Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari, segir að hann sé alveg tilbúinn til að takast á við brekkusönginn aftur á næsta ári. Magnús Kjartan stýrði brekkusöng í Dalnum í Eyjum í gærkvöldi og miðað við viðbrögð netverja þá gekk nokkuð vel.

„Það er ákaflega fallegt hérna í Eyjunni,“ segir Magnús Kjartan sá hressasti þegar Fréttablaðið náði tali af honum í dag.

„Þetta gekk fáránlega vel. Tilfinningin á sviðinu var þannig að ég væri á réttum stað. Þetta var ótrúlega skemmtilegt,“ segir Magnús Kjartan hress.

Gerðu tilraun til að blinda hann

Þrátt fyrir gott gengi þá getur ýmislegt komið upp á sviðinu og það gerðist sannarlega í gær.

„Útsendingastjórn gerði heiðarlega tilraun til að blinda mig. Þau voru með eldker á sviðinu og frá þeim kom reykur sem fór beint í augun á mér. Það bjargaðist á endanum. Ég lokaði bara augunum og lifði mig enn betur inn í sönginn á meðan,“ segir Magnús Kjartan.

Spurður um stemninguna í dalnum og hvernig hafi verið að spila fyrir enga áhorfendur segir Magnús að dalurinn sjálfur sé svo magnaður að það hafi hjálpað til.

„Það er svo mikil sál í dalnum að maður spilar eiginlega aldrei fyrir engan. En svo voru nokkrar kindur efst í dalnum sem nutu tónleikanna, í það minnsta hlupu þær ekki í burtu,“ segir Magnús

Spenntur fyrir því að spila aftur brekkusöng

Hann segir að flestir tónlistarmenn þekki það frá byrjun ferils eða frá því að þeir voru börn að spila fyrir enga eða ímyndaða áhorfendur og hann hafi nýtt sér það í gær og

„Ég fann þann stað aftur í hjartanu og gekk í barndóm,“ segir Magnús.

Ertu spenntur fyrir því að gera þetta aftur?

„Já, ég er spenntur fyrir því að prófa allavega einu sinni með fólk í brekkunni,“ segir hann glaður.

Spurður um uppáhalds lag eða gott „móment“ í gær þá segir hann að Söknuður Vilhjálms Vilhjálmssonar sé alltaf í uppáhaldi og hafi staðið upp úr í gær.

„Konan mín segir að ég hafi aldrei verið betri og ég hef fulla trú á því að hún myndi ekki ljúga að mér,“ segir hann ánægður í lokin.