Sam­tök evrópskra sjón­varps­stöðva (EBU) hafa sent frá sér yfir­lýsingu varðandi meinta vímu­efna­notkun Damiano David, söngvara ítölsku hljóm­sveitarinnar Måneskin, á loka­kvöldi Euro­vision síðasta laugar­dag. Orð­rómar þess efnis að David hefði neytt vímu­efna í beinni sjón­varps­út­sendingu eftir að Måneskin unnu keppnina byrjuðu að breiðast um sam­fé­lags­miðla eftir að upp­taka fór í dreifingu þar sem hann sést beygja and­lit sitt yfir borð og vildu margir meina að svo virtist sem hann væri að neyta kókaíns.

Fals­fréttir skyggðu á and­rúms­loft keppninnar

Sam­tök evrópskra sjón­varps­stöðva þver­taka fyrir það að nokkur vímu­efnaneysla hafi farið fram á loka­kvöldi Euro­vision. Þau segjast hafa farið yfir málið frá öllum hliðum og segja David hafa gengist undir vímu­efna­próf af fúsum og frjálsum vilja sem skilað hafi nei­kvæðri niður­stöðu.

„Við erum uggandi yfir því að ó­ná­kvæmar get­gátur hafi leitt til þess að fals­fréttir skyggðu á and­rúms­loft og út­komu við­burðarins og hafi haft ó­sann­gjörn á­hrif á hljóm­sveitina,“ segir í yfir­lýsingu EBU sem taka fram að af þeirra hálfu sé málinu lokið.

„Við óskum Måneskin enn og aftur til hamingju með sigurinn og óskum þeim góðs gengis. Við hlökkum til að vinna með ítalska með­limi okkar Rai að því að setja á svið stór­feng­lega Söngva­keppni evrópskra sjón­varps­stöðva á Ítalíu á næsta ári,“ segir að lokum.