Silvia er austur­rísk og spurð hve­nær á­hugi hennar á Ís­landi, pappír og hand­ritum hafi vaknað segir hún: „Þetta byrjaði allt með hestum. Ég er að­dáandi ís­lenska hestsins og fór sem ung­lingur á hesta­nám­skeið þar sem voru ís­lenskir hestar og í hest­húsinu var alltaf talað um Ís­land, landið og lands­lagið. Ís­lensk stelpa var þarna á sumar­nám­skeiði og þá heyrði ég tungu­málið og varð al­gjör­lega ást­fangin, ekki bara af hestunum heldur líka af tungu­málinu. Mér finnst ís­lenskan vera fal­legasta tungu­mál í heimi.“

Þess má geta að Silvia talar ein­stak­lega góða og fal­lega ís­lensku. „Í skólanum fræddist ég um Ís­lendinga­sögur og Hall­dór Lax­ness og vissi að ég yrði að læra tungu­málið og fara til Ís­lands. Ég gerði það sem skipti­nemi í há­skóla og það var al­gjör­lega frá­bært. Ég hafði alltaf haft mikinn á­huga á bókum og hand­ritum og fór á sumar­nám­skeið um ís­lensk hand­rit þar sem ég lærði að lesa forna texta og um­gangast hand­rit. Mér var síðan boðið starf á Árna­stofnun í Kaup­manna­höfn en fyrir þrem árum fékk ég styrk frá Vísinda­sjóði Rann­ís og að­stöðu hér á Árna­stofnun til að rann­saka pappírs­sögu Ís­lands undir stjórn Þórunnar Sigurðar­dóttur rann­sóknar­prófessors. Ég er að rann­saka vatns­merki og pappírs­sögu, en vatns­merki eru hluti af pappírs­sögu. Maður veit oft ekki hvaðan pappír kemur eða hve­nær hann var fram­leiddur og þar geta vatns­merki vísað manni rétta leið.“

Þjálfun og kunn­átta

Vatns­merki er mynstur sem sést þegar lýst er í gegnum pappír. „Vatns­merki voru notuð í pappírs­myllum sem eins konar vöru­merki og gæða­merki. Það fór eftir pappírs­myllum hvaða vatns­merki var notað. Nokkur vatns­merki, til dæmis dára­höfuð, voru notuð af mörgum myllum í langan tíma en oftast var sama vatns­merkið ekki notað mjög lengi,“ segir Silvia. „Ef skjal eða hand­rit er tíma­sett með á­kveðnu vatns­merki og ég finn sama vatns­merki í ís­lenskum hand­ritum, þá get ég verið alveg viss um að pappírinn var fram­leiddur í sömu pappírs­myllu á sama tíma­bili.“

Hún segir mikla þjálfun og kunn­áttu fylgja því að finna vatns­merki. „Við leit að vatns­merkjum í hand­ritum notum við svo­kallað ljós­blað sem maður setur bak við pappírinn til að sjá vatns­merkið. Við tökum mynd af vatns­merkinu og mælum það og getum síðan farið í er­lendan gagna­grunn um vatns­merki og séð hvort við finnum sama vatns­merki þar.“

Nýtt verk­efni

Silvia vinnur að bók um sögu ís­lensks pappírs sem fyrir­hugað er að komi út á næsta ári og hún skrifar einnig grein um pappírs­sögu Ís­lands í ráð­stefnu­rit sem kemur út í lok þessa árs. „Ís­lensk hand­rit eru stór og mikil­vægur hluti ís­lensks menningar­arfs. Það eru til um 20.000 ís­lensk hand­rit en einungis 750 eru úr skinni, hin eru skrifuð á pappír sem við vitum ekki hvaðan kemur því engin pappírs­mylla var til á Ís­landi. Þess vegna er ég að skoða hvar og hve­nær pappírinn var fram­leiddur. Svo er ég að byrja á nýju verk­efni sem er að rann­saka pappír í 17. aldar hand­riti og endur­vinnslu á pappír í hand­ritum. Pappírs­sagan er svo ó­skap­lega spennandi að ég vil endi­lega halda á­fram að rann­saka hana.“

Ráð­stefna um pappír

Í dag hefst tveggja daga­ráð­stefna á vegum rann­sóknar­verk­efnanna Paper Tra­ils (Stofnun Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum) og Heimsins hnoss (Hug­vísinda­svið Há­skóla Ís­lands) í sam­starfi við Lands­bóka­safn Ís­lands – Há­skóla­bóka­safn og Þjóð­minja­safn Ís­lands. Á ráð­stefnunni verður sjónum beint að pappír frá ýmsum hliðum – fram­leiðslu, notkun vatns­merkja, verslun, pappírs­skorti, notkun pappírs í hand­rit, prentaðar bækur og skjöl svo nokkuð sé nefnt.

Ráð­stefnan verður haldin í fyrir­lestra­sölum Þjóðar­bók­hlöðu og Þjóð­minja­safns Ís­lands. Á ráð­stefnunni á föstu­deginum er fjallað sér­stak­lega um ís­lenskan pappír klukkan 14.00-15.30. Meðal fyrir­lesara er Silvia Hufnagel.