Þær Hildur Karen Aðalsteinsdóttir og Margrét Þóra Jónsdóttir, eða Gréta eins og hún er alltaf kölluð, starfa í Fjölbrautaskóla Vesturlands, FVA. Hildur Karen er menntaður íþrótta- og grunnskólakennari og Gréta er næringarfræðingur sem hefur kennt í skólanum um árabil ásamt því að sinna eigin rekstri.

Sjóuð í sundi og floti

Hildur Karen býr yfir umfangsmikilli reynslu í öllu sem við kemur sundi. „Ég er með a-, b- og c-stig í sundþjálfun auk þess að hafa starfað sem ungbarnasundkennari í rúm 20 ár. Ég hef einnig verið með sundnámskeið fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára og kenni fullorðnum skriðsund nokkuð reglulega. Svo er ég líka með sterka tengingu við ÍA,“ segir Hildur og þá greinir Gréta frá því að Hildur hafi um skeið verið framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness.

Hildur hóf störf í FVA síðasta haust og segir hugmyndina að áfanganum hafa kviknað eftir að kennararnir voru beðnir um að koma með hugmyndir að valáfanga. „Ég hugsaði með mér: Hvað get ég boðið upp á? Hvað hef ég fram að færa sem hefur kannski ekki verið boðið upp á áður? Og ég bar þessa hugmynd undir skólastjórnendur sem tóku mjög vel í hugmyndina og voru algjörlega til í að prófa. Það skiptir svo miklu máli að hafa stuðning og það var ákveðið að kýla á þetta.“

„Ég hef unnið mikið í kringum vatn og með fólki í vatni þannig að þetta lá svona beinast við. Ég var svo heppin að kynnast Unni Valdísi Kristjánsdóttur hönnuði Flothettu og hef verið með í því frábæra flotsamfélagi sem hefur byggst upp í kringum hana. Síðan er ég með flottíma fyrir almenning hér í Bjarnarlaug,“ segir Hildur. „Hún er flotkennari Skagans,“ bætir Gréta við brosandi.

Hildur Karen í Bjarnarlaug ásamt nemanda sínum en áfanginn hennar hefur slegið rækilega í gegn. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Vin frá sítengdri tilveru

Tímarnir hjá Hildi fara fram í Bjarnarlaug en lýsingar á tímanum hljóma ekki eins og eitthvað sem tengist, í það minnsta dæmigerðum, hugmyndum um skóla.

„Þegar þú kemur inn er slökunartónlist og búið er að kveikja á kertum sem eru með fram bakkanum. Nemendur tínast ofan í hægt og rólega og við byrjum tímana á að gera teygjur og öndunaræfingar, róa hugann og ná góðri slökun. Nemendurnir halla sér aftur með flotbúnað, þau sem vilja fá teppi eða augnhvílu. Flotið er um í lauginni sem er um 35 gráðu heit, í svona 50 mínútur. Ég fer á milli þeirra, býð þeim slökunarnudd og beiti ákveðinni vatnsmeðhöndlun til að hjálpa þeim að ná djúpslökun,“ útskýrir Hildur en það er ekki laust við að blaðakona fyllist dálítilli öfund í garð nemenda Hildar.

„Hildur Karen er líka með svo einstaka nærveru sem hjálpar henni pottþétt með þennan áfanga því hún kemur mjög nálægt þeim, er ofan í með þeim og nuddar þau,“ bætir Gréta við.

Hildur segir áfangann hafa fengið frábærar viðtökur nemenda sem segjast sofa betur auk þess sem mætingin er góð sem segi sína sögu. Ljóst er að flot felur í sér margþættan ávinning sem hentar sérstaklega ungmennum samtímans.

„Flot er mjög langt frá því stöðuga áreiti sem nemendur eru undir í sítengdri tilveru og þarna gefst þeim klukkutími án alls áreitis. Flot í þyngdarleysi í heitri sundlaug er einstök leið til að losa spennu úr líkama og sál og skapar aðstæður fyrir djúpslökun sem getur meðal annars minnkað streitu, aukið sköpun, bætt einbeitingu og aukið svefngæði. Síðan er sjósundið inni í þessum áfanga, við förum í það þegar það fer að vora og hlýna aðeins í veðri.“

Hildur Karen í lauginni en Gréta segir hana hafa einstaka nærveru sem hjálpar nemendum hennar að slaka enn betur á.

