Hrefna Líf Ólafs­dóttir hefur undan­farin fjögur á skapað sér gott orð­spor á sam­fé­lags­miðlinum Snapchat og í kjölfarið Instagram. Þar hefur hún hleypt fólki nærri sér á per­sónu­legan og ein­lægan hátt, deilt með því bæði sigrum og sorgum á­samt því að ræða opin­ber­lega um þau veikindi sem hún hefur þurft að takast á við.

Hrefna sem er þrjá­tíu og þriggja ára gömul starfar með eigin at­vinnu­leyfi á leigu­bíl, stundar nám í hag­fræði og býr í Reykja­vík á­samt kærasta sínum, syni og stjúp­syni. Hún er í dag gengin 26 vikur með sitt annað barn en lífið undan­farið árið hefur ekki verið auð­velt fyrir Hrefnu.

„Ég lýsi lífi mínu alltaf sem fyrir og eftir ADHD greiningu þar sem ég sjálf er að upp­lifa svo mikla breytingu á sjálfri mér. Þegar ég byrjaði á Snapchat árið 2015 þá var ég í endur­hæfingu á vegum virk, greind með geð­hvörf 2, þung­lyndi og kvíða. Ég var dottin úr öllu dag­legu lífi og ég sá aldrei fram á að líf mitt yrði ein­hvern tíma skemmti­legt aftur. Ég gat ekki séð fyrir mér að mig myndi hlakka til að vakna og gera eitt­hvað sem myndi gleðja mig. Hvað þá eignast fjöl­skyldu eða klárað nám. Ég var búin að berjast svo lengi við þung­lyndi og mér var alltaf að mis­takast allt,“ segir Hrefna í við­tali við Frétta­blaðið.

Þegar Hrefna var greind með ADHD fóru geðhvörfin í dvala.
Mynd/anton

Í endur­hæfingu fór Hrefna í mikla sjálfs­vinnu sem hún segir að hafi hjálpað henni að komast í átt að réttri greiningu.

„Þegar ég fékk ADHD greininguna þá fór geð­hvarfa­greiningin í dvala sem er mjög al­gengt. Þeir sem eru með geð­hvörf fara upp og niður í svo­kallaðar maníur en ég fór aldrei þannig upp að ég missti allt sens. Ég var þó alltaf að gera eitt­hvað af mér, var rosa­lega hvat­vís og missti allt út úr mér. Síðan ég fékk ADHD greininguna tók það mig alveg 1-2 ár að læra hvernig eðli­legur ein­stak­lingur er og hvernig sam­fé­lagið segir að þú eigir að vera. Þar fannst mér öll sam­tals­með­ferðin sem ég fékk vegna geð­hvarfanna skila sér og eftir að ég fékk rétt lyf þá fór ég að hugsa miklu skýrara og var ekki eins hvat­vís. Mér finnst ég í raun hafa farið úr því að vera ein­hver karakter yfir í það að vera ein­hver allt önnur, eins og ég hafi þroskast um heila manns­ævi,“ segir Hrefna sem þarf í dag ekki að taka nein lyf við geð­hvörfum né kvíða.

Mér fannst ég alltaf vera svarti sauðurinn alls staðar en núna finnst mér ég vera meira eðli­leg.

Lífið varð miklu léttara

„Geð­hvörfin eru enn til staðar en þau liggja í dvala og eru ekkert að fara að koma aftur á meðan ég lifi heil­brigðum lífs­stíl. ADHD lyfin komu mér á réttan kjöl og lífið er miklu léttara. Ég hélt að líf mitt væri búið og árið 2014 reyndi ég að fremja sjálfs­víg en mamma mín kom að mér. Það var þá sem ég fór í endur­hæfingu og ég velti því oft fyrir mér hvernig þetta hefði verið ef ég hefði fengið ADHD greininguna fyrr og rétt lyf. Þá hefðu kannski ung­lings­árin mín verið þægi­legri og öll dag­leg mann­leg sam­skipti ekki eins erfið fyrir mig. Ég hafði aldrei rétta stjórn á mér og kom öllu rangt frá mér. Mér fannst ég alltaf vera svarti sauðurinn alls staðar en núna finnst mér ég vera meira eðli­leg.“

Hrefna viður­kennir að breyting á per­sónu­leika hennar sé gífur­leg. Hún sé í dag ein­læg, opin en samt sem áður feimin.

