Hilmar Jökull Stefánsson, stjórnarmaður í Tólfunni, segist í samtali við Fréttablaðið vera gífurlega spenntur fyrir komu Mohammad Sayeed hingað til lands í október og þakklátur þeim sem lögðu hönd á plóg í söfnunina til handa ferðalaginu.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var sett af stað söfnun handa Sayeed á föstudaginn og greindi Hilmar frá því fyrr í dag á Facebook síðu sinni að söfnunin hefði tekist. Sayeed, sem á heima í Bangladess, hefur verið eldheitur stuðningsmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og meðal annars hannað risastóran íslenskan fána. Í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag sagðist hann vera ótrúlega spenntur fyrir komunni og sagðist vonast til að geta fengið að hitta Gylfa Sigurðsson.
Hilmar segir að þónokkrir hafi lagt söfnuninni lið og segist hann vera afar þakklátur, enda hafi söfnunin tekið nokkuð stuttan tíma, en hún hófst á föstudag. Kann Hilmar sömuleiðis Kristjáni Zophoníassyni og bókunarþjónustufyrirtækinu Dohop bestu þakkir fyrir stuðning við söfnunina.
„Föstudagskvöldið hóf ég þetta og söfnunin gekk mjög vel en það voru í raun tveir aðilar sem sáu til þess að þetta varð að veruleika svo fljótt, annars vegar Kristján Zophoníasson, sem mun útvega Sayeed gistingu og hinsvegar Dohop, sem hafði samband og reddar Sayeed flugi,“ segir Hilmar. Framlög til söfnunarinnar verði svo nýtt handa ferðalagi Sayeed um landið.
Sayeed mun koma til með að mæta á leik Íslands og Frakklands föstudagskvöldið þann 10. október og segir Hilmar að afgangur ferðalagsins sé nú í skipulagningu. „Við setjum upp einhverja dagskrá og ætlum að setjast niður að ræða þetta, Sayeed langar til dæmis að kíkja í þyrluferðir og við í rauninni tökum bara við hugmyndum og fólk má endilega senda á mig á Facebook, allar slíkar hugmyndir.“
Hilmar segist vonast til þess að geta sýnt Sayeed eins mikið af Íslandi og hægt sé á þeirri viku sem hann verði hér. „Ég væri til í að sýna honum Eyjar og fara með hann norður. Hann kemur auðvitað í viku og við höfum nokkra daga fyrir leik og svo helgina til að gera eitthvað sniðugt,“ segir Hilmar.
„Hann gat varla orða bundist þegar ég talaði við hann og sagði honum þetta, hann var svo glaður,“ segir Hilmar en spurður hvort að Sayeed muni fá að hitta einhverja landsliðsmenn segir Hilmar léttur í bragði að það væri skemmtilegt ef það væri hægt. „Það væri auðvitað æðislegt ef það gengi upp en við sjáum til,“ segir Hilmar.
„Maður er auðvitað bara innilega þakklátur öllum sem komu að þessari söfnun og frábært að geta látið draum hans rætast.“
Gaman að segja frá því að ég er kominn af stað með söfnun fyrir hann eftir smá spjall inni á “Umræðuhópur Tólfunnar” á Facebook.
— Hilmar Jökull (@Hilli95) June 22, 2019
Ef einhver af twitter fam vill hjálpa til við að koma Sayed til landsins þá er rkn 0370-26-011133 og kt er 240795-2059@fotboltinet pic.twitter.com/kJUfqtmZSE

Congretulations Icelandic football. pic.twitter.com/qcm6QRE3g8
— Mohammad Sayed (Iceland) (@sayedmojumder2) June 8, 2019