Myndlist

Sýning Hrafnkels Sigurðssonar í Ásmundarsal

★★★★★
Ásmundarsalur
5. september til 18. október

Í lok ágúst var opnuð sýning í BERG Contemporary, galleríinu við Klapparstíg, sem stóð aðeins eina helgi. Raunar voru þrjú gallerí að baki sýningunni því þarna mátti líka sjá framlag frá Gallerí i8 og Hverfisgalleríi. Sýningin átti sér svo systurviðburði í helstu galleríum höfuðborga hinna Norðurlandanna sem sýndu öll verk eftir konur sem standa framarlega á sviði samtímalistarinnar. Saman mynduðu sýningarnar myndlistarmessuna Chart 2002, en frá árinu 2013 hefur hún verið haldin í Kaupmannahöfn og er einn helsti viðburður ársins fyrir áhugafólk um nýja norræna myndlist. Síðasta haust komu 24.500 gestir á hátíðina – þar af um 10.000 erlendir gestir frá 35 löndum. Í vor var orðið ljóst að ekki yrði hægt að halda slíkan viðburð í Kaupmannahöfn í skugga heimsfaraldurs og var því brugðið á það ráð að dreifa honum á samstarfsaðila í höfuðborgunum fimm. Svona reynir fólk að halda menningarlífinu gangandi á kóvid-tímum.

Við höfum öll fundið fyrir áhrifunum af þessum faraldri, kannski dýpri áhrifum en við höfum enn áttað okkur á. Fólk um allan heim hefur þurft að finna nýja nálgun við lífið, hvort sem lýtur að vinnu eða daglegu lífi, fjölskyldu, vinum og umhverfinu eða reglu og takti hversdagslífsins. Umfram allt höfum við haft tíma til að hugsa, hver eftir sínu geðslagi og áhugaefnum. Við erum líka farin að taka öðruvísi eftir umhverfi okkar og veitum hlutum athygli sem verða oft á vegi okkar en við höfum varla leitt hugann að áður. Mörg látum við hugann reika eða prófum að hugsa ekki um neitt eða bara liggjum í grasinu og horfum á skýin. Skýjafarið er eins og barómet á umhverfi okkar og líf. Til að skilja eigið líf, tilfinningar og hugsun er margt vitlausara en að spá í skýin.

Teygt á augnablikinu

Sýning Hrafnkels Sigurðssonar í Ásmundarsal er eins og hún hafi verið gerð fyrir einmitt þetta augnablik í sameiginlegri reynslusögu okkar þótt hann hafi unnið að hugmyndinni árum saman. Af forspá sinni færir hann okkur vídeóverk sem sýna á nokkrum stórum skermum myndir af skýjum sem hreyfast svo hægt að við sjáum þau ekki breytast nema við störum á þau af meiri einbeitingu og lengur en við viðhöfum alla jafna við verk á sýningum. Skermarnir hanga hátt uppi í salnum og fljóta sumir í loftinu yfir áhorfendum eins og ský eiga að gera.

Það kemur því örlítið á óvart að titill sýningarinnar vísi ekki í ský og að texti Andra Snæs Magnasonar fjalli um loftslagshlýnun. Yfirskrift sýningarinnar er „Fæðing guðanna“ á íslensku en „Freeze Frame“ á ensku. Þetta eru ekki myndir af skýjum, eins og Hrafnkell lýsir sjálfur í viðtali: „Ég vann ísskúlptúra í samvinnu við náttúruöflin uppi á Skálafelli. Ég lagði til grindina og náttúran sá um að hlaða ís á grindurnar og úr urðu óvænt form sem ég myndaði og kvikmyndaði yfir langt tímabil.“ Náttúran speglar hið stóra og hið smáa og ísmyndanir á grind eru bara hin hliðin á skýjapeningnum. Með því að hægja á myndunum hefur listamanninum tekist að teygja á augnablikinu. Myndirnar sem virðast svo hverfular þegar við liggjum í grasinu og horfum upp á skýin opnast núna eins bók. Þar sem við sáum rétt titilinn á kilinum áður en myndin hvarf sjáum við núna heilan heim af ævintýrum og efni til íhugunar.

Ný sýn á allt

Þeim sem fylgst hafa með sýningum Hrafnkels kemur þetta kraftaverk ekki á óvart. Trekk í trekk hefur hann leikið þennan leik, að finna eitthvað sem er svo hversdagslegt að við leiðum varla að því hugann fyrr en hann birtir það okkur í myndum sinum og opnar okkur með því nýja sýn á allt í heiminum. Hann hefur töfrað fram óendalega og merkingarþrungna fegurð úr sorpi, síðum skipa í slippnum, rennibraut við sundlaug, slorblautum sjógöllum, snjóruðningi á bílastæðum og jafnvel bóluplasti. Svo ólík sem viðfangsefnin eru mynda þau eitt heildstæðasta höfundaverkið í íslenskri samtímalist.

Sýningin er ákaflega vönduð og verkin þaulhugsuð og unnin af þolinmæði eins og allt sem Hrafnkell Sigurðsson lætur frá sér.

Niðurstaða: Sá sem gefur sér næði og tíma til að upplifa sýninguna og hugsa um hana kemur varla samur maður út og það er ekki vegna þess að verkið sé svo flókið eða margbrotið heldur einmitt fyrir hvað það er einfalt og fágað.