Hér er hulunni svipt af uppskriftinni sem enginn aðdáandi ítalskra matargerðar vill láta framhjá sér fara. Í vetrarhúminu er fátt betra en bræða sælkerahjörtun.

Cannelloni 2.jpeg

Spínat- og ostafyllt cannelloni.

Fyrir 3-4

 • 500 g kotasæla
 • 200 g spínat
 • 1 msk. ólífuolía
 • 3 msk. basilika, smátt söxuð
 • 2 stk. hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
 • 3 – 4 msk. rifinn parmesan ostur
 • Rifinn mozzarella ostur
 • Tómata passata frá Sollu hálf krukka
 • 3/4 dós af söxuðum tómötum frá Heinz, með hvítlauk, oreganó og basiliku.
 • 2 tsk. tómatpúrra
 • salt og nýmalaður pipar eftir smekk.
 • 1 pakka af cannelloni rúllum eða lasagneplötum.

Aðferð:

 1. Hitið olíu á pönnu við vægan hita. Saxið hvítlaukinn smátt og setjið hann á pönnuna, rétt til þess að mýkja laukinn.
 2. Bætið spínatinu saman við og leyfið því að malla á pönnunni í tvær mínútur, hrærið lauslega í á meðan. Kryddið til með salt og pipar.
 3. Setjið kotasælu í skál bætið spínat (þerrið spínatið vel áður), basiliku og dásamlegum rifnum parmesan osti saman við.
 4. Blandið þessu vel saman með og smakkið ykkur til með salti og pipar.
 5. Sjóðið lasagneplöturnar eða pastarörin samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, aðskiljið plötur eða rör og setjið til hliðar undir rakan klút. Setjið 2 - 3 msk. af fyllingu inn í rúllurnar eða á hverja plötu. Ég var með sex plötur og því var ég með sex rúllur. Ef þið viljið minni rúllur þá skerið þið plöturnar til.
 6. Rúllið hverri plötu varlega upp, Þekjið botninn á eldföstu móti með sósunni og raðið rúllunum í eldfasta mótið.

Sósan

 1. Setjið tómata passata, söxuðu tómatana og tómatpúrru í pott, hitið sósuna við vægan hita í örfáar mínútur. Bætið smá basiliku saman við, kryddið til með salti og pipar. Ég lét sósuna i blandara til þess að hafa hana silkimjúka en það er líka ansi gott að hafa tómatbita í sósunni. Svo þetta er algjört smekksatriði.
 2. Dreifið rifnum mozzarella osti yfir réttinn og smávegis af rifnum parmesan osti.
 3. Inn í ofn við 180°C í 25 - 30 mínútur. Eða þar til osturinn er orðinn gylltur og fínn.

Berið fram með fersku salati og ítölsku brauði eða rósmarín brauði.