í notkun eða niðurníðslu, innan um harðgert eyðimerkurumhverfið. Götunöfnin sem Curtis Howe Springer gaf þeim eru enn til staðar í þessu smáþorpi, eins og til dæmis Boulevard of Dreams.“

Varpar fram spurningum

Titilverkið á sýningunni, klippimyndaserían, er 24 einstakar ljósmynda-klippimyndir, allar unnar upp úr ljósmyndum frá staðnum. Skúlptúrinn á sýningunni ber heitið Óður til launalausa verkamannsins. „Þar er ég að vísa til vinnuaflsins sem var notað til uppbyggingar á staðnum, sem voru útigangsmenn frá Los Angeles, sem fengu fæði og húsnæði fyrir verkamannavinnu, en ekki laun.“

Heimir segist í sýningunni vera að varpa fram spurningum um mannlega hegðun. „Hvernig við sem mannfólk göngum að umhverfinu sem vísu og notfærum okkur það, án tillits til þess. Hvernig skammtíma gróðasjónarmið blinda okkur og hvernig við teljum okkur trú um að slík hegðun sé ásættanleg. Í alþjóðlegu samhengi á þetta mjög við í dag, þó svo innblásturinn að verkunum sé byggður á atburðum sem gerðust frá 1944 til 1974.

Sögulegir viðburðir á þessari öld eru oft eins og endurtekning á mannkynssögunni, á stórum eða smáum skala, hvort sem þeir gerast í afskekktri eyðimörk í Kaliforníu, eða í íslensku samfélagi. Ég varpa fram spurningum um hliðstæður hvað varðar mannlega hegðun, hvernig gildismat við leggjum á náttúruna og umhverfið.“

Á síðasta degi sýningarinnar, sunnudaginn 16. ágúst klukkan 15.00, verður listamannaspjall með Heimi í gegnum netið.

Verk á sýningunni á Akureyri.