Heilsuefling á marga vegu

Gréta er næringarfræðingur, kennir og er verkefnastjóri í heilsueflingarteymi skólans auk þess sem hún er í hlutastarfi á heilsugæslunni á Akranesi. Þá rekur hún sitt eigið fyrirtæki ásamt systur sinni sem er einnig næringarfræðingur en fyrirtækið heitir hinu ákaflega viðeigandi nafni 100 g.

„Ég er búin að vera hérna í fjölbraut meira og minna síðan 2011 með tveimur fæðingarorlofum. Ég kenndi líffræði og næringarfræði en er núna bara að kenna næringarfræði og er með tvo áfanga. Síðan er ég verkefnastjóri í heilsueflingarteyminu með frábæru fólki, bæði starfsfólki og nemendum þar sem unnið er að heilsueflingu nemenda og starfsfólks í víðu samhengi,“ segir Gréta og skýrir frá því að rauði þráðurinn í öllu starfi teymisins sé alltaf fyrst og fremst jákvæð nálgun á heilsu.

„Ég var svo heppin að fá að koma inn í teymið með Grétu og félögum og þetta er alveg rosalega metnaðarfullt starf sem fer þarna fram,“ skýtur Hildur inn í og staðfestir þar með jákvæðu nálgunina.

Gréta segir þau fara ýmsar leiðir að því að efla heilsu nemenda og starfsfólks. „Skólinn hefur frá árinu 2011 verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem er á vegum Landlæknisembættis. Embættið hefur sett saman stóra gátlista þar sem komið er inn á mismunandi þætti heilsu og við erum að vinna út frá þessum listum og heimfæra það yfir á það sem við getum gert hér í skólanum. Meðal þess sem við höfum gert er að taka orkudrykki úr sölu í mötuneytinu, bjóða upp á hafragraut á morgnana að kostnaðarlausu, hafa salatbar í hádeginu og svo erum við með sérstaka heilsuviku og tökum þátt í íþróttaviku ÍSÍ. Þess utan er líka starfandi geðhjúkrunarfræðingur og forvarnarfulltrúi í skólanum.“

Starfsfólk skólans er ekki undanskilið en meðal þess sem því stendur til boða eru mánaðarlegar starfsmannagöngur ásamt fleiri skemmtilegum viðburðum en Gréta og Hildur segja mikla eftirvæntingu ríkja eftir starfsmannaferð skólans á Hornstrandir í byrjun ágúst.

Gréta og Hildur Karen segja mikilvægt að nálgast heilsueflingu á jákvæðan hátt.

Sólarlönd og kolefnisjöfnun

Teymið stendur þá fyrir reglulegum verkefnum og viðburðum í skólanum þar sem blandað er saman ólíkum þáttum heilsu og þeir jafnvel tengdir við önnur mikilvæg málefni eins og umhverfisvernd líkt og gert var nýverið.

„Nýjasta verkefnið sem var í gangi var „Göngum til góðs til Tene“ sem var að ljúka í síðustu viku. Við komumst náttúrulega ekki til Tenerife út af svolitlu en við ákváðum að fara af stað með verkefni sem byrjaði 15. janúar þar sem markmiðið var að ganga, hlaupa, hjóla og synda samtals 4.000 km sem jafngildir vegalengdinni frá Akranesi til Tenerife. Auk þess var áheitum safnað þar sem ímyndaðar „flugferðir“ voru kolefnisjafnaðar og runnu áheitin til Skógræktarfélags Akraness en það er líka gaman að segja frá því að skólinn er Grænfánaskóli.“

Heilsueflingin teygir anga sína víðar á Skaganum en Gréta segir Akranes enn fremur vera heilsueflandi samfélag. Það rími vel við áherslur skólans auk þess sem íþrótta- og lýðheilsustarf hafi lengi verið áberandi á Akranesi. Staðsetningin er ekki síður tilvalin þegar sjósundið tekur við af flotinu í áfanganum sem Hildur kennir en hún segir að þau muni heldur betur koma til með að nýta sér hana þegar sól hækkar á lofti.

„Það er auðvitað löng hefð fyrir sjóböðum hér á Skaganum og ég tala nú ekki um þegar Guðlaug kom sem er náttúrulaug við Langasand. Við munum að sjálfsögðu tengja okkur við hana og þannig nýtum við okkur þetta dásamlega svæði sem við höfum hérna.“