Áttundi og síðasti þáttur Ófærðar 3 var sýndur á RÚV á sunnudagskvöld en merkilega hljótt var um endalokin og hefur reyndar verið um seríuna alla á samfélagsmiðlum miðað við athyglina og áhugann sem fyrri þáttaraðirnar tvær fengu á Facebook og Twitter 2015 og 2018.

Gísli Ásgeirsson þýðandi er einn þeirra sem hafa þó staðið vaktina á Facebook síðustu átta sunnudagskvöld og er vægast sagt óhress með hvernig til tókst í þessum þriðja kafla í starfssögu lögreglumannsins Andra, sem Ólafur Darri Ólafsson leikur.

Þriggja líka þættir

„Þetta er íslenskt efni og Íslendingum hættir til að tala aldrei illa um það sem á helst að selja útlendingum og útlendingar eiga að halda að sé gott. Ýmislegt, sem ekki er gott, hefur verið sett á markaðinn undir merkjum Nordic Noir og þessi Ófærðarsería, hún var svo leiðinleg á köflum að ég hefði tekið Barnaby fram yfir hana,“ segir Gísli og rennir sér í samanburð á ensku glæpaþáttunum Midsomer Murders og Ófærð.


„Það gerist þó eitthvað í Barnaby. Það er þokkalega hröð atburðarás og það eru þrjú lík og einu líkindi Ófærðar og Barnaby eru jú að það eru þrjú lík í báðum seríunum,“ heldur Gísli áfram hlæjandi.

Danskir djöflar

„Þetta var bara dapurlegt. Að horfa á sex þætti þar sem einhverjir þungbúnir vélhjólamenn húktu inni í húsi dag eftir dag eftir dag í góða veðrinu og voru aðallega að horfa hver á annan. Frekar illilegir í framan og svo drukku þeir bjór á kvöldin.

Þetta var einhvern veginn svo fáránleg iðja um hásumar á Íslandi, að sitja í sjóðheitum leðurjökkunum sínum inni í einhverjum steinsteypukumbalda og reyna að virka hættulegur á svipinn. Það vita þeir sem eiga leðurjakka að þeir eru ekki góð flík að sumarlagi.“

Gísli segir biðina eftir því að eitthvað færi að gerast í fyrstu sex þáttunum hafi tekið á þangað til höfuðpaur danska mótorhjólagengisins var færður í járn. „Og svo var danska klíkan bara afgreidd á aðeins tíu mínútum. Maðurinn handtekinn og eitt það tilgerðarlegasta er nafnið á honum.

Hann var kallaður Danish Hopper. Mig rámar í einhvern leikara sem er kannski hægt að tengja við en brandarinn var svo lélegur að maður hætti strax að hlæja.“

Ófær söguþráður

Gísli bætir við að honum hafi þótt illa farið með söguþráðinn í þáttunum og sama megi segja um samtölin. „Það var greinilegt að þetta var skrifað á ensku og síðan „gúgg­úl transleitað“ öðru hverju. Þetta var allt of enskuskotið orðalag og hljómaði ekki vel.

Þegar spenna í framvindu er annars vegar telur Gísli vænlegra að veðja á gamla jaxlinn Barnaby sem hefur leyst Miðsumarsmorðin.
Fréttablaðið/Getty

Ef Sigurjón Kjartansson hefði komið nálægt handritinu þá hefði þetta verið miklu betra. Hann er ágætis íslenskumaður, held ég. Þá hefði þetta hljómað eins og góð íslenska sem rennur vel. En þetta var svo tilgerðarlegt að hlusta á þetta. Nógu tilgerðarlegt er að lesa „gúgg­úl transleit“ fréttir ákveðinna fjölmiðla, nefnum engin nöfn. Fyrsti stafurinn er DV,“ segir hann og hlær.

Efni í stuttmynd

Gísli var ánægður með upphaf Ófærðar á sínum tíma en segir að nú sé svo sannarlega mál að linni. „Ófærð 3 hefði alveg gert sig sem stuttmynd. Það er hægt að taka það sem gerðist; mögulegt dópsmygl sem var nú ekki meira spennandi en svo að rannsóknarlögreglumenn hrösuðu um farminn í skútu í Siglufjarðarhöfn. Það var nú öll spennan. Og svo þetta óupplýsta morð sem er afgreitt á tíu mínútum í restina með tilheyrandi skotbardaga. Þetta er fín stuttmynd.

Fyrsta Ófærðin er sannarlega langbest og maður horfði með mikilli ánægju á hana. Af því að hún stóð undir nafni. Það var ófært. Það vantaði ófærðina í þessu. Þarna var bara verið að selja ófærðartitilinn, Trapped á útlensku, og verið að gera út á forna frægð.“

Ekkert til að tala um

Gísli undrast ekki að minna hafi verið rætt um Ófærð 3 á samfélagsmiðlum en fyrri seríurnar tvær. „Það var gaman að velta fyrir sér fyrstu Ófærðarseríunni og þetta var oft til umræðu yfir kaffibollum hér á kontórnum því að það var um nóg að tala. Í þessari seríu er ekki um neitt að tala. Af því að það gerist ekki neitt.

Það eru reyndar áhugaverðar persónur þarna en því miður er illa farið með allar hliðarsögurnar. Eins og góð hliðarsaga getur bjargað seríu. Þarna dóu hliðarsögurnar bara úti í vegarkantinum,“ segir Gísli og telur sig geta bent á pláss sem hefði mátt nýta betur.

„Það er svo sem aldrei hægt að gera öllum hliðarsögunum skil en ef þú hefðir tekið út þrjá þætti með mótorhjólaklíkunni og unnið í staðinn meira í sambandi Andra við aðrar persónur, eins og til dæmis móður sína. Það var nú dálítið reynt að vinna með það þarna. Og eiginmaður Hinriku, Bárður. Mér fannst hann mjög góður í fyrstu seríunni. Svona gamall hasshaus. Alltaf að fá sér. Haggaðist aldrei á honum brúnin. Það eru svona persónur sem hefði verið hægt að gera mikið með.“