„Þetta er sumar­tón­listar­há­tíð en allir tón­leikarnir eru söng­tón­leikar,“ segir Guð­rún Ólafs­dóttir söng­kona um há­tíðarina sem hún stofnaði til á­samt eigin­manni sínum, Javi­er Já­uregui. Há­tíðin er nú haldin í sjötta sinn, hófst um miðjan mánuðinn og lýkur 10. júlí.

Á há­tíðinni er sungið án hljóð­mögnunar og þar má finna ljóða­söng, óperu­söng, kór­söng, ein­söng og sam­söng á borð við sam­söngs­at­riði úr óperum. Að sögn Guð­rúnar má finna gamla tón­list og nýja í Hafnar­borg. Meðal ný­metis má nefna frum­flutning á nýju tón­verki Kol­beins Bjarna­sonar við ljóð Steinunnar Sigurðar­dóttur, sem ber titilinn Ó ei­lífi foss sem rambar á foss­vegum guðs. Söng­konurnar Her­dís Anna Jónas­dóttir og Hildi­gunnur Einars­dóttir flytja verkið á­samt fjölda hljóð­færa­leikara, undir stjórn Guðna Franz­sonar.

Gestir frá Spáni

„Það er mikið af óperu­tón­list í ár. Þarna eru óperu-gala­tón­leikar og Mozart-tón­leikar með senum úr óperum. Þannig er ekki bara flutningur á einni aríu heldur eru heil sam­söngs­at­riði,“ segir Guð­rún. Hún bendir á að há­tíðin fljúgi ís­lensku at­vinnu­söng­fólki sér­stak­lega til landsins til að koma fram á há­tíðinni. Þá koma fram á loka­tón­leikum 10. júlí strengja­leikarar úr Sin­fóníu­hljóm­sveit Spánar.

„Hug­myndin með há­tíðinni er að bjóða ekki að­eins upp á tón­leika. Við bjóðum líka upp á nám­skeið fyrir nem­endur frá sex mánaða aldri,“ segir Guð­rún og bætir við að elsti nemandinn á söng­nám­skeiðum á vegum há­tíðarinnar sé á átt­ræðis­aldri. Söng­konan Diddú er þá einnig með „masterclass“ fyrir at­vinnu­söngvara.

Gerir mann glaðari að syngja

Guð­rún bendir á að mark­miðið sé að bjóða upp á söng­tón­list í fyrsta flokks flutningi og á sumum tón­leikanna geti á­horf­endur tekið virkan þátt. Hún segir að þannig skapi há­tíðin vett­vang fyrir gesti til að njóta tón­listarinnar sem hlust­endur, en einnig geti þau þroskað sig sjálf sem söngvara.

„Það hafa verið gerðar ýmsar rann­sóknir sem sýna að þegar maður syngur fram­leiðir heilinn endorfín sem veita á­nægju. Það getur gert mann glaðari að syngja.“

Vilja virkja fleiri hlust­endur

Að­spurð um hvort há­tíðin sé að­gengi­leg þeim sem ekki eru sér­fróðir um klassíska tón­list, svarar Guð­rún: „Helsti munurinn á klassískum söng eða popp­söng er að klassískur söngur er yfir­leitt sunginn án hljóð­mögnunar og þess vegna er radd­beitingin önnur. Margir eru ekki vanir að hlusta mikið á þá radd­beitingu vegna þess að hún heyrist ekki mikið á miðlunum, nema kannski á Rás 1. Við myndum vilja fá fleiri til að hlusta,“ segir Guð­rún og bendir á YouTu­be-rás há­tíðarinnar þar sem má nálgast upp­tökur af völdum flutningi á há­tíðinni.

„Það hefur fengið mikið á­horf og svo erum við líka með við­töl þar inni við söngvara um radd­tækni og söng,“ segir hún.

„En varðandi að opna klassíkina meira fyrir öðrum á­horf­enda­hópi, þá er hug­myndin með fjöl­skyldu­tón­leikunum að fjöl­skyldur fái tæki­færi til að koma á tón­leika þar sem at­vinnu­söngvarar eru að koma fram, en á að­gengi­legri hátt á stuttum tón­leikum,“ segir Guð­rún. Þá séu yngstu söng­nem­endurnir að koma fram á tón­leikum með at­vinnu­söngvurum í at­vinnu­manna­sam­hengi. Upp­lýsingar um dag­skrá há­tíðarinnar má finna á vefnum www.son­g­hatid.com.

Auk tón­leika­halds er boðið upp á söng­nám­skeið fyrir nem­endur á ýmsum stigum og á öllum aldri.
Mynd/Sigtryggur Ari