Miklar vendingar hafa verið í kjaradeilum í dag en Félagsdómur staðfesti um eftirmiðdaginn að verkfallsboðun Eflingar hafi verið lögleg.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði það vera vonbrigði ef það muni koma til verkfalla en geri ráð fyrir að þau verði skammvinn. Hann sagði þá einnig að aðalatriðið hafi verið að héraðsdómur hafi gert Eflingu að afhenda atkvæðaskrá sína.

Sólveig Anna svarar Halldóri Benjamín á einkar skemmtilegan hátt á Facebook-síðu sinni. Þar höfðar hún til áhuga Halldórs á Hringadróttinssögu þar sem hún vitnar í álfaprinsessuna Arwen:

„Ef þú vilt það, komdu og sæktu það!“ segir Sólveig og lætur auðvitað setninguna fylgja á frummálinu:

„Nîn o Chithaeglir lasto beth daer; rimmo nín Bruinen dan in Ulaer!“

Mun þetta líklega vera í fyrsta skipti sem álfamál er notað í íslenskri kjarabaráttu.