„Þetta er sumartónlistarhátíð en allir tónleikarnir eru söngtónleikar,“ segir Guðrún Ólafsdóttir söngkona um hátíðarina sem hún stofnaði til ásamt eiginmanni sínum, Javier Jáuregui. Hátíðin er nú haldin í sjötta sinn, hófst um miðjan mánuðinn og lýkur 10. júlí.
Á hátíðinni er sungið án hljóðmögnunar og þar má finna ljóðasöng, óperusöng, kórsöng, einsöng og samsöng á borð við samsöngsatriði úr óperum. Að sögn Guðrúnar má finna gamla tónlist og nýja í Hafnarborg. Meðal nýmetis má nefna frumflutning á nýju tónverki Kolbeins Bjarnasonar við ljóð Steinunnar Sigurðardóttur, sem ber titilinn Ó eilífi foss sem rambar á fossvegum guðs. Söngkonurnar Herdís Anna Jónasdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir flytja verkið ásamt fjölda hljóðfæraleikara, undir stjórn Guðna Franzsonar.
Gestir frá Spáni
„Það er mikið af óperutónlist í ár. Þarna eru óperu-galatónleikar og Mozart-tónleikar með senum úr óperum. Þannig er ekki bara flutningur á einni aríu heldur eru heil samsöngsatriði,“ segir Guðrún. Hún bendir á að hátíðin fljúgi íslensku atvinnusöngfólki sérstaklega til landsins til að koma fram á hátíðinni. Þá koma fram á lokatónleikum 10. júlí strengjaleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Spánar.
„Hugmyndin með hátíðinni er að bjóða ekki aðeins upp á tónleika. Við bjóðum líka upp á námskeið fyrir nemendur frá sex mánaða aldri,“ segir Guðrún og bætir við að elsti nemandinn á söngnámskeiðum á vegum hátíðarinnar sé á áttræðisaldri. Söngkonan Diddú er þá einnig með „masterclass“ fyrir atvinnusöngvara.
Gerir mann glaðari að syngja
Guðrún bendir á að markmiðið sé að bjóða upp á söngtónlist í fyrsta flokks flutningi og á sumum tónleikanna geti áhorfendur tekið virkan þátt. Hún segir að þannig skapi hátíðin vettvang fyrir gesti til að njóta tónlistarinnar sem hlustendur, en einnig geti þau þroskað sig sjálf sem söngvara.
„Það hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir sem sýna að þegar maður syngur framleiðir heilinn endorfín sem veita ánægju. Það getur gert mann glaðari að syngja.“
Vilja virkja fleiri hlustendur
Aðspurð um hvort hátíðin sé aðgengileg þeim sem ekki eru sérfróðir um klassíska tónlist, svarar Guðrún: „Helsti munurinn á klassískum söng eða poppsöng er að klassískur söngur er yfirleitt sunginn án hljóðmögnunar og þess vegna er raddbeitingin önnur. Margir eru ekki vanir að hlusta mikið á þá raddbeitingu vegna þess að hún heyrist ekki mikið á miðlunum, nema kannski á Rás 1. Við myndum vilja fá fleiri til að hlusta,“ segir Guðrún og bendir á YouTube-rás hátíðarinnar þar sem má nálgast upptökur af völdum flutningi á hátíðinni.
„Það hefur fengið mikið áhorf og svo erum við líka með viðtöl þar inni við söngvara um raddtækni og söng,“ segir hún.
„En varðandi að opna klassíkina meira fyrir öðrum áhorfendahópi, þá er hugmyndin með fjölskyldutónleikunum að fjölskyldur fái tækifæri til að koma á tónleika þar sem atvinnusöngvarar eru að koma fram, en á aðgengilegri hátt á stuttum tónleikum,“ segir Guðrún. Þá séu yngstu söngnemendurnir að koma fram á tónleikum með atvinnusöngvurum í atvinnumannasamhengi. Upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á vefnum www.songhatid.com.
