Siggi Stormur segir sumarið byrja illa. Síðan má búast við bongóblíðu eftir miðjan júlí og fram í ágúst, sérstaklega fyrir norðan.

„Seinni hluti sumarsins verður góður og Norðurlandið kemur mjög vel inn, sérstaklega eftir miðjan júlí,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, best þekktur sem Siggi Stormur. Fréttablaðið fékk hann til að fara yfir veðrið í sumar þar sem fjölmargir Íslendingar koma til með að ferðast innanlands.

Siggi viðurkennir að sumarið hafi byrjað illa. „Byrjunin á þessu sumri hefur gjörsamlega mislukkast. Enda þótt það séu fordæmi fyrir því að það snjói í byggð eftir miðjan júní þá sker þetta sumar sig mjög mikið úr miðað við sumrin á undan sem hafa verið prýðisgóð,“ segir Siggi.

Kalt sumar fram í miðjan júlí

Spár hans eru ekki gripnar úr lausu lofti, þvert á móti byggi þær á fjölmörgum langtímaspám frá veðurstofum beggja vegna Atlantshafsins. „Það eru reiknaðar svokallaðar tíðarfarsspár, sem ná yfir mánuð eða þrjá mánuði, þær eru ekki mjög fullkomnar þó að þær hafi tekið miklum framförum frá því fyrir sautján árum þegar ég fór að fylgjast með þeim vandlega. Þær gáfu til kynna að byrjunin á þessu sumri yrði í kaldari kantinum. Þessar sömu spár gera ráð fyrir nokkuð köldu sumri alveg fram í miðjan júlí.“

Spárnar gera ráð fyrir að veðrið verði gott um allt land eftir miðjan júlí og fram í ágúst. „Þetta er ekki fullkomið reiknikerfi en þær gefa tilefni til að ætla að veðrið muni batna. Tíðarfarsspár frá Bandaríkjunum eru jákvæðari en þær evrópsku, þær benda til að júlí verði í meðallagi. Það kom leiðindakafli með mikilli úrkomu í lok júlí í fyrra sem stóð fram í ágúst, það má búast við að það verði einhverjar sveiflur í ár.“

Það er fimm metra hátt fall ofan í Eyvindará. Siggi Stormur segir að það viðri vel til stökks eftir miðjan júlí.Fréttablaðið/Heiða

Bongó fyrir norðan

„Þegar horft er inn í ágúst þá eru horfur á að það verði gott veður, sérstaklega á Norðurlandi. Bæði verður hann hlýrri en í meðalári og þurrari. Ef þú leggur þetta saman þá eru góðar líkur á að bongóblíða verði á Norðurlandi og Austurlandi í lok júlí og fram í ágúst. Það verður töff sumarveður þar sem menn geta leyft sér að kæla sig í kaldri á eða henda sér út í Eyvindará eins og menn gera gjarnan á Egilsstöðum.“

Siggi segir að það sé erfitt að spá fyrir um einstaka helgar, sérstaklega verslunarmannahelgina. „Það er ekkert hægt að fullyrða neitt um það. Það geta komið tuttugu góðir dagar, svo nokkrir leiðinlegir sem hitta beint á verslunarmannahelgina.“

Veðursæld fyrir austan

Siggi segir að sumir staðir séu veðursælli en aðrir. „Það er tilfellið. Almennt er mikil veðursæld á sléttlendinu í uppsveitum Suðurlands, þar er gott skjól fyrir norðanáttinni. Það er líka veðursæld í Húsafelli, það kemur þó fyrir að það sé skýjað þar á meðan það er bjart utar í Borgarfirði. Ásbyrgi að sjálfsögðu. Það er veðursæld á Akureyri, vandinn þar er að þegar hafgola leitar inn og breytist í þoku þá snarkólnar,“ segir Siggi. „Þessi veðursældarsvæði eru frekar fyrir norðan og austan, sólin þar er oftast í suðlægum áttum. Þá fá þeir hlýja sól úr suðri og heita vinda af fjöllum.“