Valentino er fæddur árið 1932 og nefndur eftir einni fremstu stjörnu þöglu myndanna, Rudolph Valentino. Það má ætla að glamúrinn hafi fylgt hönnuðinum frá fyrstu tíð. Valentino gekk í fremstu listaskóla Evrópu, í Mílanó og í París. Hann stofnaði Valentino-tískuhúsið í Róm árið 1959 með kærasta sínum, viðskiptamanninum Giancarlo Giammetti. Þeir voru par í 12 ár og þrátt fyrir sambandsslitin hafa þeir unnið saman allar götur síðan. Valentino heimsfrumsýndi fyrstu línuna árið 1962 við góðan orðstír og hefur frá þeim tíma verið í flokki fremstu hönnuða.
Pierpaolo Piccoli gekk til liðs við tískuhúsið árið 1999. Hann tók við sem listrænn stjórnandi árið 2008 og leysti af Alessöndru Facchinetti sem gegnt hafði stöðunni í eitt ár. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Mílanó en listræn stjórnun fer fram í Róm.
Línan var sýnd á hinum flughálu Spænsku þrepum í Róm sem Vogue lýsir sem frægum sýningarstað fyrir hátt erfiðleikastig í framsetningu, bæði vegna þess að erfitt sé fyrir módelin að ganga þar niður og einnig vegna þess hvernig íburðarmikið umhverfið getur drekkt sjónrænum áhrifum fatnaðarins. Tískusýningar á þrepunum eiga sér langa sögu en á bilinu 1986–2003 fór þar fram árleg samsýning ítölsku tískuhúsanna, Donna Sotto le Stelle, sem sjónvarpað var í beinni útsendingu.
„Þetta er persónuleg lína vegna þess að hún snýst svo mikið um sögu Valentino-merkisins,“ sagði Piccoli á blaðamannafundi í kjölfar sýningarinnar. Athygli vekur að 120 hönnunarnemum var boðið að vera viðstaddir sýninguna en Piccolo lýsti því hversu mikilvæg ítalska samsýningin forðum hafði verið fyrir hann sem ungan hönnuð og vildi því leyfa yngri kynslóðinni að fá innblástur úr bestu sætunum.





