„Saga Arnarins er sú að upphafskona verkefnisins, Heiðrún Jensdóttir, og Baldur Úlfarsson, eiginmaður hennar, misstu uppkominn son sinn árið 2014. Hann lét eftir sig 10 ára dóttur og Heiðrún og Baldur vildu gera allt sem þau gátu til þess að hjálpa henni í sorginni. Þau fundu fljótlega hina ýmsu hópa sem styðja foreldra í sorg en það var erfiðara að finna stuðning sem hentaði sonardótturinni. Eftir nokkra leit á netinu fann Heiðrún samtök í Bandaríkjunum sem héldu úti sumarbúðum fyrir börn í sorg. Hún fór þá til sr. Jónu Hrannar Bolladóttur, sóknarprests í Vídalínskirkju í Garðabæ, og saman ákváðu þær að fara af stað með svipað starf hér á landi. Vorið 2018 var farið með fyrsta hópinn upp í Vindáshlíð í Kjós yfir heila helgi, ásamt góðum hópi sjálfboðaliða. Starf Arnarins er rekið að mestu fyrir styrki og sjálfboðna vinnu en við eigum stóran hóp af fólki með ólíka menntun og reynslu, þar á meðal sálfræðinga, presta, námsráðgjafa, myndmenntakennara og fleiri sem kjósa að leggja Erninum lið,“ segir Matthildur.

Hún er með embættispróf í guðfræði, meistaragráðu í trúarbragðafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og diplómanám á meistarastigi í sálgæslu.

„Ég finn að námið mitt nýtist mér afskaplega vel í þessu starfi. Þar fyrir utan hef ég alla tíð unnið mikið með börnum og unglingum og nýt þess mjög. Ég fæ endalaus tækifæri til að leika mér í vinnunni og hálfvorkenni öðru fólki sem fer ekki reglulega út í eina krónu eða löggur og bófar. Það eru forréttindi að fá að starfa við eitthvað sem maður brennur fyrir svo ég er afskaplega þakklát að mér hafi verið treyst fyrir þessu dýrmæta verkefni,“ segir Matthildur.

Matthildur og Daði Guðjónson, eiginmaður hennar, eiga tvö börn, Ísak Bolla og Jónu Theresu. „Daði er kennari svo uppeldi og hagsmunir barna eru allt um lykjandi í okkar lífi," segir hún.

Örnin tekur flugið

Yfirleitt eru um 40 börn hjá Erninum í samverustund og upp undir fimmtíu koma með í ferðalögin.

„Við vitum samt að það er miklu stærri hópur sem verður fyrir ástvinamissi og þyrfti að vita af okkur. Núna stendur Örninn einmitt á tímamótum. Hingað til höfum við verið að móta starfið og farið fremur hægt af stað en við sjáum núna að það er eftirspurn eftir okkar þjónustu og ef að við ætlum að láta Örninn taka flugið þurfum við að spýta í lófana. Kórónuveirufaraldurinn setti auðvitað strik í reikninginn hjá okkur, eins og í öðru hópastarfi, en næsta vetur höfum við ákveðið að gera átak í því að kynna okkur og vera í betra samstarfi við aðrar stofnanir og hreyfingar, eins og kirkjur, sorgarmiðstöðina og heilsugæslur,“ segir Matthildur og minnir á vefsíðu Arnarins, arnarvaengir.is.

Hvenær er ráðlegt að hefja sorgarvinnu eftir missi?

„Krakkarnir mega koma til okkar um leið og þau langar en við mælum með að láta allavega einn til tvo mánuði líða frá missi. Fyrst eftir missi finna syrgjendur oft fyrir miklum doða sem getur varað jafnvel í nokkrar vikur og á þeim tíma gerir það lítið gagn að byrja að vinna í sorginni sinni. Þá skiptir máli að hvíla sig og vera mest með sínum ástvinum. En síðan er fólk svo mismunandi og við snúum engum við sem kemur. Stundum finnst krökkum gott að koma sem fyrst og finna að þau eru ekki ein í þeirri lífsreynslu að missa foreldri eða systkini. Sú tilfinning að finna fyrir samstöðu getur verið næg úrvinnsla til að byrja með,“ segir Matthildur.

Hún segir að það sé hægt að ná gríðarlegum bata eftir áföll og vinna þannig úr þeim að þau hamli manni ekki í lífinu.

„Auðvitað er það samt þannig að barn sem missir foreldri sitt eða systkini losar sig aldrei við sorgina sem því fylgir. Það er heldur ekkert markmiðið. Sorgin er hin hliðin á ástinni sem börnin bera til þess sem þau misstu og markmiðið með okkar starfi er að hjálpa krökkunum að finna sín verkfæri til þess að geta borið sorgina sína á fallegan hátt, gera hana aðeins léttari og mýkri. Sorg er ekki sjúkdómur sem þarf að losa sig við en ef það er ekkert unnið úr henni getur hún brotist út á hátt sem hefur skemmandi áhrif á lífið. Þannig sé ég starf Arnarins sem forvarnarstarf gegn óheilbrigðri sorgarúrvinnslu.“

Rætt um lífið og dauðann

Örninn er sjálfstætt félag innan Vídalínskirkju, en kirkjan hefur haldið utan um verkefnið með stjórninni með því að skapa umgjörðina með afnotum af húsnæði og greiða fyrir verkefnastjórnina. Það hefur verið ómetanlegt til þess að starfið hafi getað fest sig í sessi og þróast, þess vegna er Vídalínskirkja dýrmætasti bakhjarlinn, að sögn Matthildar.

„Starfið sjálft snýst þó ekki um nein ákveðin trúarbrögð. Innan hópsins rúmast allar mögulegar lífsskoðanir og vegna þess að þar er mikið rætt um lífið og dauðann eru hugmyndir um hvað taki við oft ofarlega á baugi. Það sem rak Heiðrúnu og Jónu Hrönn hins vegar af stað er þeirra kristna afstaða að við eigum að elska náungann og mæta öllum þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Þær fundu fyrir köllun til þess að búa til vettvang fyrir börn í sorg til þess að vinna úr sínum missi á heilbrigðan hátt. Þar fyrir utan nýtum við okkur hin ýmsu sálgæslufræði og styðjumst mikið við kenningar J. William Worden sem er mikill reynslubolti í sorgarúrvinnslu. Hann setti fram kenningu sem innihélt ákveðin verkefni sem syrgjendur þyrftu að vinna sig í gegnum og við höfum þessi verkefni til hliðsjónar í öllu okkar starfi,“ segir Matthildur.

Fetaði í fótspor foreldranna

Þegar talið berst að því hvers vegna Matthildur hafi ákveðið að leggja guðfræði fyrir sig kemur í ljós að margir prestar eru í hennar fjölskyldu.

„Ég ákvað á síðasta ári í menntaskóla að ég þyrfti að horfast í augu við þá staðreynd að mig langaði í guðfræði. Mér fannst það ekki mjög töff og sérstaklega ekki vegna þess að foreldrar mínir, Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson, eru prestar. Þar fyrir utan var afi og tvö systkini mömmu prestar svo það var sannarlega enginn prestaskortur í fjölskyldunni. Ætli flestir vilji ekki innst inni gera uppreisn gegn foreldrum sínum og það var alltaf planið að gera eitthvað allt annað en þau. Síðan togaði guðfræðin svo mikið í mig að ég hugsaði að ég gæti nú ekki látið einhverja svona þrjósku stýra mér. Ég er samt mjög ólík þeim og geri hlutina allt öðruvísi, bara svo því sé haldið til haga,“ segir Matthildur glettnislega að lokum.