„Fyrir greiningu upp­lifði ég reglu­lega að fólk hélt að ég væri slæm manneskja sem ég er ekki. Það er svo leiðin­legt þegar fólk heldur að maður sé ekki góð manneskja,“ segir hún.

Þegar Hrefna byrjaði ferða­lag sitt á sam­fé­lags­miðlum var hún gífur­lega þung­lynd og upp­lifði hún mikla at­hyglis­þörf.

„Ég var rosa­lega þung­lynd og ég hafði ekkert að gera. Mig langaði mikið til þess að verða fræg og það varð hálf­gert „mission“ hjá mér. Mig langaði að at­huga hversu langt ég kæmist með þetta en á þessum tíma fannst öllum þetta vera fer­lega hall­æris­legt. Ég sendi á fullt af fjöl­miðlum mynd­bönd af mér og sagði þeim að ég væri geð­veikt fræg. Á þessum tíma voru á­hrifa­valdar ekki orðnir neitt og þetta var allt hálf kjána­legt. Ég var í ein­hverjum svaka­legum galsa eða maníu og daginn eftir að ég sendi þetta þá birtust fréttir á nokkrum miðlum. Á tólf tímum komu um 2000 manns inn á Snapchat hjá mér og á þeim tíma var það á­gætis tala. Þannig byrjaði þetta nú,“ segir Hrefna og hlær þegar hún hugsar til baka.

Þráði að vera fræg

Hrefna segir sam­fé­lags­miðlana hafa breyst mikið á þeim fjórum árum síðan hún byrjaði og að hún hafi sjálf breyst mikið með.

„Á þessum tíma var þetta allt öðru­vísi. Ég flutti til Spánar og fór í nám og það má segja að ég hafi misst ör­lítið af lestinni. Þarna fóru af stað öll þessi sam­störf og tengsla­netið á milli fólks jókst. Það mynduðust hópar og þannig sópuðust aðrir út af markaðnum. Ég er ekkert rosa­lega mikið „in the game“ og hef þannig séð ekki sóst eftir því en það gerðist rosa­lega mikið í sam­fé­lags­miðlum á þessu ári sem ég var úti,“ segir Hrefna og bætir við:

„Fyrstu tvö árin setti ég mig alltaf í karakter. Tók kannski fimm skeiðar af amino og þetta var bara koffín, ung­linga of­virkni, þó ég væri full­orðin. Ég hélt alltaf að ég þyrfti að vera ein­hver önnur til þess að fólki þætti ég vera á­huga­verð. Ég þráði bara að vera fræg en í dag er ég bara ó­trú­lega lítil í mér, er mamma og gömul sál. Mig langar alveg enn þá í at­hygli en ég vil að það sé fyrir eitt­hvað sem ég geri. Eitt­hvað mál­efni sem ég ræði og skiptir máli eða ef ég syng vel eða annað. Mér finnst ég vera allt önnur manneskja heldur en þegar ég byrjaði.“

Hefur glímt við átröskun lengi

Síðast­liðið ár hefur verið við­burða­ríkt í lífi Hrefnu en í upp­hafi árs tók hún á­kvörðun um að fara í maga­ermi og takast á við matar­fíkn sem hún hefur glímt við lengi. Það sem tók svo við í kjöl­far að­gerðarinnar átti eftir að setja stórt strik í bata­ferli hennar.

Ég hef ekki svelt mig frá árinu 2015.

