„Spánn er endalaus uppspretta nýrra ævintýra og mig langar alltaf að miðla því sem ég læri og upplifi,“ segir Snæfríður Ingadóttir sem ver hluta hvers árs á Spáni eftir að hún og fjölskylda hennar heilluðust gersamlega af landinu og kanarísku eyjunum.
Hún segir þau hafa reynt að halda ferðakostnaðinum í lágmarki með því að nýta sér íbúðaskipti sem einnig hafa reynst henni drjúg fróðleiksnáma og efniviður í þriggja bóka ferðahandbókaflokk en í þeirri nýjustu og síðustu leiðir hún lesendur um Costa Blanca.
Spánarhringnum lokað
„Íslendingar hafa í fjöldamörg ár flykkst til Spánar á svæðið í kringum Torrevieja og Alicante og margir keypt sér þar fasteign og sest að og í þessari bók er bent á ýmsa áhugaverða hluti sem gaman er að skoða og prófa á þessu svæði sem kennt er við Costa Blanca,“ segir Svanfríður um ferðahandbókina Costa Blanca – Lifa og njóta.
„Þetta er þriðja handbókin sem ég skrifa um vinsælustu sólaráfangastaði Íslendinga og hér með loka ég hringnum eftir að hafa áður gefið út sambærilegar handbækur um Tenerife og Gran Canaria,“ segir Snæfríður og bætir aðspurð við að hún sé þó hvergi nærri hætt að ferðast til Spánar og skrifa um landið.
„Þessi ferðabókarskrif byrjuðu eiginlega út frá íbúðaskiptunum en heimafólk sem ég kynntist í gegnum þau var alltaf að benda mér á hitt og þetta áhugavert í nágrenninu. Mig langaði til þess að miðla upplýsingunum áfram enda snýst Spánarlífið um svo margt fleira en sól og sangríu.

Markaðurinn er mikill fyrir þetta svæði enda ferðamennskan rótgróin. Þjónustustigið er hátt og því mjög þægilegt að vera ferðamaður þarna.“
Snæfríður bendir á að það sé áhugavert að þrjú íslensk flugfélög bjóði upp á beint flug til Alicante; Play og Icelandair auk þess sem Niceair frá Akureyri sé að bætast í hópinn. Sem er ekki verra þar sem Snæfríður býr á Akureyri, með eiginmanni og þremur dætrum, en er þó alltaf með hugann á Tenerife.
Þrjú hundruð daga sólskin
Snæfríður bætir við að þegar hún fór að ferðast um svæðið hafi þó komið henni mest á óvart hversu fjölbreytt það er. „Flestir sækja jú í strendurnar, hið góða veðurfar, golfvellina og líflegt skemmtanalíf Benidorm, en það eru líka margir skemmtilegir spænskir strandbæir og fjallaþorp á þessu svæði byggð á gömlum grunni sem gaman er að heimsækja.“
Snæfríður segir ferðafólk elska Costa Blanca-svæðið sem hún tekur fyrir í nýjustu bókinni enda skíni sólin þar í yfir 300 daga á ári. „Costa Blanca hefur allt sem fólk sækist eftir. Hvort sem það eru líflegir barir, falleg náttúra, sælkeramatur, skemmtigarðar eða túrkisblátt hafið. Alicante, Benidorm, Calpe, Altea, Torrevieja, Orihuela Costa, allir þessir staðir eru ólíkir en hafa sinn sjarma og eru fullkomnir til þess að lifa og njóta.“