Við höfum unnið með Sirkus Íslands og Hringleik og höfum aðallega starfað við sýningar frekar en kennslu,“ segir Bryndís. „Við höfum aðeins verið að kenna börnum. Tom hefur líka kennt annars konar sirkuslistir eins og akró fyrir fullorðna, en þetta er í fyrsta skipti sem við höldum námskeið í loftfimleikum fyrir fullorðna.“

Bryndís útskýrir að akró séu eins konar tveggja manna gólffimleikar. „Einfaldasta staðan er eins og þegar maður tekur litla krakka í flugvél. Þetta er sem sagt þegar einn heldur á öðrum. En loftfimleikar eru önnur grein innan sirkuslista. Þar er notast við ýmiss konar áhöld eins og trapísu, reipi og silki.“

Silkið er mjúkt og hentar því vel fyrir byrjendur. MYND/HARPA LIND INGADÓTTIR

Bryndís og Thomas hafa sýnt með Sirkusi Íslands og Hringleik frá því árið 2016. Bryndís segir að sirkusmenning hafi verið á Íslandi í einhverjum mæli í dálítinn tíma. „En það hefur ekki verið mikið um námskeið svo ég viti til, en það er að aukast. Ég er spennt fyrir að kynna fólki loftfimleika.“

Á námskeiðinu hjá Bryndísi og Thomasi verður kennt á silki. „Það er einna aðgengilegasta áhaldið, sérstaklega fyrir byrjendur, af því silkið er mjúkt. Það er auðvelt að vefja sig inn í það og tiltölulega auðvelt að klifra í því. Það sem við gerum í silkinu er að við klifrum í því, við vefjum okkur í það, við höngum í því og gerum jafnvel „drop“, sem er að láta sig detta í silkinu,“ útskýrir Bryndís.

Hún segir að til að kenna á silki þurfi meiri búnað en þegar kenna á akró, þess vegna hafa þau ekki haldið svona námskeið áður. „En núna erum við komin með þann búnað sem þarf og erum spennt að byrja að kenna,“ segir Bryndís, en fyrsti tíminn á námskeiðinu er í kvöld. „Við ætlum að sjá hvernig viðtökurnar verða við þessu. Silkið vekur oft áhuga og athygli þegar fólk heyrir af því eða sér það og það er virkilega skemmtilegt að nota það.“

Bryndís segið að silki veki athygli og áhuga. MYND/HARPA LIND INGADÓTTIR

Bryndís segir að engin reynsla sé nauðsynleg til að koma á námskeiðið. „Fólk þarf að vera í góðu standi til að hreyfa sig og klifra, því þetta gengur mikið út á það. En að öðru leyti eru ekki neinar kröfur um þjálfun,“ segir hún.

„Við viljum leggja áherslu á að hafa námskeiðið skemmtilegt og hafa þéttan og góðan hóp. Það er yfirleitt þannig í sirkus að það myndast sterkt samfélag í kringum hann og það er það sem við viljum leggja áherslu á í námskeiðinu. Að hafa gaman og læra eitthvað í leiðinni,“ segir Bryndís að lokum.