„Ég er búin að hugsa um þetta svo lengi en mér fannst ég ekki þurfa á þessari að­gerð að halda vegna þess að þetta væri bara fyrir fólk sem hafði ekki stjórn á sér. Sem ég hafði klár­lega ekki. Í að­gerðinni tekur skurð­læknir 75-80% af maganum í burtu og fannst mér hún vera til­valin fyrir mig. Fyrir nokkrum árum og í langan tíma var ég alltaf að svelta mig og ég er með átröskunar­greiningu. Það er mjög al­gengt hjá fólki með geð­hvörf og ADHD því það fylgir þessu þessi þrá­hyggja. Ég hef ekki svelt mig frá árinu 2015 en fyrir það þá mat ég sjálfa mig alveg út frá tölunni á vigtinni og bannaði mér allt. Ég úti­lokaði mig alveg þegar ég tók mig á og ef ég missti kíló voru það alltaf á bilinu 30-50 kíló á kannski 3-6 mánuðum. Þá borðaði ég kannski rúm­lega 300 kal­oríur, æfði í 2-4 tíma á dag og drakk ó­geðs­lega mikið af koffíni. Ég var oft svo upp­gefin því ég var auð­vitað ekki að nærast neitt. Þannig grenntist ég ó­trú­lega hratt og allt var frá­bært en vegna þess að ég hafði svelt mig allan þennan tíma þá datt ég í lokin í þung­lyndi og heilinn minn krassaði. Þá sökk ég lengra og lengra niður og tók kannski hálft ár til ár þar sem ég þyngdist alltaf meira og meira til baka.“

Hrefna hefur tekist á við matarfíkn sína eftir magaermina.
Mynd/Aðsend

Hrefna hefur verið hjá sama geð­lækni í ellefu ár sem reyndi að benda henni á þetta ó­heil­brigða sam­band Hrefnu við mat en allt kom fyrir ekki.

„Ég finn að ég er södd en ég get ekki hætt að borða. Ég borða bara og borða og æli svo til þess að gera meira pláss. Ég neitaði mér líka vís­vitandi um mat og hugsun manns breytist í al­gjöra þrá­hyggju. Tengingin við mat er ekki sú að maður sé að nærast og ég hugsaði aldrei að ég vildi grennast hægt og rétt þannig að það ylli mér ekki skaða seinna meir. Ég hafði bara enga stjórn, fór kannski og keypti bara allt bakaríið í Hag­kaup eða eitt­hvað og át það allt. Svo ældi ég þegar það var ekki meira pláss og þrátt fyrir að ég vissi að ég væri orðin södd þá gat ég ekki stoppað sjálfa mig. Oft þegar ég fór í veislur var ég kannski að fara fimmtu ferðina mína með kúf­fullan disk og var enn þá að borða þegar fólk var að fara. Mér fannst fólk alltaf vera að horfa á mig og dæma mig. Geð­læknirinn minn var búin að biðja mig um að fara í endur­hæfingu í alveg þrjú til fjögur ár og hún taldi mig vera komin á þann stað að ég gæti fengið fullt ör­orku­mat og var hún til­búin til þess að sækja um það fyrir mig. En ég vildi það alls ekki því vegna þess að um leið og ég væri komin í kerfið sem ör­yrki þá myndi ég trúa því sjálf og næði ekki bata. Ég skal alveg verða ör­yrki ef það er málið en ég vil reyna allt áður. Ég held að ég hefði ekki náð bata ef ég hefði sam­þykkt að fara í ör­orku­mat. Að sjálf­sögðu ef ég er full­reynd og læknar meta mig sem and­lega ó­hæfa til þess að sjá um mig þá auð­vitað er það þannig, en ég vil vera búin að reyna allt áður.“

Ég finn að ég er södd en ég get ekki hætt að borða.

Fíkillinn er enn til staðar

Vegna þess hve lengi Hrefna hafði unnið í sínum málum fyrir að­gerð taldi geð­læknir hennar hana vera vel undir­búna en Hrefna fór á einka­stofu í staðin fyrir að fara í gegnum stofnun sem undir­býr fólk fyrir að­gerðir sem þessa.

