Hilmar Jökull Stefáns­son, stjórnar­maður í Tólfunni, segist í sam­tali við Frétta­blaðið vera gífur­lega spenntur fyrir komu Mohammad Sayeed hingað til lands í októ­ber og þakk­látur þeim sem lögðu hönd á plóg í söfnunina til handa ferða­laginu.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá var sett af stað söfnun handa Sayeed á föstu­daginn og greindi Hilmar frá því fyrr í dag á Face­book síðu sinni að söfnunin hefði tekist. Sayeed, sem á heima í Bangladess, hefur verið eld­heitur stuðnings­maður ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta og meðal annars hannað risa­stóran ís­lenskan fána. Í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr í dag sagðist hann vera ó­trú­lega spenntur fyrir komunni og sagðist vonast til að geta fengið að hitta Gylfa Sigurðsson.

Hilmar segir að þó­nokkrir hafi lagt söfnuninni lið og segist hann vera afar þakk­látur, enda hafi söfnunin tekið nokkuð stuttan tíma, en hún hófst á föstu­dag. Kann Hilmar sömu­leiðis Kristjáni Zop­honías­syni og bókunar­þjónustu­fyrir­tækinu Dohop bestu þakkir fyrir stuðning við söfnunina.

„Föstu­dags­kvöldið hóf ég þetta og söfnunin gekk mjög vel en það voru í raun tveir aðilar sem sáu til þess að þetta varð að veruleika svo fljótt, annars ­vegar Kristján Zop­honías­son, sem mun út­vega Sayeed gistingu og hinsvegar Dohop, sem hafði sam­band og reddar Sayeed flugi,“ segir Hilmar. Fram­lög til söfnunarinnar verði svo nýtt handa ferða­lagi Sayeed um landið.

Sayeed mun koma til með að mæta á leik Ís­lands og Frakk­lands föstu­dags­kvöldið þann 10. októ­ber og segir Hilmar að af­gangur ferða­lagsins sé nú í skipu­lagningu. „Við setjum upp ein­hverja dag­skrá og ætlum að setjast niður að ræða þetta, Sayeed langar til dæmis að kíkja í þyrlu­ferðir og við í rauninni tökum bara við hug­myndum og fólk má endi­lega senda á mig á Face­book, allar slíkar hug­myndir.“

Hilmar segist vonast til þess að geta sýnt Sayeed eins mikið af Ís­landi og hægt sé á þeirri viku sem hann verði hér. „Ég væri til í að sýna honum Eyjar og fara með hann norður. Hann kemur auð­vitað í viku og við höfum nokkra daga fyrir leik og svo helgina til að gera eitt­hvað sniðugt,“ segir Hilmar.

„Hann gat varla orða bundist þegar ég talaði við hann og sagði honum þetta, hann var svo glaður,“ segir Hilmar en spurður hvort að Sayeed muni fá að hitta ein­hverja lands­liðs­menn segir Hilmar léttur í bragði að það væri skemmti­legt ef það væri hægt. „Það væri auð­vitað æðis­legt ef það gengi upp en við sjáum til,“ segir Hilmar.

„Maður er auð­vitað bara inni­lega þakk­látur öllum sem komu að þessari söfnun og frá­bært að geta látið draum hans rætast.“

Umræddur risafáni sem Sayeed ætlar að taka með sér til Íslands.
Fréttablaðið/Skjáskot