Bækur

Undir Yggdrasil

★★★ 1/2

Vilborg Davíðsdóttir

Útgefandi: Mál og menning

Blaðsíðufjöldi: 327

Vilborg Davíðsdóttir tekst enn sem áður á við raunveruleika íslenskra kvenna á árunum eftir landnám, í nýrri skáldsögu sinni Undir Yggdrasil. Í þetta skiptið er það Þorgerður Þorsteinsdóttir sem fer þar fremst í flokki. Þorgerður er skörungur mikill og barnabarn Auðar djúpúðgu sem Vilborg tók fyrir í þríleik sínum Auði, Vígroða og Blóðugri jörð. Ólíkt ömmu sinni sem tók upp kristna trú leggur Þorgerður enn trú sína á skapanornirnar. Sögusvið Undir Yggdrasil er því sveipað töfrablæ og eru gamlar vættir aldrei langt undan með sínar löngu krumlur.

Ung að árum er Þorgerður gefin Dala-Kolli og eignast þau tvíburana Gróu og Höskuld sem líkjast föður sínum mjög. Samband Þorgerðar og manns hennar er nokkuð stirt og lesandi fær að vita meira um rætur vandræða þeirra þegar líða fer á söguna. Tíu árum síðar fær Þorgerður svo eigið óskabarn í hendurnar, dótturina Þórkötlu sem er augasteinn móður sinnar. Við upphaf sögunnar, þegar Þórkatla er sjö ára, dregur skugga fyrir sólu í lífi Þorgerðar þegar dóttirin hverfur skyndilega. Röð áfalla knýr Þorgerði af landi brott þar sem hún þarf að beita öllum sínum styrk til þess að halda áfram í leit að svörum um afdrif dóttur sinnar og eigin framtíð.

Spennandi framvinda verksins heldur lesanda við efnið þó Vilborg sveipi að venju texta sína forneskjulegum blæ og lesandi þarf stundum að hafa sig allan við til að fylgja þræðinum eftir. Þorgerður sjálf er margslungin og raunveruleg persóna sem lesandi finnur til með í sársauka hennar. Aðrar persónur eru einnig fjölmargar og litríkar, hvort sem um er að ræða skapaðar persónur eða sögupersónur unnar upp úr sögu Íslands eins og Þorgerður sjálf, Dala-Koll mann hennar og Auði ömmu hennar.

Í Undir Yggdrasil tæklar Vilborg enn og aftur þann sótsvarta raunveruleika sem blasti við konum á árunum eftir landnám og þá erfiðleika sem þær þurftu að takast á við á lífsleiðinni. Hvort sem það var að vera gefnar í hjónaband vart af barnsaldri, kynferðisofbeldi eða takmarkað vald yfir eigin örlögum. Undir Yggdrasil er kröftug frásögn og alvarleg enda er það ekkert léttmeti þær hremmingar sem sögupersónurnar lenda í. Lesandi verður að vera tilbúinn að lifa sig inn í frásögnina en á sama tíma tilbúinn að takast á við það svartnætti sem mætir sögupersónunum.

Eins og áður snuðar Vilborg lesanda heldur ekki um örlitla rómantík þó það sé fremur móðurástin sem er hér fremst í flokki og sýnir hvers mannskepnan er megnug þegar kemur að því að verja eigin afkvæmi.

Niðurstaða: Sterk skáldsaga um harm og syndir á árunum eftir landnám. Full af dulúð og göldrum en líka sorg og svartnætti.