„Þetta er svo erfitt, þetta er ekki þannig að þú verð í að­gerð og að í henni fari allt þetta and­lega líka og lífið verður bara frá­bært á einu bretti. Þetta er svo erfitt vegna þess að fíkillinn er náttúru­lega enn þá til staðar en þú getur ekki fylgt fíkninni eftir. Ég hafði unnið rosa­lega for­vinnu fyrir að­gerðina og geð­læknirinn minn sagði mig til­búna í hana vegna þess. En fyrir mann­eskju sem langar að stökkva í þetta bara af því að þetta er þægi­leg lausn þá mæli ég aldrei með því. Sér­stak­lega ef þú ert þung­lyndur eða með mikla fíkn eða þrá­hyggju gagn­vart mat þá er bara verið að setja þig í fangelsi. Eftir situr matar­fíkillinn sem getur ekki upp­fyllt þarfir sínar,“ segir Hrefna.

Hrefna er ánægð með þá ákvörðun að hafa farið í aðgerðina sem hefur hjálpað henni að takast á við matarfíknina.
Mynd/Aðsend

Ákveðið sorgarferli að geta ekki borðað eins og áður

Matar­fíknin tók veru­lega á Hrefnu fyrst eftir að­gerðina og upp­lifði hún sig sem mikið fórnar­lamb vegna þess að hún gat ekki lengur borðað eins og áður.

„Ég var oft alveg ó­trú­lega fúl vegna þess að ég gat ekki einu sinni borðað helminginn af barna­rétti sem ég pantaði mér en í dag er ég bara sátt. Ég var reglu­lega að syrgja það að ég gæti ekki klárað matinn. Það var rosa­lega erfitt þó ég hefði svona góðan grunn og ég datt rosa­lega í það að vor­kenna mér. Þetta var á­kveðið sorgar­ferli. Í dag líður mér vel og ef mig langar í nammi eða eitt­hvað þá fæ ég mér bara og ég þarf svo ó­trú­lega lítið. Þetta er ekki lengur þannig að ég skammast mín fyrir það sem ég borða og brýt mig ekki lengur niður vegna þess að núna get ég borðað rétt magn af mat. Ég er rosa­leg sátt með það vegna þess að ég get ekki stjórnað mér sjálf. Auð­vitað þarf maður að hugsa um þá næringu sem maður borðar í dag, þetta snýst ekkert endi­lega um magnið sem maður borðar heldur kal­oríurnar sem maður inn­byrðir. Ef ég lifi á ó­hollum mat þá er ég að fá miklu fleiri kal­oríur inn og get alveg þyngst aftur, þannig er hægt að eyði­leggja fyrir sér.“

Varð ófrísk aðeins níu vikum eftir aðgerð

Að­eins níu vikum eftir að Hrefna fór í maga­ermina komst hún að því að hún væri barns­hafandi. Fréttirnar voru bæði á­nægju­legar en á sama tíma ógn­vekjandi.

Ég var farin að halda að ég gæti ekki eignast annað barn.

„Ég var í mikilli of­þyngd fyrir að­gerð en núna veit ég í raun ekki í hvaða stærð ég er vegna ó­léttunnar. En mér líður miklu miklu betur þó ég sé í yfir­þyngd. Mér finnst allt í lagi að vera í yfir­þyngd en ég vildi bara ekki vera í of­þyngd. Ég hlakka auð­vitað til að eiga barnið og vita hvernig ég verð eftir það. Líka að geta æft og komist í gott form en fyrir mér er þetta ekki þannig að ég verði að komast í ein­hverja á­kveðna þyngd. Bara um leið og ég er ekki í of­þyngd,“ segir Hrefna sem segir með­gönguna hafa tekið mikið á and­lega og líkam­lega.

„Þetta er búið að vera erfitt. Blóð­þrýstingurinn fór alveg niður og ég var við van­næringar­mörk og rúm­liggjandi. Þetta hefur verið alveg fá­rán­lega krefjandi en um leið og ég komst að því að ég væri ó­létt á­kvað ég ekki að ein­beita mér að vigtinni heldur næringunni. Mér datt ekki í hug að ég væri ó­létt en ég hafði misst fóstur þrisvar sinnum á stuttum tíma fyrir að­gerðina og var eitt af því utan­legs fóstur. Ég var farin að halda að ég gæti ekki eignast annað barn en þegar ég fór til kven­sjúk­dóma­læknis gat hann ekki séð að það væri neitt sjáan­legt að mér en benti mér á að þyngd mín gæti verið að spila inn í. Ég hugsaði þá með mér að ef mig langaði í annað barn þá þyrfti ég að gera eitt­hvað til þess að breyta til. Svo er rosa­lega al­gengt að konur verði ó­léttar eftir svona að­gerð líka vegna þess að getnaðar­varnar­pillan virkar ekki.“

