„Það eru nokkrir tugir keppenda skráðir til leiks og þar á meðal verður okkar afreksfólk sem er að reyna að ná lágmörkum fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Frakklandi í sumar,“ segir Egill Þór Valgeirsson, formaður frjálsíþróttanefndar Íþróttasambands fatlaðra.

Að sögn Egils eru Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Ingeborg Eide Garðarsdóttir búnar að tryggja sér lágmörkin og eiga góða möguleika á að keppa á heimsmeistaramótinu og Patrekur Andrés Axelsson er alveg við þröskuldinn að tryggja sér þátttökurétt.

Gerðu góða hluti í Dúbaí

Þau eru nýkomin heim frá Dúbaí þar sem þau kepptu á heimsmótaröð Alþjóðaólympíuhreyfingarinnar. Öll stóðu þau sig vel og Stefanía varð til að mynda í öðru sæti í langstökki í Dúbaí og Ingeborg fjórða í kúluvarpi og setti nýtt persónulegt met í greininni en hún keppti einnig í kringlukasti. Stefanía, Ingeborg og Patrekur verða öll í eldlínunni í Laugardalnum á morgun.

„Það verða fleiri mót á næstu vikum og mánuðum þar sem okkar fólk hefur tækifæri á að tryggja sér sæti á HM og Patrekur mun til dæmis keppa á mótum í Sviss og á Ítalíu þar sem hann reynir við lágmarkið,“ segir Egill en Patrekur er hlaupari og keppir í flokki blindra. Hann keppti í 100 og 400 metra hlaupum á mótinu í Dúbaí.

Egill Þór vonast til þess að góður árangur náist hjá keppendum á Íslandsmótinu og hann segir að það sé spenna og eftirvænting hjá þeim.

Vill fá fleiri í sportið

„Það er alltaf mikil eftirvænting hjá krökkunum að taka þátt í Íslandsmóti og ég býst fastlega við því að við sjáum bætingar hjá einhverjum keppendum. Það verður gaman að sjá hvernig mótið muni ganga og ég er bjartsýnn á góðan árangur,“ segir Egill Þór, sem vill sjá fleiri fatlaða einstaklinga reyna fyrir sér í íþróttum.

„Við sem störfum í hreyfingunni eigum þá ósk að fá fleiri þátttakendur í sportið því það er fullt af fólki þarna úti sem gæti verið að keppa og láta ljós sitt skína. Stærsta auglýsingin fyrir okkur er sú þegar fatlaðir einstaklingar gera það gott á alþjóðlegum vettvangi. Þá hugsa margir um að þeir gætu alveg gert þetta líka. Sterkar fyrirmyndir eru mjög mikilvægar.“

Egill Þór segir að það sé gaman og gefandi að starfa fyrir Íþróttasamband fatlaðra. „Ég er búinn að vera í kringum þjálfun fatlaðra í um 20 ár og þetta er gríðarlega skemmtilegt og gefandi starf í alla staði.“

Íslandsmótið hefst á slaginu klukkan 12 á morgun og stendur yfir í rúmar þrjár klukkustundir.

Ingeborg Eide bætti sinn besta árangur í kúluvarpi.