Kjóllinn er afar glæsilegur, úr miðnæturbláu sléttflaueli. Búist var við að kjóllinn færi á 250 til 350 þúsund pund eða 40-60 milljónir íslenskra króna hjá uppboðshaldaranum Kelly Taylor. Díana heitin klæddist þessum fallega kjól þegar hún var ásamt þáverandi eiginmanni sínum, Karli prins, í opinberri heimsókn hjá Nancy og Ronald Reagan í Hvíta húsinu. Í galaveislu sem haldin var fyrir hina konunglega gesti tók Díana frægt dansspor með Hollywood-leikaranum John Travolta sem hafði gert garðinn frægan í dans- og söngvamyndunum Saturday Night Fever og Grease. Kjóllinn var hannaður af Victor Edelstein sem starfaði hjá Oscar de la Renta og hannaði mikið fyrir bresku konungsfjölskylduna.

Kjóllinn úr Hvíta húsinu var fyrst seldur á uppboði árið 2013 ásamt níu dressum sem voru í eigu Díönu prinsessu. Uppboðið fór fram hjá Kelly Taylor í London.

Fyrir uppboðið var sagt að áhugi væri á kjólnum en kaupendur sem höfðu sýnt honum áhuga væru bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þetta er í annað skiptið sem þessi sami kjóll fer á uppboð. Rómantískur herramaður keypti hann á uppboði árið 2013 fyrir 200 þúsund pund til að gefa konu sinni. Kjóllinn hafi þó endað inni í skáp ónotaður. Hjónin vildu því að hann kæmist í hendur nýrra eigenda sem tókst þó ekki.

Karl og Díana í opinberri heimsókn í Hvíta húsinu í nóvember 1985 hjá Ronald Reagan og Nancy. Heimsóknin vakti mikla athygli um allan heim.

John Travolta var spurður um dansinn með Díönu fyrir stuttu og sagðist hann hafa verið mjög stressaður þá stund. Hann mun þó aldrei gleyma þessu atviki. „Þetta er einn af hápunktum lífs míns,“ hefur hann sagt í sjónvarpsviðtali. Travolta endurtók það í viðtali við Yahoo Entertainment fyrir stuttu. Hann sagðist ekki hafa grunað á nokkurn hátt þegar hann mætti í veislu í Hvíta húsinu að hann ætti eftir að dansa við prinsessuna. Hins vegar hefði Nancy Reagan planlagt dansinn. „Þetta var sannarlega ótrúleg stund,“ segir hann.

Þótt kjóllinn sé afar glæsilegur kostaði hann mikið og gekk ekki út.

Þótt fallegi galakjóllinn hafi ekki selst á þessu uppboði fór annar kjóll sem einnig var í eigu Díönu. Flauelskjóll sem hannaður var af Kathrine Cusack og seldist á 48 þúsund pund eða rúmar sjö milljónir íslenskra króna.