Hræddist um ófætt barn sitt.
Mynd/Anton

Brotin von eftir þrjú fósturmissi

Hrefna upp­lifði blendnar til­finningar þegar hún komst að þunguninni en vegna fóstur­missanna átti hún erfitt með að fagna vegna hræðslu um ó­fætt barn sitt. Fljót­lega fór að halla undan fæti hjá föður Hrefnu sem veiktist af krabba­meini sem á­gerðist mjög hratt.

„Ég var á­nægð þegar ég komst að því að ég væri ó­létt en af því að ég hafði misst fóstur alveg á hálfs­árs fresti þarna á undan þá fannst mér þetta samt ekkert gleði­legt. Þegar maður er búinn að missa fóstur svona oft þá var ég orðin vön því að upp­lifa svona von sem svo brotnaði. Ég vildi bíða eftir tólf vikna sónar til þess að gleðjast en svo missti ég Myrru, hundinn minn sem mér þótti svo vænt um, blóð­þrýstingurinn minn varð rosa­lega slæmur og pabbi minn veiktist mikið og ég missi hann úr lungna­krabba­meini. Mér fannst þetta rosa­lega erfitt tíma­bil og ég á erfitt með að skil­greina til­finningar mínar á þessum tíma. Á sama tíma upp­lifði ég það að vera fúl og eigin­gjörn vegna þungunarinnar þó svo að þetta væri eitt­hvað sem mig langaði. Ég hafði farið í að­gerðina og ætlaði að taka árið í að ná heilsunni minni til baka en þarna varð ég bara krónískt þreytt og þurfti að deila líkama mínum með öðrum. En þegar ég var gengin tólf vikur hætti ég að vera eins hrædd og varð alveg ó­trú­lega glöð og spennt fyrir með­göngunni.“

Vegna þess hve stutt var frá maga­erminni og þar til Hrefna varð ó­frísk er hún undir sér­stöku eftir­liti en er þó ekki sett í á­hættu með­göngu. Með­gangan byrjaði brösug­lega og kastaði Hrefna mikið upp fyrstu tuttugu vikurnar. Þá upp­lifði hún mikinn næringar­skort og þreytu.

„Ég vissi ekkert hvað amaði að og fékk aldrei nein svör hvort þetta væri út af með­göngunni eða að­gerðinni. Þetta hefur verið svo­lítið erfiður tími og ég myndi ekki mæla með þessu. Ég hafði líka miklar á­hyggjur af því að ég myndi fæða barnið langt fyrir tímann sem yrði allt of lítið. Það komu alls­konar svona á­hyggjur upp en ég fékk svo góða ljós­móður og það er fylgst vel með mér.“

Veikindi og andlát föður Hrefnu lituðu gleðina sem venjulega fylgir þungun.
Mynd/Anton

Erfitt að gleðjast í kjölfar föðurmissis

Eins og áður sagði veiktist faðir Hrefnu al­var­lega af lungna­krabba­meini og tóku veikindi hans mikið á fjöl­skylduna.

„Hann veikist í mars og fékk þá greiningu á lungna­krabba. Hann hafði örugg­lega veikst að­eins fyrr en vegna þess að hann var af gamla skólanum þá fór hann ekkert til læknis. Honum hrakaði mjög hratt og fór bæði í lyfja- og geisla­með­ferð sem virkaði svo ekki. Hann var gengin of langt og lést í októ­ber. Þegar hann fékk greininguna þá fegraði hann þetta alltaf fyrir mér, sagði að þetta ætti ekkert að stækka og að hann fengi alveg lyf og svona. Ég var ekkert að búast við því að þetta væri svona al­var­legt og að hann væri að fara að deyja strax en þegar leið á og ég fór að fara með honum til læknis og svona þá komst ég að því hvað þetta var al­var­legt og vissi að hann væri að fara að deyja. Þetta var samt mikið sjokk fyrir alla og þegar hann dó þá vissu fáir að hann væri svona veikur. Þetta var alveg ömur­legur tími og ég veit ekkert hvernig ég á að vinna í þessu. Núna eru líka hormónarnir alveg á fullu og mér finnst ein­hvern veginn svo mikið búið að gerast þetta ár. Um leið og pabbi lést þá seldist í­búðin sem við vorum að leigja og við þurftum að finna okkur nýja íbúð. Þetta er búið að vera mjög við­burða­mikið ár og ég vona að 2020 verði að­eins ró­legra.“

