KVIKMYNDIR

Síðasta veiðiferðin

★★★

Leikstjórn: Örn Marínó Arnarson, Þorkell S. Harðarson

Aðalhlutverk: Þorsteinn Bachmann, Halldór Gylfason, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Hjálmar Hjálmarsson, Þröstur Leó Gunnarsson

Síðasta veiðiferðin er ósköp snotur krúttleg gamanmynd um sex miðaldra íslenska karla sem fara saman að veiða lax. Merkilega furðulegt og fánýtt sport þar sem nú tíðkast víst að draga fiskinn að landi, mæla hann og monta sig af honum með mynd á samfélagsmiðlum áður en honum er sleppt aftur í ána.

Sjálfsagt stígur fólk sem veiðir en þó sér ekki til matar grunnt í vitið þótt vöðlurnar nái því kannski í klof og án þess að hafa nokkru sinni svo mikið sem látið að mér hvarfla að renna fyrir fisk grunar mann að veiðiferðir séu gegnumsneitt nákvæmlega eins og Síðasta veiðiferðin.

Vissulega hafa verið skrifaðar og gerðar dýpri bíómyndir á Íslandi en þessi en þær eru líka margar til býsna hallærislegar eftir að hafa kolfallið um ofmetnað höfunda og leikstjóra.

Helsti kostur og styrkur Síðustu veiðiferðarinnar er nefnilega að hún reynir ekki að vera neitt annað en það sem hún er; einföld gamanmynd um veiðiferð sex karla og þá ískrandi írónísku gleði sem þeir geta fundið við það eitt að veiða fisk.

Brölt sexmenninganna er dálítið samhengislaus halarófa áfalla, lítilla sigra og stærri áfalla þar sem óminni veiðikofasukksins magnar á víxl upp gleðina og harminn. Gæti verið stór galli á kvikmynd en í bíómynd um veiðiferð er líklegt að framsetningin falli fullkomlega að efninu. Kannski er þetta bara skemmtileg heimildarmynd? Spyr sá sem ekkert veit.

Og þótt Síðasta veiðiferðin kunni að rista grunnt þá leynast í henni lúmskt djúpir hylir og í henni birtist í raun áhugaverður þverskurður af íslenska karlmanninum.

Sjálfskipaður leiðtogi hópsins og regluvörður er auðjöfur með ráðherradrauma. Hann á flottasta jeppann en vitaskuld koma þeir saman, tveir og tveir, á þremur ólíkum jeppum sem segja örugglega meira um stöðu eigandans í samfélagi en raunverulega reðurstærð.

Átök, innri sem ytri, blossa að sjálfsögðu upp en mannjöfnuður persónanna þriggja bliknar þó í samanburði við leikræn stærilæti þeirra sem túlka þær. Stórlaxarnir sex sem hér koma saman gera þessa litlu, einföldu mynd að einhverju öðru og meira með heillandi sporðaköstum sínum. Já, og svo kemur Bubbi. Góða ferð. Þórarinn Þórarinsson

NIÐURSTAÐA: Einföld og einlæg gamanmynd um veiðiferð sex miðaldra karla sem glíma við ýmsar klassískar krísur sem herja á fárveikara kyndið. Fantavel leikin mynd sem reynir ekki að vera neitt meira en hún er og það tekst stórvel þar sem Síðasta veiðiferðin er helvíti fyndin.