„Ég missti móður mína úr sjálfsvígi þegar ég var 23 ára, við tók rúmur áratugur af erfiðleikum í kjölfar þeirrar sorgar. Sorgin lá eins og mara yfir lífinu og ógnaði mínu eigin lífi að mörgu leyti. Í kvöld mun ég segja frá því reiðarslagi og afleiðingunum þess. En einnig frá því hvernig mér hefur á síðustu árum tekist að vinna mig út úr mestu sorginni með faglegri aðstoð og einmitt með því að tjá mig um hana við aðra og opinberlega. Því er gott að fá að tala á kyrrðarstundinni í kvöld á alþjóðlegum degi gegn sjálfsvígum,“ segir Sara.

Styrkur í að vera saman í sorginni
„Að finna fyrir samfélagsmættinum og hlusta á aðra opna sig um sína eigin sorg við mig í kjölfar þess að ég hef sagt frá minni reynslu hefur verið magnað. Að lifa einmana í óunninni sorg getur verið hættulegt. Birtingarmyndir slíks ástands geta verið: reiði, hræðsla, þunglyndi, kvíði, neysla og/eða sjálfsvígshugsanir - og jafnvel sjálfsvíg. En að vera saman í sorginni, tengjast hvoru öðru, gráta, vinna úr hlutunum og finna fyrir erfiðum tilfinningum saman án dómhörku, án skammar getur styrkt okkur öll svo mikið. Og mögulega bjargað lífum. Þorum að ræða áföllin, sorgina, órökréttar tilfinningar og sársaukann. Það styrkir okkur öll, og samfélagið okkar.
Kyrrðarstundir
Kyrrðarstundir í minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi verða haldnar í Dómkirkjunni í Reykjavík kl. 20, í Sandgerðiskirkju (safnaðarheimili) á Suðurnesjum kl. 20; í Selfosskirkju kl. 20 í samvinnu við Hveragerðis- og Eyrarbakkaprestaköll; Í Egilsstaðakirkju kl. 20 og í Glerárkirkju á Akureyri einnig kl. 20.
Samverur þessar eru hugsaðar fyrir öll þau sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvíga. Allir eru velkomnir á viðburðina og er aðgangur ókeypis.
Dagskrá kyrrðarstundar í Dómkirkjunni þann 10. september kl.20:
Hrönn Harðardóttir geðhjúkrunarfræðingur leiðir stundina
Sr. Bjarni Karlsson flytur hugvekju
Bubbi Morthens syngur nokkur lög
Sara Óskarsdóttir, aðstandandi, segir frá reynslu sinni af því að missa móður sína í sjálfsvígi
Kveikt verður á kertum í minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi
Ólafur Elíasson organisti flytur hugljúfa tóna í upphafi og lok kyrrðarstundar.