Rithöfundurinn Árni Árnason sagði skilið við farsælan feril í auglýsingabransanum til að elta drauminn og gaf út sína fyrstu bók, barnabókina Friðbergur forseti, fyrir jólin í fyrra. Bókinni var gífurlega vel tekið og komst efst á metsölulista í flokki barnabóka. Nú er komið sjálfstætt framhald og fjallar bókin líka um systkinin Sóleyju og Ara sem lenda í ýmsum ævintýrum í bókinni Háspenna, lífshætta á Spáni.

„Nú eru þau stödd í fríi á Spáni með mömmu sinni og pabba, langþráðu fríi eftir annasaman vetur og baráttuna við Friðberg. Það fer þó dálítið öðruvísi en planið var. Það má segja að ævintýrin elti systkinin. Þau rekast á volduga menn á Spáni sem ættu ekki að vera þar heldur allt annars staðar og þeir hafa margt misgott í hyggju,“ segir Árni um nýju bókina.

Ómetanlegt að lesa saman

Háspenna, lífshætta á Spáni er skrifuð með hjálp dóttur Árna, Helenu, eins og fyrri bókin.

„Það var sérstök ósk frá henni að sögusviðið væri á Spáni. Á endanum var það mjög skemmtilegt, því einstaklega fáir hafa komist til sólarlanda undanfarið. Þannig að ég gerði dálítið mikið í því að glæða þessa sólarlandastemningu lífi. Ef fólk er með mikla sólarlandaþrá þá fá lesendur klárlega smá skammt í bókinni, það eru vatnsrennibrautagarðar og hún gefur manni örlitla sól í lífið svona í skammdeginu,“ segir Árni.

Árni leggur mikið upp úr því við skriftirnar að efnið sé ekki síður skemmtilegt fyrir hina fullorðnu.

„Ég vil að fólki finnist gaman að lesa bókina með börnunum sínum. Í mínum huga eru þetta þær mestu gæðastundir sem til eru, að lesa með börnunum sínum. Það er svona það sem upphaflega fékk mig til að skrifa þessar barnabækur. Í uppeldinu, og þá sérstaklega hjá yngstu dóttur minni, þá lesum við mjög mikið saman. Þegar maður lítur til baka á þessar stundir þá fær maður alveg ótrúlega mikið út úr þeim. Þess vegna langaði mig að búa til efni sem myndi henta í svona gæðastundir,“ segir Árni, sem segist nú þegar vera kominn með ýmsar skemmtilegar hugmyndir fyrir næstu bók.

Hugsað í lausnum

Hann er nú á fullu að fylgja nýju bókinni eftir, eftir besta megni í ljósi flókinna aðstæðna vegna heimsfaraldursins. Árni dó ekki ráðalaus og reyndi að finna frumlega lausn á vandanum.

„Ég get náttúrulega ekki fylgt henni eftir með upplestrum í grunnskólum vegna aðstæðna. Ég áttaði mig á því seinni part sumars og lagði því hausinn í bleyti. Í fyrra fór ég í hátt í fjörutíu skóla. Ég ákvað að skrifa upp handrit að einum spennandi kafla, til að gefa smá tilfinningu fyrir efninu og sýnishorn, hverju lesendur mega eiga von á. Þetta er því nokkurn veginn eins og útvarpsleikrit og fékk alveg frábæra leikara í hlutverkin, þar á meðal Ingvar E. Sigurðsson sem leikur bæði vonda og góða karlinn,“ segir hann.

Upplestrinum dreifir Árni til skólans og allra sem vilja, og vonar hann að sem flestir kynni sér kaflann.

„Ég er búinn að draga saman nokkrar hugmyndir að verkefnum sem bekkir geta leyst við kaflann. Vonandi verður því vel tekið.“

Ástandið krefjandi

Þrátt fyrir að fá aukinn tíma við skriftir í ljósi faraldursins, segir Árni að það hafi fyrst um sinn haft áhrif á sköpunargleðina að upplifa þessa fordæmalausu tíma.

„Ég tengi frekar við það að þegar þetta var að byrja hafi eiginlega verið erfiðara að skrifa. Það er kannski þetta umrót sem í raun allir lentu í, þessar skrýtnu aðstæður og öll þessi óvissa, hún setti mann svolítið upp í loft, ef það er hægt að komast þannig að orði. Sérstaklega þegar þetta skall á fyrst. Þetta er aðeins öðruvísi núna, maður veit betur við hvað verið er að eiga. Fyrst um sinn festist maður svolítið í því að fylgjast með fréttum og hugsa um hvað væri að gerast. Það hafði alveg áhrif á einbeitinguna og það var erfiðara að vera skapandi, maður þarf virkilegan fókus og orku til þess,“ segir hann.

Það er spennandi að sjá hvort heimsfaraldurinn muni hafa áhrif á bóksöluna nú fyrir jólin.

„Vonandi gengur vel. Ég fékk góð viðbrögð síðast og vonandi verður það eins núna. Vonandi verður bóksala betri en nokkurn tímann. Börn eiga að lesa og við eigum að lesa með börnum.“

Háspenna, lífshætta á Spáni fæst í öllum helstu bókabúðum.