Lista­maðurinn Sölvi Dýr­fjörð stendur fyrir sýningunni Leikur á ljós í Borgar­bóka­safni Grófinni á Menningar­nótt þar sem hann kynnir glæ­nýtt gagn­virkt ljósa­verk klukkan 1.

Um er að ræða inn­setningu sem saman­stendur af lömpum og ljósum sem eru tengdir við for­rit er gerir tón­listar­mönnum kleift að spila á það og blanda þannig saman ljósum og tón­list. Sölvi hefur boðið úr­vala­liða tón­listar­manna að leika á inn­setninguna auk þess sem gestir og gangandi fá að spreyta sig og prufa tóna­ljós­verkið.

„Ég fékk þessa hug­mynd þegar ég var að hanna ljós fyrir nem­enda­sýningu í Flens­borg og hef svo­lítið verið í þessu að hanna ljós. Ég á­kvað, af því það kostar náttúr­lega ó­geðs­lega mikið að leigja allar græjur í það, að gera það bara í tölvunni minni án þess að nota ljósa­borð. Þegar ég fór að gera þetta al­menni­lega þá komst ég að því að það væri nokkuð fínt að hafa þessa helstu takka. Ég átti svona lítið MIDI-píanó og ég teipaði bara á það og setti alla takkana sem ég þurfti og tengdi við ljósa­for­ritið,“ segir Sölvi.

Sölvi er ungur listamaður sem er ekki við eina fjölina felldur.
Mynd/Aðsend

Út frá þessu spratt svo hug­myndin að gera lista­verk sem myndi tengja saman hljóm­borð og ljós þannig að hægt væri að spila á hvoru tveggja. Þá hefur Sölvi einnig tengt gítar við verkið svo tón­listar­mennirnir geta valið um tvö hljóð­færi. Ljósin sjálf eru saman­safn ýmissa gamalla heimilis­ljósa.

„Þetta eru bara gamlir lampar aðal­lega úr Góða hirðinum, ég er fasta­gestur þar. Þetta eru lampar og loft­ljós allt með gömlum perum svo hægt sé að stýra þeim á vissan hátt. Hvert einasta ljós er tengt við eina nótu, þannig að þegar þú spilar á eina nótu þá spilarðu á eitt ljós,“ segir Sölvi.

Sölvi er fjöl­hæfur lista­maður með víð­tæka reynslu þrátt fyrir ungan aldur, en hann er tví­tugur. Hann er með bak­grunn í leik­list og dansi og hefur tekið þátt í ýmsum upp­færslum í Borgar­leik­húsinu en starfar nú einnig við ljós­myndun og víd­jó­fram­leiðslu.

„Ég geri eigin­lega bara svo­lítið það sem mig langar til og ég er mjög heppinn að ég hef hingað til náð að vinna við mín á­huga­mál,“ segir hann.