Þór­hildur Magnús­dóttir, verk­fræðingur, er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar.

Þór­hildur hefur vakið at­hygli fyrir að tala opin­skátt um opið sam­band sitt og eigin­manns síns. Hún vill eiga þátt í því að við ræðum heiðar­lega um hluti opið og opin­ber­lega sem mjög margir eru að hugsa.

„Ég held að við séum árið 2022 komin á stað þar sem allir vilja vera heiðar­legir og hafa hlutina uppi á borðum. Við erum í grunninn dýr og megum ekki gleyma því. Ég vil ekki láta festa mig í ein­hverjum hlekkjum þegar kemur að kyn­lífi og þegar allt er uppi á borðum og heiðar­legt getur þetta gengið mjög vel.

Lykil­at­riði í öllum sam­böndum, sama hvort þau eru opin eða ekki, er að fólk sé heiðar­legt og þori að ber­skjalda sig. Mjög margir kaupa sig inn í hef­bundið sam­fé­lags­munstur, án þess að vilja það og það endar bara á að springa. Fólk er að halda fram­hjá og skilja úti um allan bæ og það er ekki eins og hefð­bundna munstrið sé að virka full­kom­lega hjá öllum.

Það er frá­bært þar sem það virkar, en hver og einn verður að fá að finna hvað hentar og hvað við­komandi vill í sínu lífi. En aðal­at­riðið er að þora að sýna það hver maður raun­veru­lega er.“

Var fyrst hikandi að opna um­ræðuna

Þór­hildur segist fyrst hafa verið hikandi um að opna á þessa um­ræðu opin­ber­lega.

„Þegar ég byrjaði með Insta­gram-síðuna ætlaði ég fyrst bara að tala um sam­bönd og veigraði mér við því að fara alla leið. Er ég að fara að vera manneskjan sem opnar þessa um­ræðu fyrir alla þjóðina?“ segir Þór­hildur og heldur á­fram

„Við vorum búin að vera í opnu sam­bandi í nokkur ár áður en það fór í opin­bera um­ræðu. Ég og maðurinn minn sam­mælumst yfir­leitt um alla um­fjöllun og við­töl sem ég fer í, en pan­dóru­boxið er opið núna og ég sný ekki til baka úr þessu.

Ég er örugg­lega að trig­gera mjög marga og biðst bara af­sökunar á því. En við hljótum að eiga að geta rætt þessa hluti. Margir eru með mjög sterkar skoðanir á þessu og sumir eigin­lega bara brjálaðir. En ég hef verið mjög góð alveg frá byrjun í að láta það ekki hafa á­hrif á mig þó að ein­hverjir séu brjálaðir út í mig á sam­fé­lags­miðlum eða í kommenta­kerfum.

Ég næ að taka meira mark á öllum já­kvæðu skila­boðunum sem ég fæ. Minn ótti er meira hvort ég megi vera að bjóða upp á ráð­gjöf í sam­böndum, menntuð í hag­fræði og verk­fræði. Þannig að nei­kvæð skila­boð um það hafa haft meiri á­hrif á mig heldur en fólk sem er með sterkar skoðanir á því að ég sé í opnu sam­bandi.”

Fannst á­huga­vert að opna hjóna­bandið

Hún segir í þættinum frá upp­hafinu að þeirri á­kvörðun að opna hjóna­bandið.

„Fyrst fannst mér þetta bara á­huga­vert, en ég var ekki komin á þann stað að biðja hann um það eða vera viss um að ég vildi þetta. En þetta vakti mikinn á­huga hjá mér og þaðan byrjaði ég að ræða þetta við manninn minn.

Svo leið tals­verður tími þar til að við tókum skrefið. Ein af á­stæðunum fyrir því að ég fann að ég vildi gera þetta var að ég veit að ég er tví­kyn­hneigð, en hafði aldrei prófað það af neinu viti.

Ég vissi að ég vildi prófa að vera með konum, en mig langaði samt ekkert að hætta með manninum mínum. En það tók svo auð­vitað tíma að á­kveða endan­lega að opna sam­bandið og taka skrefið alla leið.“

Man eftir fyrsta skiptinu

Þór­hildur man vel eftir fyrsta skiptinu sem maðurinn hennar var með annarri konu eftir að þau opnuðu sam­bandið.

„Ég var mjög spennt og man ekki eftir að hafa fundið fyrir mikilli af­brýðis­semi beint. Þetta var eins og að horfa á spennu­mynd, bara vitandi að hann væri að fara að hitta hana og svo að heyra í honum á eftir.

Ég hef alltaf verið mjög örugg með tenginguna mína við manninn minn, af því að við höfum alltaf verið heiðar­leg og hann er bara gull af manni. Það á­huga­verða við af­brýðis­semi þegar maður fer að kafa ofan í hana er að oft eru það bara hlutir eins og að maður sé ekki að fá næga at­hygli sem kveikja hana mest.

Þó að birtingar­myndin á af­brýðis­semi snúist oft um annað fólk, er oft stærsta á­stæðan eitt­hvað innra með manni sjálfum. Það endar oft þannig þegar ég er að fræða fólk um sam­bönd að at­hyglin endar hjá manni sjálfum. Heil­brigður og heiðar­legur ein­stak­lingur er miklu lík­legri til að eiga í góðu sam­bandi, alveg sama hvernig sam­band það er.“