Ég er fyrst og fremst hrærður, þetta er óskaplega skemmtilegt. Ég vil hrósa Forlaginu fyrir framtakið því þetta er svo mikil hvatning. Ég hef skrifað heillengi en ekki birt margt og lesendahópurinn hefur fram að þessu takmarkast við konu mína, fjölskyldu og bestu vini,“ segir Einar.

Að fanga stemningu

Einar hefur áður sent frá sér ævisögu Arons Einars Gunnarssonar knattspyrnumanns. „Það var algjört draumaverkefni því ég er gamall fótboltastrákur. Þetta var skemmtileg leið til að samtvinna skrif og íþróttaáhuga og ég lærði þarna hvað það skiptir miklu máli að setjast niður daglega og skrifa. Stór hluti af vinnuferlinu er að skrifa ekki bara út frá hugmyndaauðgi heldur líka vöðvaafli.“

Einar hefur samið texta fyrir tónlistarmenn og má þar nefna Jón Jónsson, GDRN, Jóhönnu Guðrúnu og Helga Björnsson. Spurður hvort það sé allt annars eðlis að skrifa dægurlagatexta og smásögur segir hann: „Já og nei. Textar við lög þurfa fyrst og fremst að hljóma ágætlega í flutningi. Það sem þeir eiga sameiginlegt með smásögum er að maður er að reyna að fanga stemningu eða senu á mjög hnitmiðaðan hátt.“

Óuppgerð óþægindi

Smásagnasafnið Í miðju mannhafi geymir átta sögur. „Ég byrjaði að skrifa þær markvisst fyrir rétt rúmu ári. Einhverjar hugmyndir höfðu ratað til mín áður en voru ekki mikið meira en ein lína á blaði og svo kviknuðu nýjar hugmyndir þegar ég byrjaði markvisst að vinna að smásagnasafni. Ég var það lánsamur varðandi þessa keppni að ég var kominn með slatta af sögum þegar ég sá keppnina auglýsta.“

Um umfjöllunarefni smásagnanna segir hann: „Þetta eru raunsæislegar samtímasögur og það má segja að ég hafi sótt innblástur í orðið „tóm“. Hver einasta manneskja er að vissu leyti púsluspil gagnvart öðrum manneskjum en ekki síður andspænis sjálfri sér. Í þetta púsluspil sem manneskjan er vantar stundum stykki sem skapa tóm. Þetta tóm birtist í hversdagsleikanum sem söknuður eða þrá eftir einhverju sem var eða við áttum einu sinni eða vitum að við munum aldrei eignast. Ég reyni líka að nálgast þetta umfjöllunarefni með húmor og hlýju.

Þegar verkið var komið á prent uppgötvaði ég að sögurnar fjalla líka að miklu leyti um karlmennsku. Ég settist ekki niður með það markmið að skrifa sögur um karlmennsku en það umfjöllunarefni smeygði sér inn í sögurnar nánast ósjálfrátt. Þarna eru karlmenn sem eru krumpaðir að innan, það kraumar eitthvað innra með þeim sem kemst ekki upp á yfirborðið nema örsjaldan og þá er jafnvel voðinn vís. Að því leyti fjalla sögurnar um samskipti og samskiptaleysi og óuppgerð óþægindi.“

Einar er farinn að huga að næsta verki. „Þá kemur aftur að hvatningunni sem felst í verðlaununum og því að bókin sé komin út. Þetta er ákveðin vítamínsprauta og ég get ekki beðið eftir að skrifa meira. Ég mun skrifa fleiri smásögur en akkúrat núna er ég að vinna í lengra verki.“