Leikarahjónin Joaquin Phonix og Rooney Mara eignuðust sitt fyrsta barn á dögunum og hefur sonurinn verið nefndur River í höfuðið á bróður Joaquin, River Phoenix heitinum sem lést árið 1993.

Leikstjórinn Victor Kossakovsky tilkynnti gleðifréttirnar á kvikmyndahátíðinni í Zürich í gær eftir sýningu á svarthvítu heimildarmyndinni Gunda. Joaquin er einn framleiðanda myndarinnar en myndin fjallar um daglegt líf svíns og félaga þess á búgarðinum, tvær kýr og einfætta hænu.

Mikill harmleikur

River Phoenix lést árið 1993 aðeins 23 ára gamall eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum á skemmtistaðnum The Viper Room í Hollywood sem var í eigu Johnny Depp. River þótti einn efnilegasti leikari í heiminum á þessum tíma en hann lék meðal annars í kvikmyndunum Stand By Me og My Own Private Idaho. Joaquin var 19 ára gamall þegar bróðir hans lést.

River var leikari og tónlistarmaður og þótti mjög efnilegur.
Fréttblaðið/ Getty images.

Joaquin hlaut Óskarsverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir frammistöðu sína sem Jókerinn í samnefndri kvikmynd.

Joaquin og Rooney kynntust við tökur myndarinnar Her árið 2013 en þau hafa einnig leikið saman í kvikmyndunum Don’t Worry, He Won’t Get Far on Foot og Mary Magdalene. Joaquin hefur verið vegan frá því hann var þriggja ára gamall en hjónin eru áberandi baráttumenn fyrir réttindum dýra. Hann tileinkaði þeim málaflokki stóran hluta sigurræðu sinnar á Óskarsverðlaununum.