Lífið

Spiluðu á fjöru­tíu ára af­mælis­tón­leikum The Cure

Hljómsveitin Kælan mikla þáði boð um að spila á hátíðinni Meltdown í London og að koma fram á fjörutíu ára afmælistónleikum The Cure. Þar hittu þær Robert Smith, söngvara hljómsveitarinnar.

„Fyrst fengum við tölvupóst frá Robert Smith um að spila á Meltdown hátíðinni“ Fréttablaðið/Aðsend mynd

Robert Smith, söngvari og lagahöfundur rokksveitarinnar The Cure bauð íslenska goth-tríóinu í Kælunni miklu að spila á tónleikahátíðinni Meltdown sem fram fór í Southbank Centre í Bretlandi í júní. Þar hituðu þær upp fyrir Placebo en meðal annarra sveita á hátíðinni voru My Bloody Valentine, The Soft Moon, Mogwai og Nine Inch Nails. Robert Smith var listrænn stjórnandi hátíðarinnar og sá um að velja hljómsveitirnar sem fram komu.

Boðið barst þeim í tölvupósti en tveimur dögum áður en þær stigu á svið fengu þær annað boð um að spila á fjörtíu ára afmælistónleikum The Cure.

„Fyrst fengum við tölvupóst frá Robert Smith um að spila á Meltdown hátíðinni,“ segir Laufey Soffía, söngkona Kælunnar miklu. En hann var listrænn stjórnandi og valdi hljómsveitirnar sem komu fram. „Tveimur dögum áður en við spiluðum fengum við annað tilboð um að spila á fjörutíu ára afmæli The Cure,“ bætir hún við.

Úr ljóðapönki í darkwave

Hljómsveitina Kæluna miklu skipa þær Laufey Soffía, Margrét Rósa og Sólveig Matthildur. Sveitin var stofnuð árið 2013 þegar liðskonur sveitarinnar tóku þátt í ljóðaslammi þar sem þær fluttu ljóðapönk og stofnuðu í kjölfarið hljómsveit sem byggir á myrkum textum Sólveigar og er undir áhrifum pönk- og post-pönk -tónlistar.

Til að byrja með var hljóðheimur hljómsveitarinnar hrár og skilgreindist frekar sem pönk þar sem þær spiluðu einungis á trommur og bassa ásamt því að flytja ljóðatextana. Árið 2015 bættust hljóðgervlar við og hljóðheimurinn varð meira darkwave.

Margrét Rósa, bassaleikari hljómsveitarinnar, segist ekki vita hvernig Smith komst á snoðir um Kæluna miklu. „Ég veit ekki hvernig hann fann okkur, kannski kemur það til vegna þess að við erum búnar að vera að spila einhver gigg í London undanfarið,“ segir hún.

Laufey tekur undir það og bendir á að fleiri íslenskir tónlistarmenn hafi komið fram á tónleikahátíðinni Meltdown. Þar má nefna rafsveit Ólafs Arnalds, Kiasmos og Jónsa & Alex.

Laufey segir að það hafi verið mjög erfitt að spila í öllu svörtu í 33 stiga hita og reyna að halda augnmálingunni á sínum stað.

Afmælistónleikar hljómsveitarinnar The Cure voru haldnir í Hyde Park í London á laugardaginn og samkvæmt Laufeyju voru um 65.000 miðar seldir.

Margrét segir að fjöldi fólks hafi fylgst með þeim spila. „Þegar við vorum að spila þá sá ég fólk eins langt og augað eygði, það var bara eins og pínulitlir maurar.“

Laufey tekur undir það og bætir við að þær hafi samt ekki verið á stærsta sviðinu. „Það voru svið um allan garðinn. Þetta voru svona svipað margir og voru á Meltdown en þetta var öðruvísi upp sett, sviðið þar var svolítið eins og Harpan en þetta var bara úti.“

Þegar Kælan mikla steig á svið klukkan hálf 5 á laugardag var um 33 stiga hiti í Hyde Park. Laufey segir að það hafi verið mjög erfitt að spila í öllu svörtu í 33 stiga hita og reyna að halda augnmálingunni á sínum stað. „Þegar ég labbaði af sviði var makeup-ið búið að renna niður allt andlitið eins og tár, það passaði samt alveg við.“

Hittu Smith í eftirpartíinu

Laufey segir að eftir að tónleikunum hafi lokið hafi þær hitt Smith og spjallað aðeins við hann. „Við hittum hann eftir Cure tónleikana rétt eftir að þeir spiluðu, í svona eftirpartíi fyrir listamenn. Maður mátti bara koma ef maður fékk sérstakt boð. Það var æðislegt að hitta hann og hann þekkti okkur alveg strax.“

Hann bar nafnið á hljómsveitinni fram með fullkomnum íslenskum framburði segir Margrét. Laufey skýtur inn í „hann sagði Kælan mikla excelent band“ og þær skella upp úr.

Kælan mikla vinnur nú að nýrri plötu. Nýlega kom á markað endurútgáfa á fyrstu plötu sveitarinnar, Mánadans, en hún kom fyrst út á kassettu fyrir fjórum árum.

Meðlimir Kælunnar miklu ásamt Robert Smith.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tíska

Hanna flíkur úr ó­nýttum efna­lagerum

Helgarblaðið

Eftir hundrað ár munu fleiri leika sér

Helgarblaðið

Leyndarmál íslenskrar listasögu

Auglýsing

Nýjast

Hatari er viðvörun

Líkt við Gaultier og Galliano

Í­huguðu nánast alla leikara í Hollywood fyrir Titanic

Erna komst inn í einn virtasta lista­há­skóla Evrópu

Rosa­legt ferða­lag fíkilsins

Vargurinn sleppti heil­brigðum haferninum

Auglýsing