Hafnarfjarðarbær fagnaði í dag opnun á glænýjum hænsnakofa sem staðsettur er við hjúkrunarheimilið Sólvang og fengu fjórir nýir íbúar hans glæsilegar móttökur.

Það voru hollvinasamtök Sólvangs sem færðu heimilinu hænurnar fjórar að gjöf en þær eru hugsaðar sem yndisauki fyrir íbúa, dagdvalargesti, starfsfólk, aðstandendur og aðra sem leggja leið sína að hjúkrunarheimilinu.

Rósa Guðbjartsdóttir og Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns voru viðstaddar við opnum hænsnakofans en taka skal fram að báðar eru þær hænueigendur og eru því vel kunnugar þeirri gleði sem dýrin veita, bæði ungum sem öldnum.

Breiður aldurshópur fagnaði komu hænanna. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns ásamt starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar og Sóltúns og börnum frá leikskólanum Hörðuvöllum.
Mynd/Hafnarfjarðarbær

Hænsnakofinn er staðsettur í garði Sólvangs en garðurinn hefur verið endurgerður með þarfir aldraðra og heilabilaðra í huga. Stendur hann í fallegu bæjarstæði með útsýni yfir Hamarskotslæk sem rennur í átt til sjávar.

Það kemur svo í hlut dagdvalargesta að sjá um hænurnar enda er ummönnum dýra nokkuð sem felur í sér góða iðjuþjálfun. Þá verða hænurnar einnig til þess að leiða kynslóðir saman en nemendur í leikskólum og grunnskólum í næsta nágrenni er velkomið að koma og hitta hænurnar sem og eigendur þeirra.

Sólvangur hýsir í dag 71 hjúkrunarrými í tveimur húsum, 60 rými í nýju húsi sem opnað var formlega sumarið 2019 og 11 rými á 2. hæð gamla Sólvangs eftir að húsið gekk í gegnum endurnýjun lífdaga.

Þessi 11 rými voru tekin í notkun nú í haust. Gamli Sólvangur hýsir í dag, til viðbótar við hjúkrunarrýmin ellefu, 12 sérhæfð dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun opnuð í júlí 2019, 14 dagþjálfunarrými sem opnuð voru í október 2021 eftir gagngerar endurbætur á jarðhæð og 39 ný rými fyrir endurhæfingu opnuð haustið 2022.

Þjónustan sem opnuð var í haust felur að sögn Hafnarfjarðarbæjar í sér nýja nálgun í stuðningi við eldra fólk, sem njóta heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og hefur það að markmiði, líkt og önnur fyrirbyggjandi þjónusta á Sólvangi, að aðstoða og efla eldra fólk til að dvelja lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði.