Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr kynntu spliff, donk og gengjur fyrir landslýð í Fóstbræðra-sketsi sem er fyrir löngu orðinn sígildur og lifir góðu lífi á YouTube rúmum tveimur áratugum eftir að hann fór fyrst í loftið á Stöð 2.

Spliffinu og fylgihlutum hefur verið lýst sem verkfærunum sem þú vissir aldrei að þú yrðir að eiga. Það er að segja þangað til þú „þarft að spliffa ýmislegt svona.“ Að maður tali ekki um ef þú er með klast í íbúðinni. „Þá er nauðsynlegt fyrir þig að hafa bæði spliff og gengjur“ eins og Sigurjón gerði Jóni grein fyrir á sínum tíma.

Þá nýtast spliff, donk og gengjur einnig „mjög vel fyrir til dæmis útileguna, jólin, svo náttúrlega ef fjölgun verður í fjölskyldunni.“ Nú eða bara ef þú finnur skyndilega, eins og Elsa Rún Árnadóttir, fyrir þráhyggjukenndri löngun eftir því að eignast þessi gagnslausu tól með víðtækt notagildi.

Spliffuð þráhyggja

„Ég fékk eiginlega bara allt í einu þessa hugdettu og þvílíka þráhyggju. Ég er að verða þrítug og ég á ekki enn þá spliff, donk og gengju. Ég átti ekki nóg fyrir þessu í bauknum mínum þegar ég var krakki. Og mig langaði í þetta,“ segir Elsa Rún minnug þess að þegar hún var á barnsaldri auglýsti Hagkaup spliff, donk og gengjur til sölu.

Sigurjón Kjartansson stimplaði, ásamt Jóni Gnarr, spliff, donk og gengjur hressilega inn í vitund fjölda áhorfenda, sem ýmist ríghalda í settin sín eða falast æstir eftir því að eignast eitt slíkt verkfærasett.
Fréttablaðið/Stefán

„Ég bara ólst upp með Fóstbræðrum í sjónvarpinu og þetta var alltaf tekið upp á VHS fyrir mig. Ég horfi á þetta reglulega og var bara að horfa á sketsa inni á YouTube þegar ég mundi bara allt í einu eftir spliff, donk og gengju og fann að ég bara verð að eignast þetta.“

Elsa Rún greip til þess ráðs að auglýsa eftir spliffi, donki og gengjum í söluhópnum Brask og brall.is á Facebookmeð einfaldri spurningu:

„Svona án alls gríns, er einhver með þetta heima hjá sér að safna ryki sem væri til í að selja mér?“

Veik von

Auglýsingin hefur vakið athygli og viðbrögð en eftir rúma viku, hundrað athugasemdir og yfir 200 „læk“ hefur fyrirspurnin ekki skilað henni neinu nema vitneskjunni um að spliff, donk og gengjur leynast þarna úti en enginn er tilbúinn til að láta verkfærin frá sér.

„Þeir sem hafa kommentað tíma sko ekki að missa sín spliff, donk og gengjur,“ segir Elsa Rún og hlær dátt. „Það var reyndar einhver einn sem var að kommennta og sagði að hann ætti þetta til en það væri brotið og hann væri ekki alveg viss hvort hann tímdi að láta þetta frá sér en ætlaði að vera í bandi við mig,“ heldur Elsa Rún áfram og bætir við að vonin um að eignast þó ekki væri nema brotið spliff sé hverfandi.

Elsa Rún leggur þó áherslu á að hún er ekki búin að gefast upp og leitin haldi áfram.

Hagkaup seldi spliff, donk og gengjur á sínum tíma í mjög takmörkuðu upplagi en sýndi einnig fram á magvíslegt notagildi verkfæranna sem dugðu vel til þess að auglýsa ýmsan óskildan varning eins og þessi heilsíðuauglýsing úr Morgunblaðinu frá júlí 1999 er

Vasaútgáfa til vara

„Þetta er ekkert smá spennandi og ég vil alla veganna fá að vera fremst í röðinni,“ segir hún og áskilur sér forkaupsrétt sem málshefjandi, ef svo ólíklega vill til að seljandi gefi sig fram.

Þangað til segist hún geta sætt sig við þrívíddarprentaða vasaútgáfu af verkfærinu þríeina, en nokkrar umræður um þann möguleika hafa spunnist í athugasemdahalanum við fyrirspurn hennar á Facebook.

„Þetta er bara svona lítið stykki en það er betra en ekkert,“ segir Elsa Rún, en eftir því sem næst verður komist kemur ekkert tæknilega í veg fyrir þrívíddarprentun á spliffi, donki og gengju í fullri stærð ef réttu teikningarnar liggja fyrir og þrívíddarprentarinn er nógu stór.

Spliff, donk og gengjur á mynd sem er lögð til grundvallar þrívíddarprentun. Hún hefur þó ekki nýst þeim sem tjá sig við auglýsingu Elsu Rúnar þannig að enn er einnig leitað að réttu teikningunni.
Mynd/cgtrader.com

Ekki daglegt donk

„Já, jú. Það er ekki laust við það að það komi svona reglulega fram fyrirspurnir og það er eiginlega alveg búið að vera þannig í meira en tuttugu ár. Að menn svona eru einhvern veginn að spyrja mig hvort ég eigi eitthvað svona í fórum mínum og falast eftir,“ segir Sigurjón Kjartansson og hlær, þegar hann er spurður hvort hann hafi í gegnum árin orðið fyrir miklu áreiti frá fólki í leit að spliffi, donki og gengjum.

„Ég hef alveg svona getað lifað eðlilegu lífi með þessu þannig að ég kvarta ekkert. Þetta er ekki alveg daglegt brauð,“ segir Sigurjón, sem lék á sínum tíma sölumanninn sem seldi Jóni Gnarr spliff, donk og gengjur á sérstöku tilboði, 9.999 krónur, í sígilda Fóstbræðraatriðinu sem greinilega er fleirum en Elsu Rún í fersku minni.

Aldrei átt gengjur

Þrátt fyrir mjög svo beina aðkomu að spliffi, donki og gengjum segist Sigurjón aðspurður aldrei hafa gerst svo frægur að eignast sett. „Nei því miður. Það er bara þannig og það var nú hann Jón Steinar Ragnarsson leikmyndahönnuður sem átti heiðurinn af þessu og hann bjó til nokkur eintök skilst mér. En ég get náttúrlega sagt með góðri samvisku að ég hef aldrei átt neitt svona,“ segir Sigurjón, þegar hann rifjar upp að eitthvað var framleitt af þessu á sínum tíma.

Sigurjón selur Jóni Gnarr spliff, donk og gengjur í sketsinum sem lifir enn góðu lífi á YouTube.
Skjáskot/YouTube

„Ég man sem sagt að Hagkaup bauð upp á þetta árið 1998 og auglýsti þetta með pompi og prakt og ég held að það hafi nú ekki verið framleidd mjög mörg eintök sko. Þau hafi verið bara teljandi á fingrum annarrar handar jafnvel þó svo þeir hafi auglýst þetta.“

Eins og löngu frægt er orðið kostuðu spliff, donk og gengjur saman 9.999 krónur en í ljósi eftirspurnarinnar og þess hversu lítið var framleitt af þessu í raun og veru telur Sigurjón einsýnt að verðið hafi margfaldast.

„Að sjálfsögðu. Ég mundi segja að þetta væri jafnvel sko komið í níu hundruð níutíu og níu þúsund,“ segir Sigurjón með talsverðum þunga og skellihlær.