Valentino er fæddur árið 1932 og nefndur eftir einni fremstu stjörnu þöglu myndanna, Ru­dolph Valen­tino. Það má ætla að glamúrinn hafi fylgt hönnuðinum frá fyrstu tíð. Valentino gekk í fremstu lista­skóla Evrópu, í Mílanó og í París. Hann stofnaði Valentino-tísku­húsið í Róm árið 1959 með kærasta sínum, við­skipta­manninum Gian­­car­lo Giam­metti. Þeir voru par í 12 ár og þrátt fyrir sam­bands­slitin hafa þeir unnið saman allar götur síðan. Valentino heims­frum­sýndi fyrstu línuna árið 1962 við góðan orð­stír og hefur frá þeim tíma verið í flokki fremstu hönnuða.

Pi­erpa­olo Piccoli gekk til liðs við tísku­húsið árið 1999. Hann tók við sem list­rænn stjórnandi árið 2008 og leysti af Ales­söndru Facchinetti sem gegnt hafði stöðunni í eitt ár. Höfuð­stöðvar fyrir­tækisins eru í Mílanó en list­ræn stjórnun fer fram í Róm.

Línan var sýnd á hinum flug­hálu Spænsku þrepum í Róm sem Vogu­e lýsir sem frægum sýningar­stað fyrir hátt erfið­leika­stig í fram­setningu, bæði vegna þess að erfitt sé fyrir módelin að ganga þar niður og einnig vegna þess hvernig í­burðar­mikið um­hverfið getur drekkt sjón­rænum á­hrifum fatnaðarins. Tísku­sýningar á þrepunum eiga sér langa sögu en á bilinu 1986–2003 fór þar fram ár­leg sam­sýning ítölsku tísku­húsanna, Donna Sotto le Stelle, sem sjón­varpað var í beinni út­sendingu.

„Þetta er per­sónu­leg lína vegna þess að hún snýst svo mikið um sögu Valentino-merkisins,“ sagði Piccoli á blaða­manna­fundi í kjöl­far sýningarinnar. At­hygli vekur að 120 hönnunar­nemum var boðið að vera við­staddir sýninguna en Piccolo lýsti því hversu mikil­væg ítalska sam­sýningin forðum hafði verið fyrir hann sem ungan hönnuð og vildi því leyfa yngri kyn­slóðinni að fá inn­blástur úr bestu sætunum.

Neonguli liturinn á kjólnum naut sín vel á fyrirsætu sem skartaði bleiku hári.
Fréttablaðið/Getty
Valentino-rauði liturinn birtist í rósum á skónum og tónar skemmtilega við lime-græna tískulitinn í mittislindanum.
Fréttablaðið/Getty
Víðu sniðin eru enn á sínum stað eftir sterka innkomu í heimsfaraldrinum.
Fréttablaðið/Getty
Margar fyrirsætur báru íburðarmikið fjaðraskraut á Spænsku þrepunum.
Fréttablaðið/Getty
Silfrað glitrandi efni vakti athygli í línunni þetta árið og vísar ef til vill í aldamótatískuna sem snúið hefur aftur af krafti.
Fréttablaðið/Getty
Valentino Garavani kveikti sér í sígarettu í Lundúnaheimsókn árið 1968. Heimsóknin var í aðdraganda tískusýningar á vetrarlínu Valentino, á Savoy-hótelinu tveimur dögum eftir að ljósmyndarinn Ron Case smellti af þessari mynd.
Fréttablaðið/Getty