Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson ætlar í útvarpsþætti sínum á Rás 2 næstkomandi sunnudag að spila útgáfu af laginu Söknuði í flutningi Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar sem ekki hefur áður verið spiluð opinberlega. Hefur Jón fengið sérstakt leyfi frá Öldu Music, sem fer með útgáfuréttinn, til að spila lagið í þetta eina skipti.

„Ég veit allavega ekki til þess að þetta hafi komið áður fyrir eyru almennings,“ segir Jón. Fyrir nokkrum árum skrifaði Jón ævisögu Vilhjálms og lagðist þá í mikla rannsóknarvinnu.

f19271009_villvill_01.jpg

„Meðal annars fékk ég aðgang að upptökum sem gerðar voru fyrir plötuna „Hana nú“ því mig langaði að heyra hvort hann væri að segja eitthvað á undan lögunum eða eftir þau, svona til að kynnast kappanum eins vel og ég gæti.“

Lítið var um slíkt en Jón hnaut hins vegar um aðra útgáfu af laginu Söknuði. „Þetta er gersemi og ég hljóðblandaði lagði gróflega fyrir sjálfan mig. Síðan hefur þetta bara beðið í tölvunni minni óhreyft.“

En er þessi útgáfa frábrugðin þessari frægu sem fólk þekkir?

„Það er önnur tilfinning í þessum flutningi og einstaka núansar eru öðruvísi en í útgáfunni sem við höfum heyrt svo oft. Vilhjálmur hefur örugglega sungið nokkrar tökur en á endanum voru tvær skildar eftir á segulbandsspólunni sem inniheldur upptökur hljómplötunnar. Hann hefur sennilega verið ánægðari með hina tökuna og hún verið valin. Fyrir vikið stendur þessi eftir, alls ekki síðri, en með öðrum blæ,“ segir Jón.

Lagið Söknuður er vafalaust frægasta lag Vilhjálms Vilhjálmssonar en lagið var tekið upp árið 1977 og hefur notið gríðarlegra vinsælda æ síðan.

Höfundur lagsins, Jóhann Helgason, stendur í málaferlum og vill fá viðurkennt að lagið You Raise Me Up eftir Norðmanninn Rolf Løvland frá árinu 2001 sé stolið úr lagi sínu. Það lag hefur orðið heimsfrægt í flutningi Josh Groban en sú útgáfa hefur malað gull og selst í hundrað milljónum eintaka á undanförnum árum.

Þáttur Sunnudagsmorgun með Jóni Ólafs er á dagskrá á sunnudögum frá kl. 10 til 12.15. Segir Jón að lagið verði leikið einhvern tímann milli 10 og 11.