Leikhús

Stúlkan sem stöðvaði heiminn

★★★1/2

Verk eftir 10 fingur

Borgarleikhúsið

Leikstjórn: Helga Arnalds

Leikarar: Benedikt Karl Gröndal, Kjartan Darri Kristjánsson og Sólveig Guðmundsdóttir

Leikmynd og myndheimur: Eva Signý Berger og Helga Arnalds

Búningar: Eva Signý Berger

Tónlist og hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson

Sviðshreyfingar: Katrín Gunnarsdóttir

Hönnun lýsingar og tæknistjórnun: Fjölnir Gíslason

Búningasaumur: Alexía Rós Gylfadóttir

Sú regla hefur verið gildandi síðustu misseri að framsækið og öðruvísi barnaleikhús á Íslandi sé helst að finna hjá sjálfstæðu leikhópunum. Leikhópurinn 10 fingur sló eftirminnilega í gegn með sýningunni Lífið fyrir nokkrum árum og nú hefur Borgarleikhúsið tekið leikfélagið inn fyrir sína veggi. Það fær rými á Litla sviðinu og pláss innan fræðsludagskrár hússins en nemendur fimmta bekkjar á höfuðborgarsvæðinu fengu boð um að sjá sýninguna sér að kostnaðarlausu. Slík þverfagleg vinnubrögð eru vonandi það sem koma skal í samvinnu sjálfstæðu senunnar og stóru leikhúsanna.

Stúlka á krossgötum

Stúlkan sem stöðvaði heiminn fjallar í stuttu máli um unga stúlku á krossgötum. Hún stendur á þröskuldi unglingsáranna og á þessum viðkvæma tíma ákveða pabbar hennar að flytja í nýtt hverfi. Flestum stundum virðist hún eyða inni í herberginu sínu að skapa nýja heima úr efni sem enginn vill. Handritið er í höndum leikhópsins og efniviðurinn á svo sannarlega við í samtímanum, þar sem hver váin virðist skella á eftir annarri. Faraldurinn hefur einangrað marga og nú síðast fór jörðin að skjálfa. Þessa áhugaverðu strengi mætti þó hnýta betur saman, skapa sterkari bakgrunn fyrir aðalpersónuna sem áhorfendur kynnast í raun lítið og tengja betur við þau stóru mál sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Orkumikil samvinna

Benedikt Karl Gröndal, Kjartan Darri Kristjánsson og Sólveig Guðmundsdóttir mynda leikhópinn en samvinna þeirra er orkumikil og einlæg. Þau njóta sín best í hlutverki hvítklæddu veranna sem búa í taugakerfi litlu stúlkunnar. Ekki er verra að þau minna svolítið á blóðkornin í hinum klassísku frönsku sjónvarpsþáttum Einu sinni var... eða Líf í nýju ljósi. Taugafrumurnar keppast við að skilgreina og vinna úr tilfinningaflækjunni sem einkennir líf barna á þessum aldri, með frumlegum og óvæntum aðferðum. Sólveig leikur síðan ungu stúlkuna en þrátt fyrir ágæta tilburði hennar kynnumst við aðalpersónunni ekki nægilega vel. Benedikt og Kjartan koma feðrum stúlkunnar lipurlega til skila. Í heildina er það samleikur þeirra þriggja sem stendur upp úr og drífur sýninguna áfram.

Talar til samtímans

Leikstjórinn, Helga Arnalds, finnur sögunni fínan farveg en sumar senurnar verða of langdregnar, slíkt verður áberandi í sýningu sem telur ekki klukkutímann. Áherslan er lögð á að skapa eftirminnilegar sviðsmyndir og til þess nýtir hún sér rými Litla sviðsins frá rjáfri niður í kjallara. Henni til halds og trausts er leikmyndahönnuðurinn Eva Signý Berger, en þær búa til myndheim sýningarinnar í sameiningu. Plasthellirinn sem umlykur nánast allt rýmið er áhrifamikill og eru möguleikar hans nýttir á fjölbreyttan máta. Efnisheimurinn umbreytist eftir tilfinningum aðalpersónunnar og þar verður sýningin áhrifamest.

Dansarinn og danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir er á miklu flugi þessa dagana. Hreyfingamynstur hennar færir sýninguna á annað plan, þar sem hver hreyfing er hugsuð til að spenna upp senurnar. Vinna Valgeirs Sigurðssonar og Fjölnis Gíslasonar fellur snyrtilega inn í þessa samsköpun.

Stúlkan sem stöðvaði heiminn talar svo sannarlega til okkar samtíma eins og áður segir. Áhorfendur eru hvattir til að trúa á sjálfa sig í stað þess að leyfa kvíðanum að taka öll völd. Auðvitað er slíkt hægara sagt en gert, áminningin er þó alltaf jafn mikilvæg. Þess væri þó óskandi að hugmyndirnar hefðu verið teknar lengra, að fleiri grunnefni sýningarinnar hefðu verið jafn vönduð og stílfæringar Katrínar og handritshöfundar gefið aðalpersónunni sterkari baksögu.

Niðurstaða: Ljúf leiksýning um ævintýri og raunir hversdagsins.