Sólborg Guðbrandsdóttir vakti landsathygli fyrir fimm árum þegar hún stofnaði Instagram-síðuna Fávitar, þar sem markmiðið var að varpa ljósi á ósæmilegar skeytasendingar ókunnugra karlmanna til kvenna á samfélagsmiðlum.Sólborg segir margt hafa breyst á þessum árum.

„Almennt séð finnst mér umræðan og vitundarvakningin um kynferðisofbeldi og ofbeldi á netinu vera meiri. Það virðist þó vera mjög langt í land og breytingarnar gerast hægt. Við þurfum að koma kennslunni um kynheilbrigði og heilbrigð samskipti almennilega að í skólakerfinu okkar, og þá er ég viss um að margt muni breytast til hins betra á næstu árum og áratugum.“

Kerfisbundið ofbeldi

Sólborg segist sjálf hafa lært margt á þessum árum og skilji nú betur að ofbeldi sé kerfis- og menningarbundið vandamál.

„Við þurfum að skoða og reyna að skilja hvað það er sem fær fólk til að beita hvert annað ofbeldi og hvers vegna því fylgja ekki meiri afleiðingar og úrræði.

Ég hef líka lært það að vilji maður sjá breytingar þá verði maður sjálfur að vera breytingin. Þess vegna er ég enn að. Baráttan gegn ofbeldi skiptir gríðarlegu máli fyrir allt samfélagið,“ segir Sólborg.

Sólborg svarar ýmsum spurningum sem brenna á unglingum í bókinni.

Samskipti og sjálfsþekking

Sólborg svarar vangaveltum unglinga um samskipti kynjanna í nýju Fávitabókinni. „Fyrri bókin var samansafn af kynfræðslutengdum spurningum sem ég hafði fengið sendar til mín á samfélagsmiðlum og á fyrirlestrum.

Þessi bók fjallar að mestu leyti um samskipti og sjálfsþekkingu og í henni svara ég vangaveltum unglinga um samskipti kynjanna: viðreynslu, kynlíf, sambönd og sjálfsöryggi og reyni að leggja áherslu á að efla sjálfsmynd þeirra og öryggi í samskiptum.“

Saknar ekki Instagramsins

Sólborg segir að vinnan við Aðeins færri fávita hafi verið bæði skemmtileg og krefjandi. „Þetta tók lengri tíma en með þá fyrri. Mér finnst samt ekki lýjandi að fræða. Fræðslan er jákvæða og hvetjandi hliðin á teningnum og hún dregur úr ofbeldi,“ segir Sólborg og bætir við að hins vegar hafi henni þótt erfitt að halda Instagram-síðunni úti.

„Þar var ég í stöðugum rökræðum við fólk og tók á móti ógrynni sagna af kynferðisofbeldi. Ég lokaði á það eftir fimm ár þegar ég gat hreinlega ekki meira og fann út úr því hvað ég gæti þá gert í staðinn.“Sólborg segir aðspurð að mikill áhugi sé á fræðslu sem þessari, hvort sem hann tengist bókunum hennar eða öðru.

„Á hverju ári verða börn að unglingum og þau hafa svipaðar vangaveltur um þessa hluti og þau sem á undan komu.Við erum aldrei búin að fræða.

Heimurinn og samfélagið er stöðugt að þróast og við þurfum að hafa okkur öll við svo okkur takist að fylgja með. Bækurnar eru góð leið til að opna á umræður um þessi málefni heima fyrir og ég er viss um að þær svara mörgum spurningum unga fólksins okkar.“

Sólborg segir fræðsluna alls ekki lýjandi.