„Ég var eiginlega bara orðin pínu ónæm fyrir því hvað þetta hafði mikil áhrif á mig. Mig langaði bara aðeins að anda djúpt og setja fókusinn á annað í lífinu,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir. Hún hefur undanfarin tvö ár haldið utan um Instagram-síðuna „Fávitar“, verkefni sem vakið hefur mikla athygli, en hún tilkynnti í gær að hún hygðist taka sér pásu frá því.

Á síðunni eru birtar myndir og skjáskot af kynferðislegri áreitni, einkum karlmanna eða í garð kvenna. Áreitnin birtist með ýmsum hætti, til dæmis í formi sendinga typpamynda eða niðrandi og ógeðfelldra skilaboða. Dæmi eru um að þeir sem verði fyrir áreitninni séu á barnsaldri.

Sjá einnig: Safnar skjá­skotum af á­reitni: „Er með drep í typpinu“

Tæplega 20 þúsund manns fylgja síðunni þar sem birtar hafa verið yfir 500 myndir af samskiptum „fávita“ við fólk.

Sól­borg segir í sam­tali við Frétta­blaðið að pásan sé tíma­bundin hið minnsta. Hún kveðst ekki hafa hugsað mjög mikið út í hvað hún var að fara þegar hún fór af stað með síðuna. Á­kveðnum árangri hafi hins vegar verið náð — að vekja um­hugsun og um­tal um kyn­ferðis­lega á­reitni sem við­gengst í sam­fé­laginu öllu. 

„Ég treysti á að þið hin takið slaginn fyrir okkur á meðan. Ég kem aftur einn daginn,“ segir hún og bendir á önnur verk­efni sem gert hafa vel í að vekja at­hygli á mála­flokknum, til að mynda „Karl­mennskuna“, sem Þor­steinn V. Einars­son fer fyrir.

View this post on Instagram

❤️

A post shared by Fávitar (@favitar) on