Kólumbíska Popp­stjarnan Shakira varð fyrir árás tveggja villi­svína í gær er hún var í al­mennings­garði í Barcelona, á­samt átta ára gömlu syni sínum. Hún segir að dýrin hafi ráðist á sig, tekið tösku hennar og síðan látið sig hverfa inn í skóg í garðinum.

Villisvín eru skaðræðisgripir.
Fréttablaðið/EPA

Söng­konan greindi frá at­vikinu á Insta­gram. Þar sýndi hún illa farna töskuna og sagði: „Sjáið hvernig tvö villi­svín sem réðust á mig í garðinum fóru með veskið mitt.“

„Þau voru á leið í skóginn með töskuna mína með far­símanum mínum. Þau hafa eyði­lagt allt,“ sagði söng­konan. Í mynd­skeiðinu sést hún þá snúa sér að syni sínum Milan, sem hún á með fót­bolta­manninum Gerard Piqu­é, og sagði: „Milan segðu sann­leikann. Segðu frá því hvernig mamma þín bauð villi­svínunum birginn.“

Shakira og Milan árið 2014.
Fréttablaðið/EPA

Ekki kom fram í máli hennar að hún eða sonur hennar hefðu særst en villi­­svín geta borið fjöldann allan af sjúk­­dómum.

Shakira er nýjasta, og senni­lega frægasta, fórnar­lamb á­rásar­gjarnra villi­svína sem herjað hafa á íbúa Barcelona á undan­förnum árum. Þau hafa ráðist gegn dýrum, stöðvað um­ferð og hlaupið á bíla í borginni. Árið 2013 reyndi lög­reglu­maður að stöðva eitt slíkt og skaut á það en hitti sam­starfs­fé­laga sinn.

Hjónin Gerard Piqu­é og Shakira.
Fréttablaðið/EPA