Best of My Days, nýjasta lag og tónlistarmyndband rokkhljómsveitarinnar Hylur fjallar um hið alræmda vandamál að brenna út í starfi og er textinn innblásinn af atburðum í lífi söngvarans Hlöðvers Smára.

„Ég var að vinna sem kokkur ógeðslega lengi og ég fékk algjört ógeð á því og leið svona eins og fyrst maður væri byrjaður að vinna við þetta þá ætti maður ekkert að breyta til. Ég var farinn að sjá fyrir mér að maður yrði bara einhver svona stimpilklukkukall,“ segir Hlöðver.

Hann hætti blessunarlega og hellti sér á fullt í tónlistina, en auk þess að vera söngvari og gítarleikari Hyls stundar Hlöðver nám við Tónlistarskóla FÍH.

„Ég hefði örugglega ekkert fattað að taka skrefið og hætta þessu ef Covid hefði ekki komið. Það kom svona smá pása og þá sá maður allt í nýju ljósi.“

Nýja lagið er það fjórða og seinasta af smáskífunni 9:30 sem hefur verið gefin út jafnt og þétt undanfarið ár. Fyrri lög plötunnar hafa öll náð góðum árangri á X-inu 977 og setið samtals í rúmar 22 vikur á vinsældalista. Hylur var auk þess tilnefndur í tveimur flokkum á Hlustendaverðlaununum 2022, sem rokkflytjandi ársins og nýliði ársins.

Að sögn Friðriks Arnar, bassaleikara, er lagið fyrsta tilraun Hyls til að prófa sig áfram með rokkballöðuna.

„Við vorum búnir að sitja mjög lengi á þessari hugmynd. Konseptið er smá grillað, þannig við vorum innst inni alltaf að bíða eftir að einhver myndi stoppa okkur af og segja okkur að þetta meiki ekki sens. Það gerðist hins vegar aldrei, svo þetta er útkoman,“ segir hann.

Ýmislegt er á döfinni hjá strákunum í Hyl í sumar en þeir vinna nú að smíðum sinnar fyrstu breiðskífu og hyggjast senda frá sér fyrsta lagið af henni í haust. Þá munu þeir koma fram á rokkhátíðinni Eistnaflugi í júlí.