Listasafn Sigurjóns Ólafssonar stendur fyrir tónleikaröð á þriðjudagskvöldum í sumar.

Í kvöld verða það sellóleikarinn Steiney Sigurðardóttir og fiðluleikarinn Vera Pantich sem mynda dúóið Dúó Edda sem leika fyrir gesti.

Á efnisskrá kvöldsins eru verk eftir Reinhold Gliere, Maurice Ravel og Johan Halvorssen.

„Við reynum að hafa alltaf eitt norrænt verk á tónleikum, það er skemmtilegra,“ segir Steiney. „Við erum búin að vera að spila bæði íslensk og dönsk verk, enda ólumst við upp í Danmörku, svo það er gaman að hafa eitthvað frá okkar heimalandi.“

Steiney og Vera eru báðar hluti af Sinfóníuhljómsveit Íslands en mynduðu dúóið um vorið 2020. Þrátt fyrir að árferðið hafi verið slæmt fyrir hljómsveitir hafa þær síðan þá haldið fjölda tónleika á Íslandi og í Danmörku og hrepptu þriðja sæti í Kammermúsíkkeppni dönsku útvarpsstöðvarinnar P2.

„Við áttum að vera með svaka stóra tónleika í Hörpu síðastliðinn janúar sem við náðum að halda í maí sem var alveg sérstaklega ánægjulegt eftir að hafa þurft að fresta þeim svona oft,“ segir Steiney. „Við erum svo búin að vera að taka upp tónlistarmyndbönd í Hörpu í samstarfi við Reykjavk Recording Orchestra.“

Sumartónleikaröð listasafnsins er rótgróin hefð sem hefur nú vaknað til lífsins eftir tveggja ára dvala. Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 20.30 og miðasala fer fram við innganginn.