A! Gjöringahátíð hófst í gær, fimmtudag, og stendur fram á sunnudag. Hún er haldin í fimmta sinn og að henni standa Listasafnið á Akureyri, LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. A! er hátíð þar sem myndlistar- og sviðslistafólk fremur gjörninga og setur upp gjörningatengd verk.

Meðal viðburða er upplifunarverkið Eyja sem fer fram í Hrísey. Verkið er eftir Steinunni Knúts-Önnudóttur í samstarfi við Grétu Kristínu Ómarsdóttur og íbúa Hríseyjar og unnið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Eyja hefst í Hríseyjarferjunni klukkan hálf tólf á laugardag og stendur í tvo tíma eftir að komið er til eyjarinnar

„Við Steinunn höfum verið að vinna þetta verkefni síðan í sumar en það á sér lengri aðdraganda og tengist inn í doktorsrannsókn Steinunnar við Malmö-háskólann. Þar er hún að rannsaka sjálfbærni sviðslista í víðu samhengi: Hversu lítið er nóg?“ segir Gréta.

Upplifunin er ókeypis. Gesturinn pantar sér miða og mætir á Árskógssand þar sem ferjan ferjar hann yfir í Hrísey og á móti honum taka börn sem búa í eyjunni og fylgja gestinum á staði sem honum er boðið að vitja og leysa huglæg verkefni.

„Hrísey verður í rauninni myndlíking fyrir okkar mannlega samfélag, eyjan er líka Ísland og samfélagið,“ segir Gréta, sem fæddist og ólst upp í Hrísey. „Verkið gerist á þessu ferðalagi sem gesturinn á um eyjuna og þar sem hann hittir heimamenn og fer á ólíka staði og leysir lítil verkefni sem eru nokkuð innhverf og leiða hann í gegnum hugleiðingar um samfélag og sjálf og ábyrgð okkar og hlutverk sem þátttakenda í samfélaginu. Verkið veltir upp spurningum um það að tilheyra og í raun má segja að verkið eigi sér fyrst og fremst stað innra með gestinum.“

Gréta segir uppbyggingu verksins minna á ratleik. „Gestinum er boðið að leysa verkefni og safna þannig vegabréfsáritunum í vegabréf sem hann fær úthlutað og hann fær þær til dæmis fyrir að leggjast í grasið og hlusta á fjöllin eða að eiga samtal við heimamann í heimahúsi eða velta fyrir sér gildum sínum. Þarna fær gesturinn tækifæri til að spegla sjálfan sig. Hann er aðalleikarinn í verkinu og Hrísey er sviðsmyndin.“