Eftir að Ólafur Helgi útskrifaðist með BA gráðu í fatahönnun frá listaháskólanum NABA í Mílanó fór hann að fá fyrirspurnir frá fólki sem vildi fá hann til að hanna og sérsauma á sig föt.

„Mér fannst ekkert mál að taka að mér hönnunarhlutann en ég vildi fá meiri menntun og skilning á sérsaumi. Það varð til þess að ég fór í þetta nám. Þar komst ég að því að þú mátt ekki taka að þér sérsaum nema að vera með sveinspróf í kjólasaumi eða klæðskurði. Þetta er lögverndað fag,“ segir Ólafur Helgi.

Ólafur Helgi hefur mestan áhuga á að hanna og sauma búninga fyrir leikhús.

Í upphafi var planið ekkert endilega að klára námið heldur bara að fá betri þekkingu til að sauma föt. En Ólafur Helgi segir að það hafi breyst.

„Núna er ég rosaspenntur fyrir náminu og hlakka til að klára það og byrja að sérsauma eigin hönnun. En ég er spenntastur fyrir búningahönnun í leikhúsi og kvikmyndum.“

Búningahönnun er ekki nýtt áhugamál hjá Ólafi Helga. Hann hefur komið reglulega fram sem dragdrottningin Starína í mörg ár og hefur hannað og saumað flestan fatnað sem hún kemur fram í.

Ævintýralegur kjóll eftir Ólaf Helga. Myndir/Eva Ágústa og Ólafur helgi

„Ég fór reyndar svolítið að svindla á að hanna á Starínu þegar ég vann hjá Brúðarkjólaleigu Katrínar en ég tók starfsnámið mitt þar. Ég komst í svo marga kjóla þar og fékk stundum að kaupa kjóla af lagernum hjá þeim og breyta þeim. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið tækifæri til að vinna hjá þeim af því ég hef alltaf haft áhuga á brúðarkjólum og þeir eru oft sérsaumaðir. Fyrir utan búninga þá hef ég mestan áhuga á að sérsauma brúðarkjóla,“ útskýrir Ólafur Helgi.

„Ég hef hannað brúðarkjól þegar ég var í náminu í Mílanó. Þá hannaði ég á Guðbjörgu mágkonu mína. Ég bjó til sniðið en svo var hann sérsaumaður af kjólameistara. Ég fékk að fylgjast með því svo ég lærði eitthvað af því. En það sem hefur komið mér mest á óvart í náminu í Tækniskólanum er hvað mér finnst gaman að læra allar reglurnar við að sníða þetta hefðbundna eins og smóking og jakkaföt. Þessar gömlu sníða- og saumareglur.“

Þetta vesti sneið Ólafur og saumaði í náminu en hann er spenntur fyrir að læra að sérsauma jakkaföt.

Á næstu önn mun Ólafur Helgi fá tækifæri til þess að sauma heil jakkaföt frá grunni á kúnna.

„Ég hlakka til að byrja á því. Jakkaföt eru ótrúlega skemmtilegar flíkur. Það er svo gaman að pæla í þeim, eins og vösum og alls konar smáatriðum sem eru í jakkafötum. Ég áttaði mig á því í náminu að mér fannst þetta miklu áhugaverðara en ég átti von á. Við erum búin að læra að gera skyrtur, jakka og buxur fyrir framleiðsluferli en ekki fyrir sérsaum, svo ég er mjög spenntur fyrir næstu önnum.“