Fyrsta plata Guðjóns Böðvarssonar kom út á dögunum. Platan sem nefnist Holmgang samanstendur af 5 lögum og fóru útgáfutónleikar fram í Stoke Newington Old Church í London sem heppnuðust mjög vel. Áður hafði Guðjón gefið út tvö lög og önnur plata hans er nú þegar í bígerð.

Til stendur að Guðjón spili hér á landi í ágúst en nánari upplýsingar um það kemur fljótlega í ljós.

„Það var svo gaman og óvænt að sjá troðfulla kirkju og upplifa svona mikla stemmningu. Það er alltaf svo gott hljóð í kirkjum og hentar tónlistinni minni vel þótt tónlistin mín sé ekki kórtónlist. Það voru samtals fjórar bakraddir að syngja við lögin í kirkjunni og mér finnst svo geggjað þegar margar raddir fylla upp kirkjur,“ segir Guðjón. En hvað kom til að hann ákvað að gefa út plötu?

„Einn daginn fór ég til vinar míns og við ákváðum að prófa að semja lag saman. Úr því var lag sem heitir Uniform sem er á plötunni og okkur leist vel á það sem við gerðum og vildum því bara halda áfram að semja og höfum ekki hætt því síðan,“ segir Guðjón.

„Ég og tveir aðrir vinir mínir, Henry Counsell og Richard Adicott semjum þetta saman. Við höfum þekkst frá því að við vorum 13 ára og ólumst eiginlega bara upp saman í skólanum. Þetta partnership virkar mjög vel útaf því að við þekkjumst svo vel, vitum nákvæmlega hvernig við virkum og erum mjög hreinskilnir við hvorn annan. Þeir eru mjög flottir próduserar og það er misjafnt hvað hver gerir en ég er kannski að vinna meira með melódíur, texta og harmóníur.“

Guðjón segist hrifinn af tilraunakenndu efni í tónlist og vinnur sjálfur mikið með ný og óvanaleg hljóð.

„Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa tónlistinni. Lögin eru allskonar en það eru kannski nokkur elements í þessu. Mér finnst mjög gaman að uppgötva og kanna öðruvísi hljóð og hafa smá fjölbreytni. Við notum mikið af hljóðfærum og það er smá elektrónískur fýlingur í nokkrum lögum. Ég er líka mjög hrifinn af mikið af bakröddum, sem er samansafn af minni rödd og virkar vel live með öðrum.“

Alltaf verið í kór

Guðjón er sonur Böðvars Guðjónssonar og Hendrikku Waage og hefur búið að mestu erlendis allt sitt líf. Hann flutti til Bandaríkjanna sem lítill snáði og bjó þar í fjögur ár, í Rússlandi í tvö ár og bjó svo á Íslandi í skamman tíma áður en hann flutti til London og hefur búið þar síðan. Hann var í breskum heimavistarskóla í fimm ár og segir það hafa verið dásamlegan tíma.

„Ég hef alltaf verið í kór og er í tveimur kórum í dag, London Contemporary Voices og Íslenski Kórinn í London. Einnig söng ég alltaf mikið í skólanum og var í öllum söngleikjum þar. Ég hef eiginlega bara ekki hætt að syngja og mér finnst það svo gaman. Ég var ekki viss hvað ég vildi gera en er búinn að finna mig í að semja tónlist og ætla að halda því áfram,“ segir Guðjón einlægur.

Líkt og gefur að skilja fær Guðjón mikinn innblástur úr kórtónlist enda hefur hann verið í kórum frá því hann var lítill drengur og hlustað mikið á kóra.

„Mitt uppáhalds tónskáld er Eric Whitacre, hann er alveg geggjaður. Hann er þekktur fyrir magnaða uppbyggingu í lögum og endar svo á epískum söng sem er oft skipt í átta raddir. Justin Vernon er líka í uppáhaldi og síðasta platan hans með Bon Iver var rosaleg. Þar heyrði ég hljóð sem að ég hef aldrei heyrt áður og mitt persónulega álit er að sú plata sé besta plata allra tíma. Einnig held ég mikið uppá James Blake og Ólaf Arnalds.“ segir Guðjón um innblástur sinn.

„Það er alltaf svo gott hljóð í kirkjum og hentar tónlistinni minni vel þótt tónlistin mín sé ekki kórtónlist,“ segir Guðjón.
Fréttablaðið/Lucy Bruton