Skammast sín ekki lengur að borða

Í dag eru 34 vikur frá því að Hrefna fór í að­gerðina og segist hún hafa verið lang þyngst síðustu ára­mót. Síðan þá hafi hún í heildina misst 33 kíló og 26 þeirra hafi farið eftir að­gerðina. Segist hún enn glíma við matar­fíknina en að hugsun hennar hafi þó breyst mikið frá því að hún settist undir hnífinn.

„Fyrir svona þremur til fjórum mánuðum síðan þá hef mér fundist ömur­legt að geta ekki borðað mikið um jólin en í dag hugsa ég ekki þannig. Þetta snýst ekki allt bara um mat núna. Ég get alveg fengið mér allt en bara í miklu minna magni. Þegar maður hefur verið í svona mikilli yfir­þyngd eins og ég var þá var þetta farið að hrjá mig svo mikið. Mér leið svo illa og ég var svo ó­trú­lega ó­sátt við það hvernig ég leit út. Í dag finnst mér þessi fórn ekki jafn slæm og áður þrátt fyrir að fíknin komi alveg af og til. Það er líka svo ó­trú­lega fé­lags­legt að borða og margt sem maður gerir tengist mat á svo mikinn hátt. Ég þurfti að breyta hugsun minni svo mikið og átta mig á því að ég get alveg farið með fólki eitt­hvert og fengið mér mat þó ég nái ekki að klára hann. Fyrir nokkrum mánuðum upp­lifði ég mig sem mikið fórnar­lamb en það er ekki þannig í dag. Mér finnst geð­veikt að upp­lifa ekki neina skömm og það er ekkert leik­rit í kringum það að borða. Þegar maður er matar­fíkill upp­lifir maður nefni­lega alltaf svo mikla skömm þegar maður borðar.“

Ég er mikið fiðrildi og langar að vinna við eitt­hvað skapandi.

Eftir við­burða­ríkt og erfitt ár stefnir Hrefna á að vinna í mark­miðum sínum og hætta að ein­blína á það sem miður hefur farið.

„Ég ætla að fara á söng­nám­skeið eftir ára­mót og mig langar að gera eitt­hvað meira með sönginn. Ég hef aldrei látið neitt verða úr því en núna langar mig að gera það. Ég er svona að vakna til lífsins og er miklu peppaðri fyrir allt saman. Ég held að ég hafi verið allt of lengi í ein­hverju sem liggur ekki vel fyrir mér eins og til dæmis akademískt nám í staðin fyrir að finna mér vett­vang þar sem ég blómstra. Það ætla ég að gera núna, mig langar að gera það sem ég veit að ég er góð í og ég hef verið allt of upp­tekin af því að mér mis­tókst þegar ég fór í dýra­lækna­nám á sínum tíma. Ég er mikið fiðrildi og langar að vinna við eitt­hvað skapandi þar sem ég er alltaf „on the go“ það er eitt­hvað sem hentar mér. Ég er í dag í ó­trú­lega góðu sam­bandi, ó­trú­lega sátt með lífið þó ég sé bara geð­veikt fá­tæk og eitt­hvað en árið 2020 langar mig til þess að finna hvar ég passa inn. Ég er ekkert rosa­lega týnd sjálf en ég þarf að finna rétta vett­vanginn fyrir mig. Hver veit, kannski leiðir öll sú vinna sem ég hef lagt í sam­fé­lags­miðla mig í ein­hver tæki­færi?“