Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah er nýkomin út hjá bókaforlaginu Angústúru. Bókin kemur út í þýðingaritröðinni Bækur í áskrift og er sjöunda bókin sem kemur út í þeim flokki. Bókin hefur setið á metsölulista The New York Times frá því hún kom út árið 2016 og hefur henni meðal annars verið lýst sem ástarbréfi til einstakrar móður. Kvikmynd eftir bókinni er í bígerð og mun Lupita Nyong’o framleiða hana með Noah og leika móður hans.

„Trevor Noah er þekktastur fyrir að stýra bandaríska sjónvarpsþættinum The Daily Show með beittum stjórnmálaskýringum. Hann er líka þekktur fyrir uppistand sitt. Hann er frá Suður-Afríku og titill bókarinnar vísar í það að tilvist hans var ólögleg á tímum aðskilnaðarstefnunnar þar sem samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert. Móðir hans er Xhosa og faðir hans Svisslendingur. Í bókinni segir hann frá uppvaxtar- og unglingsárum sínum í Suður-Afríku, bæði á tímum aðskilnaðarstefnunnar og eftir að henni lauk,“ segir María Rán Guðjónsdóttir sem rekur Angústúru ásamt Þorgerði Öglu Magnúsdóttur. Þær stofnuðu bókaforlagið árið 2016 og fyrir einu og hálfu ári kom út fyrsta bókin í þýðingaritröðinni Bækur í áskrift.

Sagan án skrauts

„Þýðingaröðin var nokkuð sem okkur langaði að gera alveg frá upphafi. Sumir sögðu við okkur að örugg leið til að tapa peningum væri að gefa út bókmenntaþýðingar. En okkur hefur tekist þetta, sérstaklega með því að bjóða upp á bækurnar í áskrift,“ segir María Rán.

„Það er töluvert þýtt af verkum yfir á íslensku en okkur langaði til að sjá fleiri bækur frá fjarlægari löndum og öðrum menningarheimum,“ segir Þorgerður Agla. „Þetta eru sterk bókmenntaverk og um leið aðgengileg, ekkert torf.“

Vandað er til bókanna í ritröðinni bæði hvað varðar innihald og útlit. Kiljurnar eru saumaðar og prentaðar á umhverfisvænan pappír. Snæfríð Þorsteins er hönnuður bókanna. „Við hönnunina hafði ég í huga að búa til form sem gæti stækkað yfir í bókaflokk og þægilegt væri að eiga við. Ég vildi skapa sérstaka heild sem væri samt hægt að tengja yfir í mismunandi menningarheima. Á sama tíma langaði mig til að vísa í hið klassíska franska form þar sem sagan sjálf stendur án mikils skrauts,“ segir Snæfríð, en hún var tilnefnd til Íslensku hönnunarverðlaunanna í fyrra fyrir hönnun sína á Bókum í áskrift.

Fótanudd í pósti

Í ritröðinni koma út fjórar bækur á ári. Bækurnar eru seldar í bókabúðum en einnig í áskrift og þær stöllur segja að sífellt fjölgi í áskrifendahópnum. „Það er greinilegt að fólk vill fá sögur frá ólíkum menningarheimum. Einhver sagði að það að fá bók frá okkur væri eins og að fá fótanudd í pósti,“ segir Þorgerður Agla. Þeim þykir athyglisvert að sjá að bækurnar höfða til ólíkra aldurshópa, áskrifendur eru allt frá tvítugu fólki upp í nírætt og sumir lesendur jafnvel á unglingsaldri. Ungt fólk virðist sérstaklega hrifið af hönnuninni.

„Við reynum að gera áskriftina persónulega, við handpökkum bókunum og sérhannað póstkort fylgir hverri bók. Við finnum að áskrifendur kunna vel að meta það og geyma jafnvel pakkann óopnaðan í nokkra daga uppi í hillu og dást að honum þar áður en þeir opna hann,“ segir María Rán. Snæfríð bætir við: „Pakkinn er hluti af heildarhugsuninni í hönnuninni og á að gera bókina að glaðningi og skapa ánægjulega upplifun.“

Allir hafa gaman af því að fá pakka með póstinum og því tók Angústúra nú nýlega upp á því að bjóða einnig barnabækur í áskrift, íslenskar og þýddar bækur fyrir lesendur á aldrinum 9-13 ára.

Glæpur við fæðingu er fyrsta bókin af fjórum sem koma út í þýðingaritröðinni þetta árið. Meðal þeirra bóka sem lesendur eiga von á er ein eftir Xiaolu Guo en bók hennar Einu sinni var í austri kom út í fyrra og vakti mikla athygli.